Sjúkrahúsið á Akureyri Ákjósanlegast þykir nú að byggja nýja heilsugæslustöð við hliðina á Sjúkrahúsinu á Akureyri.
Sjúkrahúsið á Akureyri Ákjósanlegast þykir nú að byggja nýja heilsugæslustöð við hliðina á Sjúkrahúsinu á Akureyri. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Sigríður Helga Sverrisdóttir sigridurh@mbl.is

Baksvið

Sigríður Helga Sverrisdóttir

sigridurh@mbl.is

Málefni heilsugæslu á Akureyri hafa verið miklum ólestri að undanförnu að mati Berglindar Óskar Guðmundsdóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi.

Í samtali við Morgunblaðið segir Berglind að Akureyri sé orðið 20.000 manna þjónustusvæði og ákveðið hafi verið þegar Svandís Svavarsdóttir var heilbrigðisráðherra að opna tvær heilsugæslustöðvar á Akureyri til að anna fjöldanum þar. Berglind vakti ahygli á málinu í grein í Morgunblaðinu 1. ágúst.

„Á þeim tíma [2021] lagði ég fram þingsályktunartillögu um það að önnur yrði einkarekin og farið yrði í útboð á rekstri heilsugæslunnar til þess að bæta þjónustu íbúa og bæta valkosti heilbrigðismenntaðs starfsfólks sem vill setjast að á Akureyri,“ segir Berglind. Svo gerist lítið í þeim efnum.

Það sem gerist síðan er að opnuð er ný heilsugæsla í Sunnuhlíð. „Valið á staðsetningu hefur farið um víðan völl. Húsnæðið niðri í miðbæ Akureyrar var orðið ónýtt og þá er ákveðið að fara í endurbætur á húsnæðinu í Sunnuhlíð og opnuð ný heilsugæsla þar, en hún er auðvitað sprungin,“ segir Berglind. Þá átti að opna heilsugæslustöð númer tvö og búið var að ákveða lóð og Akureyrarbær var búinn að ákveða að úthluta lóðinni fyrir þetta en þá upphófst ágreiningur um bílastæðakjallara, hver ætti að borga fyrir hann, ríkið eða bærinn. En verkefnið var komið svo langt að það voru komnar teikningar frá verktaka í bænum. Það var búið að fara tvisvar sinnum í gegnum útboð en ekkert fyrirtæki virtist fara í gegnum forval.

„Þetta leit svo út fyrir að vera allt klappað og klárt en það stoppar svo út af bílastæðakjallaranum.“

Þá segir Berglind að ákveðið hafi verið að fara í það að skipta um staðsetningu og lóðin hjá sjúkrahúsinu sé núna talin ákjósanlegust fyrir heilsugæslu númer tvö. Fá svör hafa fengist frá heilbrigðisráðuneytinu og Ríkiskaupum um af hverju staðan er svona en það er allt stopp að sögn Berglindar.

Hún segist hafa sent inn skriflega fyrirspurn til heilbrigðisráðuneytisins í vor um hver staðan væri en fékk þau svör að þetta væri allt stopp. Hún fær heldur engin svör hvað veldur.

„Nú er ég búin að vera að hringja í bæjarfulltrúa í bænum, heilbrigðisráðnuneytið og Framkvæmdasýslu ríkisins en ég veit ekki hvað veldur. En mér finnst að heilbrigðsráðherra þurfi að kýla á þetta. Hann þarf að taka af skarið.“

Blaðamaður spurði Berglindi einnig út í mál tveggja lækna sem hefur verið fjallað um í tengslum við heilsugæsluna á Akureyri en þeir sinna áfram sjúklingum sem heimilislæknar þótt þeir starfi ekki lengur hjá HSN heldur eru búnir að ráða sig til Heilsuverndar í Ögurhvarfi í Kópavogi. Þeir mega hins vegar ekki taka á móti á sjúklingum á sinni stofu á Akureyri.

„Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) eru að stíga mikið feilspor. Við erum að horfa upp á mikinn heimilislæknaskort um allt land og þeir stöðva starfsemi lækna hér af því að þeir mega ekki hitta skjólstæðinga sína á einkastofu.“

Umræddir læknar eru með tæplega 1.000 skjólstæðinga sem búa á Akureyri. Nú hefur SÍ bannað læknunum að hitta skjólstæðinga sína á einkastofu, og þurfa þeir því nú annaðhvort að fara til Reykjavíkur til að hitta lækninn þar eða læknirinn sinnir þeim í gegnum netið. Þá mega læknarnir hitta skjólstæðinga á heimilum þeirra svo nú hafa þeir brugðið á það ráð að fá vitjanabíl, til þess að hitta fólk á heimilum þeirra.

Berglind segir að Sjúkratryggingar Íslands hafi í upphafi reynt að meina öðrum lækninum að sinna skjólstæðingi sínum í gegnum Heilsuveru en hafi þurft að bakka með það. „Þeir máttu ekki banna lækninum að nota Heilsuveru í þeim tilgangi að vera í sambandi við skjólstæðinga sína.“

„Sjúkratryggingar hafa ekki átt samskipti við Heilsuvernd síðan í vor og ekki svarað erindi þeirra síðan í mars, sem er líka stórfurðulegt. Og þá veltir maður því fyrir sér hvort heilbrigðisráðuneytið þurfi ekki að stíga inní til þess að koma á samtali þarna á milli þannig að fólk sé að leysa þetta. Svo skjólstæðingarnir geti haldið áfram að njóta krafta heimilislækna sinna, sem þeir eru kannski búnir að vera hjá í mörg ár.“

Berglind segir ákveðin að pólitíkin geti ekki firrað sig ábyrgð á þessu. Hún þurfi að stíga inní.

Spurð hvort ágreiningur innan ríkisstjórnarinnar valdi þessu segir Berglind: „Það er ekkert launungarmál að við erum ekkert alveg sammála. Við erum á sitthvorum ásnum hvað varðar einkarekstur í heilbrigðiskerfinu. Og við höfum verið mjög áfram um það í Sjálfstæðisflokknum að auka fjölbreytileikann í rekstrarformi. Það má vel vera að það séu einhverjar kreddur um einkareksturinn sem kemur í veg fyrir að það sé tekið af skarið.“