Markaður Frá vinstri, Auður Konráðsdóttir, Guðbjörg Gína Pétursdóttir og Alda Björk Ólafsdóttir sem stóðu vaktina í Tryggvagarði um helgina.
Markaður Frá vinstri, Auður Konráðsdóttir, Guðbjörg Gína Pétursdóttir og Alda Björk Ólafsdóttir sem stóðu vaktina í Tryggvagarði um helgina. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Hér er góður vettvangur þeirra sem þurfa að koma vörum sínum og framleiðslu í sölu. Svo er þetta er líka skemmtilegt mannlífstorg,“ segir Auður Konráðsdóttir. Hún er ein þeirra sem standa að útisölu þeirri sem í sumar er í Tryggvagarði á Selfossi

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Hér er góður vettvangur þeirra sem þurfa að koma vörum sínum og framleiðslu í sölu. Svo er þetta er líka skemmtilegt mannlífstorg,“ segir Auður Konráðsdóttir. Hún er ein þeirra sem standa að útisölu þeirri sem í sumar er í Tryggvagarði á Selfossi. Þar hefur síðan í júnílok verið starfsemi alla laugardaga – og þegar best lætur eru sölubásarnir 10 til 15 talsins. Seljendur eru margir af Suðurlandi en koma einnig af Reykjavíkursvæðinu, ofan af Skaga og jafnvel víðar frá. Margt er í boði en áberandi er handverk og matvæli ýmiss konar; svo sem kjötvörur og heimabakstur.

Staðsetningin er frábær

Sumarmarkaður sá sem lengi var í Mosfellsdal hefur nú lagst af. Auður Konráðsdóttir segir að með því hafi myndast ákveðið tómarúm fyrir seljendur og hún hafi því tekið málin í eigin hendur. „Ég bý sjálf austur á Hvolsvelli en fannst Selfoss góður staður fyrir markað. Ég leitaði því til sveitarfélagsins og fékk strax góðar viðtökur. Fyrsti markaðsdagurinn var 29. júní og vaktin hefur verið staðin alla laugardaga síðan þá,“ segir Auður sem þarna selur lífrænar snyrtivörur.

Tryggvagarður á Selfossi er blóma- og skógarreitur sunnanvert við Austurveg; aðalgötuna í gegnum bæinn. Segja má að þessi staður hafi í seinni tíð að einhverju leyti gleymst, þótt í alfaraleið sé. Áður fyrr voru í garðinum stundum samkomur til dæmis á 17. júní eða á öðrum slíkum hátíðisdögum, en lítið hefur farið fyrir slíku í seinni tíð. „Staðsetningin er frábær,“ segir Auður og væntir þess að margir líti við í Tryggvagarði um næstu helgi þegar haldin verður bæjarhátíðin Sumar á Selfossi.

Fjölbreytt dagskrá fram á sunnudag

Dagskrá Sumars á Selfossi hefst á morgun, fimmtudag, með fjölskyldutónleikum Jóns Jónssonar sem verða í Sigtúnsgarði og hefjast kl. 18.30. Svo rúllar fjölbreytt dagskrá í bænum alla helgina og á föstudag hefst Olísmótið í knattspyrnu þar sem leikmenn í fimmta flokki karla etja kappi. Á laugardag er Brúarhlaupið, sem haldið hefur verið árlega frá 1991 þegar þess var minnst að 100 ár voru liðin frá byggingu fyrstu brúarinnar yfir Ölfusá. Á laugardagskvöld er Sléttusöngurinn svonefndi í fyrrnefndum Sigtúnsgarði, nærri nýja miðbænum. Þar stýrir Magnús Kjartan Eyjólfsson trúbador fjöldasöng svo undir tekur á Suðurlandssléttunni.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson