Skeldýrarækt Kortið sem fylgdi með umsókn Northlight Seafood ehf.
Skeldýrarækt Kortið sem fylgdi með umsókn Northlight Seafood ehf. — Kort/Landhelgisgæslan
Fyrirtækið Northlight Seafood ehf. áformar að rækta bláskel með flekum í Önundarfirði og hefur sótt um tilraunaleyfi hjá Matvælastofnun vegna skeldýraræktar. Fyrirtækið hefur sótt um ellefu rannsóknarreiti til skeldýraræktar við Ísland

Valgerður Laufey Guðmundsdóttir

vally@mbl.is

Fyrirtækið Northlight Seafood ehf. áformar að rækta bláskel með flekum í Önundarfirði og hefur sótt um tilraunaleyfi hjá Matvælastofnun vegna skeldýraræktar.

Fyrirtækið hefur sótt um ellefu rannsóknarreiti til skeldýraræktar við Ísland. Í umsókninni segir að fyrirhuguð sé ræktun á skeldýrum með flekum og skipulegri vöktun á svæðunum. Fyrsta stig framkvæmdarinnar sé að kanna sjávarstrauma og þörungamagn til að gera áætlanir um fjölda á ræktunarflekum sem hvert svæði beri og staðsetningu þeirra. Ætlunin sé að athuga getu svæðanna til framleiðslu á bláskel til manneldis og sem burðarefni í fóður fyrir fiskeldi.

Matvælastofnun óskaði eftir umsögn Ísafjarðarbæjar, í samræmi við 9. gr. laga nr. 90/2011 um skeldýrarækt, varðandi það hvort náttúrulegar aðstæður á fyrirhuguðu ræktunarsvæði eða fyrirhugaðar tegundir, stofnar eða starfsaðferðir gefi tilefni til hættu á neikvæðum vistfræði- eða erfðafræðiáhrifum sem leitt geti af leyfisskyldri starfsemi.

Skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar gerði ekki athugasemd vegna umræddrar umsóknar á fundi sínum í lok júní.