Ólafur E. Jóhannsson oej@mbl.is

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

„Ríkisstjórn Íslands ber alla ábyrgð á þeim langa tíma sem Búrfellslundur hefur verið í undirbúningi, en vindorkuverið sat fast í meðferð Alþingis í tæp 10 ár,“ segir Haraldur Þór Jónsson, oddviti Skeiða- og Gnúpverjahrepps, í samtali við Morgunblaðið, en hann hefur sitthvað að athuga við ummæli umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra sem og forstjóra Landsvirkjunar í blaðinu í gær um þá ætlan sveitarstjórnarinnar að kæra virkjunarleyfi fyrir Búrfellslund til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Hann bendir á að samkvæmt lögum um rammaáætlun hafi sveitarfélög heimild til að fresta því að setja virkjunarkosti í nýtingarflokki í sitt skipulag, en tilkynna þurfi um slíka frestun innan árs frá því virkjanakostur fer í nýtingarflokk. Það hafi sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps gert í júní 2023, og eins og fram komi í lögum um rammaáætlun, eigi þá að fara með virkjanakostinn sem væri hann í biðflokki. Bæði ráðherra og forstjóri Landsvirkjunar hafi síðan þá róið öllum árum að því að keyra málið áfram, en ekki rætt við sveitarfélagið.

Ekki leitað eftir samtali

„Landsvirkjun hefur ekki leitað eftir formlegu samtali og talið sig geta farið í kringum lög. Ábyrgðin liggur hjá forstjóra Landsvirkjunar og ríkisstjórninni, sem núna reyna að koma sökinni á hina kjörnu fulltrúa sem sitja í sveitarstjórn hreppsins,“ segir Haraldur Þór.

Hann segir að 15. febrúar 2023 hafi sveitarstjórnin tilkynnt að frekari virkjanir verði ekki settar í skipulag í núverandi lagaumgjörð, frekari orkuvinnsla þjónaði ekki nærsamfélaginu. Landsvirkjun hafi verið gert ljóst að Búrfellslundur yrði ekki á dagskrá sveitarstjórnar.

„Forstjóri Landsvirkjunar hefur kosið að bregðast við því með þögn og samskiptaleysi sem hann ber alla ábyrgð á. Það eina sem kemur okkur í sveitarstjórninni á óvart eru viðbrögð forstjóra Landsvirkjunar og umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra sem þykjast koma af fjöllum, en bera alla ábyrgð á stöðunni,“ segir hann.

Enginn ávinningur

Haraldur Þór segir að niðurstaða greiningar KPMG á fjárhagslegum ávinningi Skeiða- og Gnúpverjahrepps staðfesti engan ávinning hreppsins af starfsemi Landsvirkjunar. Þar spili Jöfnunarsjóður inn í, en staðreyndin sé sú að 95% orkumannvirkja séu undanþegin fasteignaskatti. Fengi Skeiða- og Gnúpverjahreppur lögbundna fasteignaskatta þyrfti Landsvirkjun að greiða margfalt hærri upphæðir til sveitarfélagsins, sveitarfélagið væri ekki háð Jöfnunarsjóði og raunverulegur ábati kæmi í nærsamfélagið.

„Í áraraðir hefur Landsvirkjun barist gegn því að greiða skatta til sveitarfélaganna og beitt Samorku af fullum þunga í þeirri baráttu,“ segir hann.

„Fullyrðing forstjóra Landsvirkjunar, um að orkusveitarfélögin séu almennt þau fjársterkustu, er hrein ósannindi og það veit forstjórinn mætavel. Sveitarfélögin með flestu orkumannvirkin eru flest lítil, veikburða og hafa skilað lélegri rekstrarafkomu í áraraðir. Ég vil aftur á móti ítreka, að sveitarfélögin sem nota mestu orkuna eru þau ríkustu, t.d. Hvalfjarðarsveit. Þar er mikil orka notuð sem framleidd er m.a. í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Þar er engin undanþága fasteignaskatta á mannvirkin sem þarf til að nota orkuna í stóriðju. Íbúar Hvalfjarðarsveitar eru um 760 og á síðasta ári skilaði sveitarfélagið 500 milljóna hagnaði og situr á 2 milljörðum á lausu fé. Það er staðreynd að ríkustu sveitarfélögin á Íslandi eru þau þar sem mesta orkan er notuð,“ segir Haraldur Þór sem segist þó hafna því að málið snúist bara um fasteignagjöld.

„Forsenda mótmæla okkar er fyrst og fremst neikvæð umhverfisáhrif Búrfellslundar í okkar samfélagi sem takmarkar möguleika okkar til annarrar nýtingar. Þar spilar ferðaþjónustan stórt hlutverk. Allt snýst þetta um að skapa starfsemi sem skilar tekjum í nærsamfélagið,“ segir Haraldur Þór Jónsson.