Njarðvík Verðandi heimavöllur Njarðvíkur í Innri-Njarðvík. Þar munu körfuboltaleikir m.a. fara fram.
Njarðvík Verðandi heimavöllur Njarðvíkur í Innri-Njarðvík. Þar munu körfuboltaleikir m.a. fara fram. — Ljósmynd/Adam Calicki
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
úr Bæjarlífinu Hermann Nökkvi Gunnarsson Reykjanesbæ

úr Bæjarlífinu

Hermann Nökkvi Gunnarsson

Reykjanesbæ

Það iðar allt af lífi í Reykjanesbæ þessa dagana en Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri Reykjanesbæjar setti Ljósanótt, fjölskyldu- og minningarhátíð Reykjanesbæjar, við hátíðlega athöfn á fimmtudaginn. Grunn- og leikskólabörn í sveitarfélaginu voru viðstödd og tónlistarmaðurinn Friðrik Dór söng fyrir börnin.

Ljósanótt er að miklu leyti hápunktur tilverunnar í Reykjanesbæ á ári hverju. Bærinn fyllist af fólki á öllum aldri sem er komið til að skemmta sér með fjölskyldu og vinum.

Stórtónleikarnir á aðalsviðinu í kvöld verða einkum tileinkaðir því að bærinn fagnar 30 ára afmæli í ár. Undir dagskrárliðnum Reykjanesbær 30 ára stíga á svið meðlimir Hjálma og Baggalúts ásamt Magnúsi Þór Sigmundssyni, Jóhanni Helgasyni, Nönnu Bryndísi, Páli Óskari, Júníusi Meyvant, Jóhönnu Guðrúnu, Sigurði Guðmundssyni, Árnýju Margréti og Guðmundi Pálssyni.

„Ljósanótt hefur mikla þýðingu fyrir okkur hér í Reykjanesbæ þar sem við komum saman og njótum menningarlífsins í botn með fjölskyldu okkar og vinum. Við hlökkum alltaf mikið til hátíðarinnar og það er ánægjulegt að taka á móti gestum sem heimsækja okkur. Saman fáum við að njóta þeirrar fjölbreyttu dagskrár sem Ljósanótt hefur upp á að bjóða fyrir alla aldurshópa,“ segir Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar, við Morgunblaðið.

Margt annað er í gangi í Reykjanesbæ. Á Aðaltorgi hefur orðið umtalsverð breyting á síðustu árum og stefnir í að þetta verði einn öflugasti verslunar- og þjónustukjarni Suðurnesja. Núna eru komnir þar tveir veitingastaðir (Langbest og Tokyo Sushi), Marriott hótel, bílaapótek Lyfjavals, gleraugnaverslunin Reykjanes Optic, hárgreiðslustofan Draumahár, heilsugæslan Höfði, ÓB sjálfsafgreiðslustöð og stærsti hraðhleðslugarður Íslands sem InstaVolt rekur.

Uppbyggingin er hvergi nærri hætt að sögn Ingvars Eyfjörðs framkvæmdastjóra Aðaltorgs ehf. Framkvæmdir eru hafnar á nýju verslunar- og þjónustuhúsnæði á Aðaltorgi sem verður 3.500 fermetrar á tveimur hæðum. Nettó mun opna þar verslun sem verður 1.400 fermetrar að flatarmáli og ein af grænum verslunum Nettó.

Þá verða skrifstofur og þjónusturými á annarri hæð.

„Uppbyggingin á Aðaltorgi er í samræmi við þróunaráætlun Kadeco fyrir nærsvæði Keflavíkurflugvallar og nefnist K64. Á Aðaltorgi er margvíslegt þjónustuframboð sem ætlað er að brúa þarfir íbúa á Suðurnesjum ásamt ferðalöngum sem fara um Keflavíkurflugvöll,“ segir Ingvar.

Að sögn Ingvars er framtíðarsýn forsvarsmanna fasteignaþróunarverkefnisins Aðaltorgs sú að þetta verði kjarnasvæði við Keflavíkurflugvöll sem þjónusti íbúa Suðurnesja og gesti sem fara um flugvöllinn með fjölbreyttu vöru- og þjónustuframboði. Þá er einnig stefnt að íbúðabyggð í framtíðinni á landsvæðinu.

Það styttist óðum í að fullbúið íþróttahús með áhorfendastúku við Stapaskóla í Innri-Njarðvík verði loksins tilbúið. Þegar íþróttahúsið verður afhent til notkunar mun það verða aðalkeppnisvöllur Körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur sem núna er í Ljónagryfjunni við Njarðvíkurskóla.

Halldór Karlsson, formaður Körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur, segir í samtali við Morgunblaðið að vonir séu bundnar við að hægt verði að spila fyrsta heimaleik tímabilsins í karlaflokki á nýja vellinum. Sá leikur verður 12. október.

„Þetta er algjör bylting í starfsemi UMFN [Ungmennafélagið Njarðvík] og gerir okkur samkeppnishæft félag,“ segir hann.

Upphaflega áttu íþróttahúsið og sundlaug að vera afhent undir lok árs 2022 en á því hafa orðið miklar tafir. Nú hefst væntanlega vinnan við að finna nýtt nafn á heimavöll Njarðvíkur en Ljónagryfjan verður áfram á sínum stað í Ytri-Njarðvík.

„Íþróttahúsið við Stapaskóla er stórglæsilegt mannvirki sem mun þjóna skólanum og hverfinu auk þess að verða nýr heimavöllur Njarðvíkur í körfuboltanum en Njarðvíkingar munu spila heimaleiki þeirra í húsinu. Nú er verið að leggja lokahönd á merkingar og annað á gólfinu og svo fer allt á fullt í boltanum,“ segir Halldóra Fríða.

Verið er að skoða að gera svokallaðan ofanbyggðaveg sem yrði tengipunktur frá Aðalgötu í norðri niður á Fitjar í suðri. Þetta væri þá til að létta á umferð í gegnum byggð sem er sérstaklega mikil á Njarðarbraut og kemur bara til með að aukast með tilkomu Byko og World Class á Fitjum.

„Nú fara yfir 14.000 bílar á sólarhring um Njarðarbraut og er sá vegur nokkurn veginn sprunginn. Vegna plássleysis er illviðráðanlegt að tvöfalda Njarðarbrautina. Þó verður farið í nokkrar framkvæmdir á næstu tveimur árum á og við Njarðarbraut til að greiða fyrir umferð, svo sem hringtorg og að- og fráreinar,“ segir Guðlaugur Helgi Sigurjónsson, sviðsstjóri umhverfissviðs Reykjanesbæjar, við Morgunblaðið.

Fyrirhugaður ofanbyggðavegur er að hluta á skipulagi en eitthvað þarf að fara í frekari skipulagsvinnu.

„Þá hefur einnig áhrif á legu þessa ofanbyggðarvegar hvernig endanleg hönnun á tvöfaldri Reykjanesbraut verður,“ segir Guðlaugur.

Slæm kosningaþátttaka í Reykjanesbæ hefur ekki farið fram hjá mörgum og í sveitarstjórnarkosningunum 2022 var þátttakan undir 48%. Sjálfbærniráð vinnur að málefnum eins og íbúalýðræði og kosningamálum í sveitarfélaginu og hefur ráðist í það að framkvæma óvísindalega könnun sem bæjarbúar eru hvattir til að taka þátt í.

„Til þess að greina nánar vandamálið sem snýr að kosningaþátttöku, sem hefur farið dalandi undanfarin ár, var ákveðið að kanna hvert vandamálið væri áður en hafist væri handa við að finna lausn á því. Það er að fá afstöðu íbúa af hverju þau eru ekki að kjósa en könnunin miðaði við þátttöku í sveitarstjórnarkosningunum 2022,“ segir Guðný Birna Guðmundsdóttir, forseti bæjarstjórnar í Reykjanesbæ.

Búið er að gera stutta könnun á þremur tungumálum sem hefur verið dreift víða á helstu miðlum bæjarins og eru íbúar hvattir til að taka þátt í henni.

„Auk þess höfum við í ráðinu sent hana á alla vini og kunningja og einnig beðið aðra að dreifa áfram því við virkilega viljum vita áhuga og álit íbúa á kosningaþátttöku þeirra. Niðurstaða könnunarinnar verður kynnt á næsta fundi sjálfbærniráðs í lok september,“ segir Guðný Birna.

Höf.: Hermann Nökkvi Gunnarsson