Þyrla Flest útköll þyrlusveitar gæslunnar eru yfir hásumarið.
Þyrla Flest útköll þyrlusveitar gæslunnar eru yfir hásumarið. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Þegar útköll síðustu þriggja mánaða eru skoðuð sést að þyrlusveit Landhelgisgæslunnar sinnti 31 útkalli er varðar útivist og frístundir. Slík útköll hafa nær öll verið í júní og júli, en aðeins tvö þeirra voru í maí

Birta Hannesdóttir

birta@mbl.is

Þegar útköll síðustu þriggja mánaða eru skoðuð sést að þyrlusveit Landhelgisgæslunnar sinnti 31 útkalli er varðar útivist og frístundir. Slík útköll hafa nær öll verið í júní og júli, en aðeins tvö þeirra voru í maí. Þetta er um 20% fjölgun á slíkum útköllum miðað við sama tíma í fyrra.

Þetta segir Ásgeir Erlendsson upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar í svari við fyrirspurn Morgunblaðsins. Hann segir jafnframt að þyrlusveitin hafi annast slík útköll nánast hvern dag í júní og júlí en flest útköll þyrlusveitarinnar eru alla jafna yfir hásumartímann.

Miðað við útivistaráhuga landsmanna ætti vart að koma á óvart að flest útköllin vörðuðu göngufólk sem varð fyrir slysum á ferðalögum sínum um fjöll. Síðustu þrjá mánuði annaðist þyrlusveitin 18 útköll vegna slasaðs göngufólks en slík útköll voru 12 í sömu mánuðum í fyrra.

Þá var Landhelgisgæslan kölluð út í sex skipti vegna vélhjólaslysa á síðustu þremur mánuðum og brást við fjórum reiðslysum.

Í fyrra annaðist þyrlusveit gæslunnar metfjölda útkalla eða 314 talsins. Að Ásgeirs sögn gæti það met verið slegið í ár þegar tölur fyrir fyrstu sjö mánuði ársins verða skoðaðar.

Útköllin í ár eru ögn fleiri miðað við sama tíma í fyrra. Á fyrstu sjö mánuðum ársins var þyrlusveitin kölluð út í 189 skipti samanborið við 184 skipti á sama tíma í fyrra.