Sigurður Helgi Þorsteins Guðjónsson, hæstaréttarlögmaður og fv. formaður Húseigendafélagsins, lést 5. september sl., 71 árs að aldri. Sigurður fæddist í Reykjavík 24. mars 1953. Foreldrar hans voru þau Laura Risten Friðjónsdóttir Döving húsmóðir og Guðjón Breiðfjörð Jónsson bifvélavirki

Sigurður Helgi Þorsteins Guðjónsson, hæstaréttarlögmaður og fv. formaður Húseigendafélagsins, lést 5. september sl., 71 árs að aldri.

Sigurður fæddist í Reykjavík 24. mars 1953. Foreldrar hans voru þau Laura Risten Friðjónsdóttir Döving húsmóðir og Guðjón Breiðfjörð Jónsson bifvélavirki. Fósturforeldrar Sigurðar voru móðurforeldrar hans þau Berit Gunhild Risten, sem var Sami frá Tana í N-Noregi, og Friðjón Sigurðsson.

Sigurður Helgi lauk menntaskólaprófi frá MT 1974 og lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands 1979. Hann hlaut málflutningsréttindi fyrir héraðsdómi 1980 og fyrir hæstarétti 1986.

Sigurður var lögfræðingur og framkvæmdastjóri Húseigendafélagsins frá 1977-1985 og aftur frá 1992 þar til í vor á þessu ári. Jafnframt var hann formaður félagsins frá 1995. Samhliða störfum sínum hjá Húseigendafélaginu gegndi Sigurður embætti dómarafulltrúa hjá yfirborgardómaranum í Reykjavík árin 1983-1985 en sinnti eftir það málarekstri frá árinu 1985-1992.

Sigurður samdi frumvarp til nýrra laga um fjöleignarhús sem lögfest voru 1994, sem og frumvarp til húsaleigulaga sem einnig voru lögfest sama ár.

Sigurður sat jafnframt í jafnréttisráði frá 1982-1992 og kærunefnd jafnréttismála frá 1992-1995, ásamt samninganefnd lögfræðinga í ríkisþjónustu, svo og í stjórn Lögfræðingafélags Íslands og kjaranefnd Lögmannafélags Íslands, ásamt því að sinna kennslu við lagadeild Háskóla Íslands. Hann stofnaði Samís, vináttufélag Sama og Íslendinga, ástamt Einari Braga skáldi árið 2003.

Eiginkona Sigurðar Helga var Herdís Pétursdóttir, f. 1950, d. 2012. Eftirlifandi unnusta er Marilyn Herdís Mellk. Sigurður lætur eftir sig fjögur börn; Helgu Pálínu, Friðjón, Bjarna Magnús og Gunnhildi Berit. Barnabörnin eru sjö.

Útför Sigurðar Helga verður frá Hallgrímskirkju 18. september kl. 13.