Hafís Mikið var um hafís í hvalaleitarleiðangri Bjarna Sæmundssonar við Austur-Grænland í júlí. Alls voru skráðir 4.000 hvalir í leiðangrinum.
Hafís Mikið var um hafís í hvalaleitarleiðangri Bjarna Sæmundssonar við Austur-Grænland í júlí. Alls voru skráðir 4.000 hvalir í leiðangrinum. — Ljósmynd/Guðjón Már Sigurðsson
Í heildina voru um 4.000 hvalir skráðir í hvalatalningarleiðangri Hafrannsóknastofnunar sem lauk nú í byrjun ágúst. Úrvinnsla gagna er hafin að sögn Guðjóns Más Sigurðssonar, sjávarlíffræðings hjá Hafrannsóknastofnun

Sigríður Helga Sverrisdóttir

sigridurh@mbl.is

Í heildina voru um 4.000 hvalir skráðir í hvalatalningarleiðangri Hafrannsóknastofnunar sem lauk nú í byrjun ágúst. Úrvinnsla gagna er hafin að sögn Guðjóns Más Sigurðssonar, sjávarlíffræðings hjá Hafrannsóknastofnun.

Inni í þessari tölu leynast þó tví- eða þrítalningar á dýrum því þau eru talin af tveimur pöllum, efri og neðri. Þessar tví- eða þrítalningar eru mikilvægar fyrir úrvinnsluna, þar sem þær eru notaðar til að meta mun milli talningarfólks og palla.

„Lokaniðurstaða um fjölda hvala verður því að bíða fram á haust þegar við erum byrjuð að vinna úr gögnunum,“ segir Guðjón í skriflegu svari við fyrirspurn blaðsins.

Hvalatalningar á Árna Friðrikssyni HF 200 hófust mánudaginn 1. júlí og var því um mánaðarlangan túr að ræða.

Algengasta tegundin sem sást er langreyður, en þar á eftir sást mikið af grindhval, andarnefju, hnýðingi og hnúfubak sem var mjög algengur á nokkrum stöðum. Af sjaldséðari tegundum má nefna steypireyði og svínhvelið norðursnjáldra sem sáust fyrir sunnan landið.

Leiðangurinn hófst í byrjun júlímánaðar á Grænlandssundi, um 100 km vestur af Látrabjargi, þar sem komið var á fyrstu leitarlínuna. Síðan fikraði leiðangurinn sig austur með Norðurlandi þar sem ystu mörk svæðisins voru við 200 mílna mörk íslensku lögsögunnar, síðan suður með Austurlandi og loks vestur með Suðurlandi þar sem farið var suður að 200 mílna mörkunum og svo norður með Vesturlandi.

Leiðangurinn gekk almennt vel, en þó var mikið um ís á leitarsvæði Bjarna Sæmundssonar HF 30 við Austur-Grænland. Eins var nokkuð um brælu á leiðum beggja skipanna. Sambærilegum leiðöngrum Norðmanna og Færeyinga er einnig að ljúka, en flugtalning við Grænland, sem hluti af þessu verkefni, hefst í næstu viku.