Fagna Mótmælendur veifa fána Bangladess í höfuðborginni Dakar.
Fagna Mótmælendur veifa fána Bangladess í höfuðborginni Dakar. — AFP/Munir Uz Zaman
Nóbelsverðlaunahafinn Muhammad Yunus sagðist í gær vera reiðubúinn til að leiða bráðabirgðaríkisstjórn í Bangladess. Her landsins tók yfir stjórn á landinu eftir að forsætisráðherrann Sheikh Hasina sagði af sér embætti og flúði land á mánudag í…

Nóbelsverðlaunahafinn Muhammad Yunus sagðist í gær vera reiðubúinn til að leiða bráðabirgðaríkisstjórn í Bangladess. Her landsins tók yfir stjórn á landinu eftir að forsætisráðherrann Sheikh Hasina sagði af sér embætti og flúði land á mánudag í kjölfar blóðugra mótmæla sem verið hafa þar undanfarnar vikur.

Yunus, sem er 84 ára, er stofnandi örlánabankans Grameen og honum er þakkað að milljónum manna hefur tekist að brjótast úr örbirgð. Hann fékk friðarverðlaun Nóbels árið 2006 og nýtur mikillar virðingar í Bangladess. Leiðtogar stúdenta hvöttu hann til að leiða bráðabirgðastjórn í landinu.

„Ef aðgerða er þörf fyrir Bangladess, fyrir land mitt og hugrekki þjóðar minnar, er ég reiðubúinn,“ sagði Yunus í yfirlýsingu sem hann sendi AFP-fréttastofunni. Hann hvatti einnig til þess að boðað yrði til frjálsra kosninga.

Hasina, sem er 76 ára, var við völd í Bangladess frá árinu 2009 en hún var sökuð um að hafa beitt sér fyrir kosningasvikum í kosningum í janúar. Milljónir manna mótmæltu á götum úti og kröfðust þess að hún léti af völdum. Hundruð manna hafa látið lífið í óeirðunum og Hasina flúði land á mánudag eftir að her landsins snerist gegn henni.

Waker-Uz-Zaman, yfirmaður hers landsins, tilkynnti á mánudag að herinn myndi taka við völdum í landinu til bráðabirgða og var þing landsins leyst upp í gær. Leiðtogi stjórnarandstöðunnar krafðist þess að kosningar færu fram innan þriggja mánaða.