Tónlistarhátíð Fjölbreyttir tónlistarmenn stíga á svið og skemmta gestum og eyjaskeggjum á veitingastaðnum á Hótel Flatey.
Tónlistarhátíð Fjölbreyttir tónlistarmenn stíga á svið og skemmta gestum og eyjaskeggjum á veitingastaðnum á Hótel Flatey. — Morgunblaðið/Eggert Jóhannesson
Sumarhátíð Hótels Flateyjar hefur verið í gangi í allt sumar og er þetta fjórtánda árið þar sem hún er haldin. Um er að ræða tónlistarhátíð þar sem tónlistarmenn koma til Flateyjar og skemmta gestum hótelsins og eyjarskeggjum

Viktoría Benný B. Kjartansdóttir

viktoria@mbl.is

Sumarhátíð Hótels Flateyjar hefur verið í gangi í allt sumar og er þetta fjórtánda árið þar sem hún er haldin. Um er að ræða tónlistarhátíð þar sem tónlistarmenn koma til Flateyjar og skemmta gestum hótelsins og eyjarskeggjum.

Ágúst Úlfur Eyrúnarson, kokkur á Hótel Flatey, lýsir sumarhátíðinni á hótelinu sem frábærri og segir að dagskráin hafi verið vel heppnuð í ár með hverju gæðaatriðinu hverju á fætur öðru. Í ár voru fleiri tónleikar en venjulega en einnig voru haldnir tónleikar á mánudögum.

„Þetta er bara búið að vera alveg virkilega frábært,“ segir Ágúst. Hann segir að hugmyndin á bak við það að hafa tónleika á mánudögum og fimmtudögum sé að fá þekktari tónlistarmenn til þess að koma til þeirra þegar þeir eru á leiðinni til eða frá öðrum tónleikum.

„Við erum að reyna að smíða þetta með listamönnunum, þannig að þeir séu ekki alltaf á laugardögum þar sem allir vilja fá tónlistarmenn á laugardögum.“ segir Ágúst.

Engin ein tónlistarstefna

Að sögn Ágústs hefur verið góð mæting á tónleikanna í sumar: „Mætingin hefur verið alveg frá því að það sé vel þéttur salur og yfir í að það sé algjörlega stappað.“ Hann segir að stemningin sé búin að vera alveg dásamleg, bæði hjá tónlistarmönnum og gestum. „Það eru allir voða glaðir að koma hingað og margir koma aftur og aftur. Ég held til dæmis að SKE hafi verið í fjórtánda skipti í sumar og Elín Kristjánsdóttir er örugglega búin að vera að minnsta kosti tíu sinnum. Ásgeir Trausti hefur líka oft komið og haldið stórkostlega tónleika.“

„Þetta er allt frá harmónikuballi yfir í tónleika með SKE eða Ásgeiri Trausta. Þetta er svo ótrúlega fjölbreytt og engin ein tónlistarstefna. Þetta er meðal annars fyrir fjölskylduna, eldra fólk eða fólkið í eyjunni, það er eitthvað fyrir alla yfir sumarið “ segir Ágúst.

Hvaða aldurshópur er mest að mæta?
„Þetta er mjög miðaldra, en svo breytist það aðeins eftir því hvaða tónlistaratriði er,“ segir Ágúst. Að sögn hans koma yfirleitt eyjarskeggjar á alla tónleikana, en einnig koma gestir hótelsins sem bóka sig oft sérstaklega til að hlusta á tiltekna tónlistarmenn.

Einstök upplifun

„Ásgeir Trausti var alveg einstakur og að sjá hann í svona litlu samhengi er frekar sjaldgjæft í dag og einstök upplifun,“ segir Ágúst, spurður hvort eitthvað stæði upp úr. „Diddú og Davíð Þór píanóleikari voru einnig mjög mögnuð. SKE var svo allt öðruvísi, gamaldags sveitaball með miklu partíi.“ bætir hann við.

„Hótelið rekur veitingastað í samkomusal eins og ungmennafélagið gerði fyrir mörgum árum og það er í rauninni partur af þessari sumarhátíð líka, þessi samfélagslega ábyrgð hótelsins að reyna að halda lífi í eyjunni og bjóða upp á eitthvað fyrir bæði eyjarskeggjana og gestina á hótelinu,“

Síðustu tónleikarnir verða 14. ágúst þegar tónlistarmaðurinn Eyþór Ingi Gunnlaugsson stígur á svið.