Horft yfir svæðið Skíðaskálinn er dökklitaða húsið fyrir miðri mynd, næst fjallinu, en sjá má viðbyggingu.
Horft yfir svæðið Skíðaskálinn er dökklitaða húsið fyrir miðri mynd, næst fjallinu, en sjá má viðbyggingu. — Teikningar/Alternance
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baldur Arnarson baldura@mbl.is

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Grettir Rúnarsson, framkvæmdastjóri Heklubyggðar, segir áformað að hefja framkvæmdir við Skíðaskálann í Hveradölum þegar breytingar á deiliskipulagi hafa verið samþykktar.

Fjallað var um áformin í Morgunblaðinu síðastliðinn fimmtudag en Grettir vinnur að þessu verkefni ásamt eiginkonu sinni, Ólöfu Ástu Guðmundsdóttur, og fjölskyldu.

Til stendur að bjóða upp á margvíslega afþreyingu á svæðinu, þar með talið skíðabrekkur, hlaupa- og hjólaleiðir og heilsulind með leirböðum.

Þurfti ekki í umhverfismat

„Deiliskipulagið var samþykkt í fyrrahaust að undangengnu umhverfismati. Eftir að deiliskipulagið var samþykkt ákváðum við að bæta við hótelinu. Það var úrskurðað að hótelið þyrfti ekki að fara í umhverfismat og er það nú í deiliskipulagsferli hjá sveitarfélaginu,“ segir Grettir en áformað er að reisa 150 herbergja hótel skáhallt á móti Skíðaskálanum.

Grettir segir jafnframt standa til að reisa um 500 fermetra viðbyggingu við Skíðaskálann sem verði blanda af gróðurhúsi og veitingastað. Hluti hennar verði nýttur undir skíðabar, eða svonefndan Après-ski-bar upp á frönsku, sem muni snúa að skíðasvæðinu.

Skíðabrekkurnar verði nothæfar allt árið um kring með því að leggja plast- og gúmmímottur í brekkurnar. Dæmi um slíka aðstöðu sé Copenhill-skíðabrekkan en hún er á hallandi þaki orkuvers í Amager í Kaupmannahöfn.

Að sögn Grettis er löng hefð fyrir skíðaiðkun á svæðinu enda hafi Norðmaðurinn L.H. Müller, einn helsti skíðafrömuður landsins, byggt þar upp aðstöðu til skíðaiðkunar.

Hundrað ára hefð

Þá hafi verið boðið upp á leirböð á svæðinu síðan 1927 en tveimur árum síðar hafi hjónin Anders C. Höyer frá Danmörku og Erica Hartmann frá Lettlandi hafið þar ræktun í gróðurhúsi með jarðhitanum. Fyrirhugað skíðahótel muni því skírskota til skíðasögu Íslands og fyrirhuguð gróðurhús og leirböð vísa til langrar hefðar.

„Við eigum Skíðaskálann og lóðina í kring og ætlum að setja upp heilsulind sem byggir á leirnum og gufunni eins og var fyrir hundrað árum. Við eigum borholu við hlið skálans og ætlum að nýta hana til að verða sjálfbær um hita og rafmagn,“ segir Grettir.

Leita samstarfsaðila

Hann sér fyrir sér að gestir Skíðaskálans í Hveradölum muni dvelja hálfu og heilu dagana við mismunandi afþreyingu á svæðinu þegar fyrirhugaðri uppbyggingu við skálann lýkur. Fjölskyldan ætli sér ekki að reka alla þætti starfseminnar heldur leita góðra samstarfsaðila. Þar með talið við rekstur hótels og gróðurhúsa.

„Þarna verður margþætt starfsemi og með 150 herbergja hóteli má segja að verið sé að setja punktinn yfir i-ið. Þegar skipulagsyfirvöld hafa samþykkt hótelið ætlum við að hefja framkvæmdir en af því að við bættum hótelinu við þurftum við að stokka upp svæðið. Þar sem hótelið á að rísa var áður gert ráð fyrir þjónustuhúsi fyrir gönguhópa, reiðhjólaleigu og annarri þjónustu. Síðar áttuðum við okkur á því að bílastæðin voru orðin miðsvæðis á besta stað og að eðlilegra væri að hafa þau nær þjóðveginum. Þar væri minna lýti af þeim. Þannig að þau voru líka færð til. Nú er þetta allt að koma heim og saman en það hefur tekið 11 ár að koma verkefninu á þennan stað,“ segir Grettir.

Verði á hóflegu verði

Hverjir eru markhópar ykkar?

„Auðvitað eru allir velkomnir. Fyrst og fremst vonumst við þó til að Íslendingar komi reglulega til okkar í útivist og komi svo í heilsulindina á hagstæðu verði,“ segir Grettir. Miðað sé við að kostnaður við að sækja böðin verði nær því sem þekkist í sundlaugunum en í baðlónum víðs vegar um landið.

„Á svæðinu verður hægt að hjóla, hlaupa, ganga, skíða, klifra og njóta baða og veitinga. Boðið verður upp á reglulegar sætaferðir til og frá svæðinu og munu gestir því geta notið góðra veiga á barnum eftir útiveruna. Jafnframt hyggjumst við höfða til erlendra ferðamanna sem geta komið í pakkaferðir eða notið þjónustu okkar í aðeins um 25 mínútna akstursfjarlægð frá miðborg Reykjavíkur,“ segir Grettir.

Fyrirhugað er að reisa gróðurhús á svæðinu. Rifjast þá upp sunnudagsbíltúrar í Eden í Hveragerði forðum daga. Grettir segir aðspurður standa til að bjóða upp á heimaræktað grænmeti og ávexti. Þá sé til skoðunar að setja upp eimingarhús fyrir framleiðslu á sterku áfengi með sýningarsal.

Verður opinn allt árið

Grettir segir aðspurður ekki búið að semja við rekstraraðila á skíðahótelinu. Hins vegar hafi Heklubyggð samið við Ólöfu Örnu Gunnlaugsdóttur og Hlyn Friðfinnsson, og annað samstarfsfólk þeirra frá Selfossi, um veitingarekstur í Skíðaskálanum. Þau muni standa vaktina með októberfest-skemmtun í haust og jólahlaðborði í kjölfarið.

„Það stendur til að hafa skálann opinn allan ársins hring. Við ætlum að bjóða upp á íslenskar veitingar, þessar gömlu og góðu, þar með talið kökuhlaðborð,“ segir Grettir.

Sviflína á Reykjafelli

Þá stendur til að setja upp sviflínu (e. zipline) á Reykjafelli og klifurgarð við jaðar svæðisins. Loks eru hugmyndir um útsýnispall á Reykjafelli, við enda skíðalyftunnar, en þaðan verður meðal annars útsýni til Heklu, Eyjafjallajökuls, Snæfellsjökuls og Faxaflóa.

Samhliða þessu er áformað að byggja baðhús og baðlón í Stóradal, skammt frá Skíðaskálanum.

„Stóra baðlónsverkefnið er nú alfarið í eigu Hveradala ehf. Við skiptum þessu upp fyrir hér um bil þremur árum og nú eru þetta tvö aðskilin verkefni en unnin í góðu samstarfi. Okkur hlakkar til að bjóða gestum að prufa leirböð með haustinu en við munum greina nánar frá því síðar,“ segir Grettir.

Mikill áhugi fjárfesta

Þórir Garðarsson, stjórnarformaður Hveradala ehf., segir framkvæmdir við baðlón í Stóradal í undirbúningi.

„Við höfum ákveðið að tjá okkur ekki mikið um verkefnið á meðan við erum að ganga frá hönnun. Lónið er í hönnunarferli. Við munum vonandi senda eitthvað frá okkur með haustinu,“ segir Þórir.

Hópur fjárfesta eigi Hveradali ehf. og sé uppbyggingin af þeirri stærðargráðu að fá þurfi fleiri fjárfesta að borðinu.

„Við höfum fundið fyrir miklum áhuga fjárfesta,“ segir Þórir. Verkefnið eigi sér tíu ára aðdraganda en lónið sé það eina á Íslandi sem farið hafi í gegnum umhverfismat.

Höf.: Baldur Arnarson