Þýska miðjan minnkar áfram ef ekki er hlustað á kjósendur

Það gengur mikið á í Þýskalandi um þessar mundir, eins og reyndar víðar í Evrópu. En í þessu burðarríki eru skjálftar um þessar mundir, ekki aðeins í stjórnmálum heldur líka í efnahagsmálum, sem er líklega ekki alveg ótengt. Nýjustu tíðindin eru af stærsta bílaframleiðanda Evrópu, Volkswagen, þar sem hundruð þúsunda Þjóðverja starfa í mörgum verksmiðjum og framleiða mikinn fjölda bifreiða undir ýmsum merkjum.

Í liðinni viku gerðist það sem aldrei hefur gerst áður að stjórnendur fyrirtækisins kynntu að útlit væri fyrir að loka þyrfti einhverjum verksmiðjum þess og segja upp fjölda fólks. Starfsmenn og verkalýðsfélög tóku þessu illa og mótmæltu, en hætt er við að efnahagslegur veruleiki verði mótmælum yfirsterkari.

Ein ástæðan fyrir þessari stöðu hjá Volkswagen er vandræði með sölu rafbíla og að almenningur vill frekar bensín- og díselbíla þrátt fyrir hvata stjórnvalda með rafbílum. Þetta fléttast svo inn í vaxandi efasemdir um loftslagsstefnu stjórnvalda, sem er eitt af því sem hefur orðið til þess að hefðbundnu stjórnmálaflokkunum hefur gengið illa í kosningum að undanförnu í Þýskalandi.

Annað sem hefur valdið miklum vanda hefðbundnu flokkanna, og vegur líklega þyngst í þeim efnum, eru mistök þeirra og dugleysi í útlendingamálum. Kjósendur eru enn minnugir mistaka Merkel kanslara þegar straumur flóttamanna skall á landinu fyrir um áratug, en síðan hefur allt of lítið verið gert og kjósendur eru orðnir langþreyttir, ekki síst í löndunum sem áður tilheyrðu Austur-Þýskalandi.

Í tvennum kosningum þar fyrir rúmri viku sigraði Annar valkostur fyrir Þýskaland, AfD, í öðrum þeirra og var í öðru sæti í hinum. Þetta er flokkur sem talinn hefur verið ósamstarfshæfur, fyrir utan einstaka sveitarstjórnir, þar sem hann er talinn of langt til hægri, þó að hægri-vinstri kvarðinn nái ekki vel utan um hann. En forystumenn hans hafa stundum látið út úr sér ummæli sem þykja minna um of á miður geðfelldan stjórnmálaflokk í Þýskalandi fyrir tæpri öld og Þjóðverjar eru viðkvæmir fyrir slíku, sem von er.

Á vinstri vængnum eru svo tveir flokkar, annar sem á rætur að rekja til Kommúnistaflokksins sem réð Austur-Þýskalandi fram að falli Múrsins og er almennt ekki talinn stjórntækur. Hinn flokkurinn er byggður upp í kringum einn frambjóðanda og ber meira að segja nafn hennar, Bündnis Sahra Wagenknecht, BSW, og er líka flokkaður yst til vinstri en vill líkt og AfD verulega breytingu á útlendingastefnunni, auk þess sem báðir þykja full vinsamlegir í garð Pútíns forseta Rússlands.

Vandinn sem hefðbundnu flokkarnir standa frammi fyrir í fylkjunum tveimur sem síðast var kosið í – og gætu staðið frammi fyrir sama vanda í einu enn síðar í mánuðinum – er að þessir jaðarflokkar eru orðnir það stórir, einkum samanlagt, að erfitt eða nánast ómögulegt er að mynda stjórn án þeirra. Útilokunarstefnan er þess vegna orðin býsna kostnaðarsöm og getur orðið til þess að mati sumra sem hafa tjáð sig um stöðuna, að AfD fái ekki aðeins þriðjungsstuðning eins og fyrir viku, heldur mögulega meirihluta þegar kjósendur sannfærast endanlega um getuleysi hefðbundnu flokkanna.

Vandi þeirra er ekki síst sá að þeir reyna að hnoða saman stjórnum sem eru úr hófi sundurlyndar, svo sem sjá má á ríkisstjórn Þýskalands nú, sem er samsett af þremur flokkum sem allir voru rassskelltir í kosningunum fyrir viku. Getuleysi þessara er í samræmi við sundurlyndið og fátt sem bendir til að þetta muni breytast á næstunni.

Helsta vonin fyrir Þýskaland í þeim efnum er að Kristilegir demókratar nái að rétta sig við, en þeir eru utan stjórnar á landsvísu og komu betur út í kosningunum í austri en stjórnarflokkarnir, Sósíaldemókratar, Græningjar og Frjálsir demókratar.

Til að svo megi verða þurfa þeir þó að sýna að þeir hafi hlustað á kjósendur og skilji áhyggjur þeirra. Það þýðir til að mynda lítið að halda því fram að þriðjungur kjósenda í Thüringen sé hægri öfgamenn þó að AfD hafi fengið slíkt fylgi þar. Þetta fylgi fær AfD vegna þess að kjósendur telja flokkinn ekki hægri öfgaflokk og trúa því að hann geti frekar leyst stóru vandamálin en hefðbundnu flokkarnir. Þar vega útlendingamálin þungt, en fólk kann til dæmis ekki heldur að meta þá stöðu sem upp er komin í orkumálum og stafar af því að of langt hefur verið gengið í loftslagsmálum, fyrir utan þá sérkennilegu og tilefnislausu ákvörðun fyrir nokkrum árum að loka kjarnorkuverum landsins.

Stjórnmálamenn í hefðbundnu stjórnmálaflokkunum í Þýskalandi standa að öllum líkindum frammi fyrir tveimur kostum. Annaðhvort fara þeir að hlusta á kjósendur og hætta að láta teyma sig út í pólitískt fúafen í hverju málinu á fætur öðru, eða þeir fá að horfa á miðjuna í þýskum stjórnmálum halda áfram að skreppa saman þar til hefðbundnu flokkarnir missa öll völd.