Hjörtur J. Guðmundsson birtir á vef sínum, fullveldi.is, grein um „Málið sem þolir ekki ljósið“.
Málið er frumvarp sem Þórdís K.R. Gylfadóttir utanríkisráðherra lagði fram fyrir hálfu öðru ári án árangurs en til stendur að reyna við aftur. „Verði frumvarpið, sem kennt er við bókun 35 við EES-samninginn, að lögum mun það leiða til þess að til verði ný forgangsregla í íslenzkum rétti. Ólíkt þeim forgangsreglum sem fyrir eru vegna almennrar lagasetningar, þar sem yngri lög ganga fyrir eldri og sértækari fyrir almennari, mun nýja reglan miðast við það eitt að umrædd löggjöf feli í sér innleiðingu á regluverki frá Evrópusambandinu í gegnum samninginn.
Með öðrum orðum mun frumvarpið þýða í reynd, nái það fram að ganga, að regluverk frá Evrópusambandinu, sem innleitt hefur verið og verður innleitt í framtíðinni á meðan Ísland á aðild að EES, verði gert æðra annarri almennri lagasetningu hér á landi af þeirri einu ástæðu að það kemur frá Brussel. Öll önnur almenn lagasetning mun þar með lögum samkvæmt þurfa að taka mið af regluverki sambandsins,“ skrifar Hjörtur.
Hann segir að það versta sem gæti gerst næði frumvarpið ekki fram væri að EFTA-dómstóllinn segði að stjórnvöldum bæri að verða við kröfu Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, um málið. „Með öðrum orðum það sem frumvarpið felur í sér!“ segir Hjörtur.