Hveraleir Þráinn við skriðuna sem tók úr hlíðinni um miðjan júlí.
Hveraleir Þráinn við skriðuna sem tók úr hlíðinni um miðjan júlí. — Morgunblaðið/Eggert
Líklegast er að margþætt samspil gufuvirkni og mikillar úrkomu hafi valdið því að aurskriða rann fram á þeim stað og þeim tíma sem raun varð úr hlíðinni suðaustan við Skíðaskálann í Hveradölum um miðjan júlí

Ólafur Pálsson

olafur@mbl.is

Líklegast er að margþætt samspil gufuvirkni og mikillar úrkomu hafi valdið því að aurskriða rann fram á þeim stað og þeim tíma sem raun varð úr hlíðinni suðaustan við Skíðaskálann í Hveradölum um miðjan júlí. Þetta segir Þráinn Friðriksson, jarðfræðingur hjá Orkuveitu Reykjavíkur, en hann hefur skoðað verksummerki við skriðuna í félagi við sérfræðinga frá ÍSOR, Veðurstofu Íslands og Eflu.

Rofnar undan eigin þunga

Þráinn lýsir atburðarásinni sem svo að gufuvirkni veiki bergið og jarðveginn og eigi sinn þátt í því að jarðvegurinn umhverfis uppstreymisrásir gufunnar mettist með vatni. Hann segir úrkomu einnig eiga sinn þátt í að jarðvegur nái vatnsmettun og þyngi þar með jarðvegstorfuna svo mikið að hún rofni undan eigin þunga og skríði af stað niður brekkuna.

Skriðan orsakaði hvellsuðu

Skriðan hefur líklega rofið efsta jarðvegslagið ofan af gufuhver og komið af stað hvellsuðu í hvernum fremur en að orðið hafi fyrirvaralaus gufusprenging í honum, sem aftur hafi sett skriðuna af stað, að mati Þráins og þeirra sérfræðinga sem hann hefur ráðfært sig við. Segir Þráinn allt benda til að fyrst hafi farið af stað moldarrík jarðvegsskriða og bendir á að skriðan sé moldarkennd að neðan. Megnið af skriðunni sé þá þakið hveraleir sem bendi til að þessi suðan hafi átt sér stað á meðan skriðan var að renna fram. Leiðin sem skriðan fór, um 90 metra suðvestur undan frekar litlum halla að skurði samsíða malarvegi og síðan í 90 gráðu beygju ofan í skurðinn og eftir honum til vesturs bendi til að skriðan hafi ekki farið mjög hratt yfir, líklega á nokkrum mínútum, því annars hefði hún líkast til ekki stöðvast við malarveginn og breytt þar um stefnu. Þá segir Þráinn gufusprengingu eiga sér stað á nokkrum sekúndum en aurskriðu, sem kemur af stað hvellsuðu, á nokkrum mínútum. Fyrirvaralaus gufusprenging sé þannig talsvert hættumeiri. Þá helgi sem skriðuna tók úr hlíðinni var mikil úrkoma á suðvestanverðu landinu. Veðurstöðvar á Hellisskarði og á Ölkelduhálsi mældu sólarhringsúrkomu frá klukkan 6 að morgni laugardagsins 13. júlí til sama tíma að morgni sunnudagsins 14. júlí um 77 mm. Þráinn segir það verulegt úrkomumagn þó það teljist ekki „mikil úrkoma“ fyrir þessar veðurstöðvar samkvæmt skilgreiningum Veðurstofunnar á endurkomutíma úrkomuatburða.

Sviðinn gróður vísbending

Gufuvirkni í Hveradölum hefur verið að breytast og gufa hefur komið fram á nýjum stöðum bæði sunnan og austan við gufuhverina í Hveradölum. Gufuhverirnir í Hveradölum hafa verið virkir í a.m.k. marga áratugi en undanfarið hefur dregið úr virkni gufuhveranna næst skíðaskálanum.

Snoðlíkt landslag

Segir Þráinn yfirborðsvirkni á jarðhitasvæðum síkvika og að miklar breytingar geti orðið á hverasvæðum sem ekki séu í nýtingu. „Atburðir eins og þessi hafa án efa oft gerst áður á virkum jarðhitasvæðum og í því sambandi er allrar athygli vert að formið á sárinu sem skriðan skildi eftir sig í hlíðinni er mjög áþekkt skálarlaga leirflagi umhverfis gufuaugað um 60 metrum vestur af skriðusárinu. Það hefur án efa myndast við sams konar atburð,“ segir jarðfræðingurinn. Sviðinn gróður umhverfis skriðusárið og í jarðvegstorfum í skriðunni getur bent til þess að gufuvirkni í hlíðinni þar sem skriðuna tók úr hafi farið vaxandi að undanförnu.

Virknin færist til en eykst ekki

Ekki er hægt að útiloka að þrýstilækkun vegna vinnslu á Hellisheiði eigi sinn þátt í því að örva yfirborðsvirkni í Hveradölum að mati Þráins, sem segir að þannig megi einnig færa rök fyrir því að mögulega hafi jarðhitavinnsla á Hellisheiði orðið til þess að flýta því að skriðan átti sér stað nú í sumar þó líklegt verði að teljast að hún hefði farið af stað fyrr eða síðar þó engin væri vinnslan.Þá segir hann virknina meira að vera að færa sig til austurs frekar en að hún sé að aukast í heildina.

Hvorki hægt að segja af eða á

Að sama skapi megi benda á að þrýstingur í jarðhitakerfinu hafi farið lækkandi frá því að Hellisheiðarvirkjun hafi verið gangsett fyrir 18 árum og því langsótt að kenna vinnslunni um skyndilega aukningu á yfirborðsvirkni í Hveradölum. „Hér er því hvorki hægt að segja af eða á um hvort hér sé eingöngu um náttúrulegar breytingar á yfirborðsvirkni að ræða eða hvort vinnsla úr jarðhitakerfinu eigi hlut að máli.“