Frambjóðendur Kamala Harris og Tim Walz komu saman fram á kosningafundi í Pennsylvaníu í gærkvöldi.
Frambjóðendur Kamala Harris og Tim Walz komu saman fram á kosningafundi í Pennsylvaníu í gærkvöldi. — AFP/Andrew Harnik
Kamala Harris, varaforseti Bandaríkjanna og forsetaframbjóðandi Demókrataflokksins, útnefndi Tim Walz ríkisstjóra Minnesota sem varaforsetaefni sitt í gær í komandi forsetakosningum í nóvember. Harris hafði upprunalega í hyggju að tilkynna um…

Kamala Harris, varaforseti Bandaríkjanna og forsetaframbjóðandi Demókrataflokksins, útnefndi Tim Walz ríkisstjóra Minnesota sem varaforsetaefni sitt í gær í komandi forsetakosningum í nóvember.

Harris hafði upprunalega í hyggju að tilkynna um varaforsetaefnið í SMS-skilaboðum til stuðningsfólks en þessar upplýsingar virðast hafa lekið til bandarískra fjölmiðla. Harris tilkynnti um ákvörðun sína Í færslu á samfélagsmiðlinum X og sagðist stolt af því að hafa valið Walz sem varaforsetaefni sitt. „Sem ríkisstjóri, þjálfari, kennari og fyrrum hermaður hefur hann unnið fyrir verkamannafjölskyldur eins og hans eigin. Það er frábært að fá hann í liðið,“ skrifaði hún.

Walz er sextugur og er nú á sínu öðru kjörtímabili sem ríkisstjóri en áður var hann þingmaður í 12 ár, starfaði í þjóðvarðliði landsins í 24 ár og kenndi í menntaskóla í Mankato í Minnesota og þjálfaði ruðningslið skólans.

Walz tjáði sig á X í gær, sagði útnefninguna vera heiður lífs síns og að þetta minnti hann dálítið á fyrsta skóladaginn.

Joe Biden Bandaríkjaforseti fagnaði útnefningu Walz í gær, einnig í færslu á X og sagði hann vera öflugan málsvara vinnandi fólks og millistéttarinnar í Bandaríkjunum

Frambjóðendur „skrítnir“

Walz var sennilega ekki efstur á blaði margra þegar kosningabarátta Harris hófst enda lítið þekktur. En á síðustu dögum hefur orðræða Walz um Donald Trump, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna og núverandi frambjóðanda repúblikana, vakið mikla lukku meðal demókrata. Sagði Walz að Trump og J.D. Vance, varaforsetaefni hans, væru „skrítnir“ og sú einkunn hefur náð flugi meðal demókrata.

Sem ríkisstjóri hefur Walz undirritað lög er varða meðal annars afglæpavæðingu kannabiss, rétt til þungunarrofs, rétt til fæðingarorlofs og strangari skotvopnalöggjöf. Hann segist vera ákveðinn sveitastrákur og getur hann því mögulega sótt fylgi til óráðinna kjósenda á landsbyggðinni, sem hefur á umliðnum árum kosið repúblikana í vaxandi mæli.

Segja Walz hættulegan öfgamann

Framboð Trumps sagði í gær að Walz væri vinstrisinnaður róttæklingur. „Ef Walz vill ekki segja kjósendum sannleikann þá munum við gera það: Eins og Kamala Harris er Tim Walz hættulega frjálslyndur öfgamaður,“ sagði Karoline Leavitt, blaðafulltrúi framboðs Trumps, í yfirlýsingu.

Repúblikanar hafa gagnrýnt Walz fyrir að hafa ekki gripið með nægilega ákveðnum hætti í taumana þegar óeirðir brutust út í kjölfar þess að George Floyd lést í höndum lögreglumanna í Minneapolis árið 2020. Þá er hann einnig gagnrýndur fyrir umfangsmikla bólusetningarherferð í ríkinu þegar kórónuveirufaraldurinn stóð sem hæst.