Víðtæk leit Leitin við Kerlingarfjöll stóð yfir í tæpan sólarhring og komu 264 björgunarsveitarmenn frá Suður- og Norðurlandi að henni.
Víðtæk leit Leitin við Kerlingarfjöll stóð yfir í tæpan sólarhring og komu 264 björgunarsveitarmenn frá Suður- og Norðurlandi að henni. — Ljósmynd/Landsbjörg
Umfangsmikilli leit, sem stóð yfir í tæpan sólarhring við Kerlingarfjöll að tveimur einstaklingum sem taldir voru hafa lokast inni í helli eða sprungu, var hætt á sjöunda tímanum í gærkvöldi eftir að grunur kom upp að um falsboð hafi verið að ræða

Birta Hannesdóttir

birta@mbl.is

Umfangsmikilli leit, sem stóð yfir í tæpan sólarhring við Kerlingarfjöll að tveimur einstaklingum sem taldir voru hafa lokast inni í helli eða sprungu, var hætt á sjöunda tímanum í gærkvöldi eftir að grunur kom upp að um falsboð hafi verið að ræða. Slíkur verknaður varðar við almenn hegningarlög.

Á mánudagskvöldið barst Neyðarlínunni stafræn tilkynning á ensku í netspjalli um að tveir væru fastir í helli á svæðinu og voru allar björgunarsveitir á Suðurlandi sem og sérhæfðir hópar af höfuðborgarsvæðinu boðuð á svæðið.

Samkvæmt IP-tölu sem fylgdi neyðarboðunum virtust ferðamennirnir vera við Eyvind, suður af Eystri-Loðmundarjökli. Talið var að um tvo einstaklinga væri að ræða, tilkynnanda og annan til, en ekkert var vitað um uppruna þeirra, kyn eða aldur.

Óvenjulegar aðstæður

Jón Þór Víglundsson upplýsingafulltrúi Landsbjargar sagði í samtali við mbl.is í gær að óvenjulegar aðstæður hefðu verið við leitina og hafi hún verið að mörgu leyti erfið. Leit stóð yfir alla nóttina en bar engan árangur. Í gærmorgun var því ákveðið að víkka leitarsvæðið og var byrjað að skima í jökulsprungur þar sem leit í hellum á svæðinu hafði ekki borið árangur.

Síðdegis í gær fundu björgunarsveitir mannlausan bílaleigubíl við tjaldsvæðið við „Highland Base“ í Kerlingarfjöllum sem var talinn tengjast ferðamönnunum sem leitað var að. Björgunarfólk kallaði því út fjóra sporhunda til að þefa af bílnum og rekja slóðina frá honum. Síðar kom í ljós að bíllinn gat ekki tengst umræddum ferðamönnum. Myndefni frá eftirlitsmyndavélum við bílastæðið sýndi tvo menn fara úr bílnum, en þeir sem leitað var að höfðu verið taldir týndir síðan á mánudagskvöld.

Til stóð að leita áfram í gærkvöldi og höfðu björgunarsveitir frá öllu Suðurlandi, Norðurlandi vestra og Norðurlandi eystra verið kallaðar út en klukkan 18:30 var ákveðið að hætta leit. Í heildina komu 264 björgunarsveitarmenn að leitinni.

Þyrla Landhelgisgæslunnar kom einnig að leitinni en lélegt skyggni á mánudagskvöld gerði henni erfitt fyrir og þurfti hún því að hverfa á brott. Þyrlan tók þó aftur þátt í leitinni um tíma í gær.

Leita uppruna beiðninnar

Eins og áður sagði ákvað lögreglustjórinn á Suðurlandi í samráði við Landsbjörg að fresta leitinni á sjöunda tímanum í gærkvöldi. Það var gert vegna þess að leitin hafði engan árangur borið auk þess sem grunur lék á um að um falsboð hefði verið að ræða. Í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi sagði að unnið hefði verið náið með tölvurannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu til að greina uppruna neyðarbeiðninnar. Í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi sagði Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, að ýmislegt í boðunum benti til þess að um væri að ræða falsboð en hann vildi ekki upplýsa það nánar. Lögreglan mun áfram rannsaka málið.

Eins og fyrr segir varðar falsboð til viðbragðsaðila við almenn hegningarlög. Í 120. grein hegningarlaga segir:

„Ef maður gabbar lögreglumenn, brunalið, björgunarlið eða annað hjálparlið með því að kalla eftir hjálp að ástæðulausu eða með misnotkun brunaboða eða annarra hættumerkja, þá varðar það sektum eða [fangelsi] allt að 3 mánuðum.“