Endurkoma Gylfi Þór Sigurðsson sneri aftur í landsliðið eftir 11 mánaða fjarveru og var í byrjunarliðinu gegn bæði Svartfjallalandi og Tyrklandi.
Endurkoma Gylfi Þór Sigurðsson sneri aftur í landsliðið eftir 11 mánaða fjarveru og var í byrjunarliðinu gegn bæði Svartfjallalandi og Tyrklandi. — Ljósmynd/Alex Nicodim
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu vann sinn fyrsta leik í riðlakeppni Þjóðadeildar UEFA síðastliðinn föstudag gegn Svartfjallalandi í 4. riðli B-deildar keppninnar á Laugardalsvelli. Leiknum lauk með nokkuð þægilegum sigri Íslands, 2:0, þar sem …

Þjóðadeildin

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu vann sinn fyrsta leik í riðlakeppni Þjóðadeildar UEFA síðastliðinn föstudag gegn Svartfjallalandi í 4. riðli B-deildar keppninnar á Laugardalsvelli.

Leiknum lauk með nokkuð þægilegum sigri Íslands, 2:0, þar sem mörkin komu bæði eftir hornspyrnur sitt í hvorum hálfleiknum. Liðið mætti svo Tyrklandi í Izmir á mánudaginn þar sem Tyrkir fögnuðu nokkuð öruggum sigri, 3:1.

Eftir fyrstu tvær umferðirnar er Ísland í þriðja sæti riðilsins með þrjú stig. Tyrkland og Wales eru í efstu tveimur sætunum með fjögur stig hvort og Svartfjallaland rekur lestina án stiga.

Næstu tveir leikir íslenska liðsins eru gegn Wales, 11. október, og Tyrklandi, 14. október, og fara þeir báðir fram á Laugardalsvelli. Lokaleikir liðsins fara svo báðir fram á útivelli í nóvember, gegn Svartfjallalandi í Podgorica 16. nóvember og gegn Wales í Cardiff 19. nóvember.

Sigurvegarinn í riðlinum tryggir sér sæti í A-deild Þjóðadeildarinnar en liðið sem endar í öðru sæti riðilsins mætir liði sem endar í þriðja sæti síns riðils í A-deildinni í umspili um sæti í A-deildinni.

Liðið sem hafnar í þriðja sæti riðilsins mætir svo liði sem hafnar í öðru sæti síns riðils í C-deildinni í umspili um sæti í B-deildinni og liðið sem hafnar í neðsta sæti riðilsins fellur í C-deild.

Fagmannleg frammistaða

„Ég myndi segja að stigasöfnunin í þessum landsleikjaglugga hafi verið mjög ásættanleg,“ sagði Hermann Hreiðarsson, fyrrverandi fyrirliði íslenska karlalandsliðsins og núverandi þjálfari toppliðs ÍBV í 1. deild karla, í samtali við Morgunblaðið þegar hann ræddi frammistöðu íslenska liðsins í leikjunum tveimur.

„Fyrir fram þá hefðum við alltaf sætt okkur við þrjú stig úr þessum verkefnum held ég. Mér fannst frammistaðan gegn Svartfjallalandi mjög fagmannleg. Við stjórnuðum ferðinni frá a til ö og sigurinn hefði alveg mátt vera stærri fyrir mitt leyti. Við skorum tvö mjög góð mörk eftir hornspyrnur og þó við höfum kannski ekki skapað okkur mikið sóknarlega þá finnst mér það ekki vera neitt áhyggjuefni þannig. Við erum með gæðaleikmenn fram á við og við munum alltaf fá okkar færi. Sóknarleikurinn kemur með tíð og tíma, ég hef engar áhyggjur af honum. Við fáum á okkur mark mjög snemma gegn Tyrklandi og það hefur klárlega stór áhrif á það hvernig leikurinn spilast. Það er ákveðið högg í magann, að fá mark á sig svona snemma, en á sama tíma getur það líka losað um ákveðna spennu hjá mönnum. Þú hefur engu að tapa og þá eru meiri líkur á því að menn láti bara vaða. Þetta er oft tvíeggjað sverð en mér fannst markið þeirra slá okkur út af laginu og það tók okkur tíma að vinna okkur aftur inn í leikinn,“ sagði Hermann sem á að baki 89 A-landsleiki og er áttundi leikjahæsti landsliðsmaður Íslands frá upphafi.

Hefðum mátt keyra á þá

Er eitthvað sem íslenska liðið hefði getað gert betur í Izmir?

„Tyrkirnir eru auðvitað ógnarsterkir á sínum heimavelli og það þarf að bera virðingu fyrir því. Þeir áttu góðan leik og voru einfaldlega betri aðilinn. Við getum klárlega unnið alla á deginum okkar og sex stig úr þessum glugga hefði verið frábært en svona er fótboltinn. Mér fannst við koma okkur í góðar stöður gegn Tyrkjunum, sérstaklega í seinni hálfleik, en það vantaði meiri greddu í strákana. Við áttum nokkrar góðar fyrirgjafir inn á teiginn en það vantaði upp á að menn tækju sénsinn og kláruðu hlaupin sín.

Það er ýmislegt sem hefði mátt betur fara, eins og alltaf. Mér fannst sóknarleikurinn úti í Tyrklandi fara mjög vaxandi eftir því sem leið á leikinn en sjálfur hefði ég viljað sjá liðið keyra meira á þetta. Ég hefði viljað sjá okkur keyra upp hraðann, þegar við unnum boltann, sækja hraðar á þá og klára sóknirnar okkar fyrr. Við erum með mjög öfluga leikmenn með mikla hlaupagetu og mér fannst við hægja fullmikið á leiknum oft og tíðum þegar tækifærin voru til staðar til þess að sækja hratt á Tyrkina og hreinlega refsa þeim þegar þeir voru út úr stöðum.“

Þurfum stöðugleika í vörninni

Daníel Leó Grétarsson og Hjörtur Hermannsson voru miðvarðapar íslenska liðsins í landsleikjaglugganum.

„Það er mín tilfinning að landsliðsþjálfarinn sé ennþá að þreifa fyrir sér varðandi varnarlínuna. Davíð Snorri Jónasson kemur inn í þetta í sumar og hann þekkir marga af þessum yngri strákum úr yngri landsliðunum. Við erum ennþá á þeim stað að við erum að finna réttu blönduna þegar kemur að varnarleiknum og þjálfararnir hafa verið óheppnir að því leytinu til líka að þeir hafa verið án lykilmanna í vörninni í mörgum verkefnum.

Sverrir Ingi Ingason var meiddur í þessu verkefni og Hörður Björgvin Magnússon er að snúa aftur eftir meiðsli. Þeir tveir eru klárlega leikmenn sem gera tilkall til þess að byrja alla leiki í hjarta varnarinnar. Guðlaugur Victor Pálsson getur líka leyst þessa stöðu og við erum klárlega með ágætis breidd þegar kemur að varnarleiknum. Það skiptir máli fyrir okkur að ná upp stöðugleika varnarlega, með sömu leikmennina, og vonandi kemur það með tíð og tíma.“

Gylfi lykilmaður í liðinu

Gylfi Þór Sigurðsson snéri aftur í landsliðið eftir 11 mánaða fjarveru.

„Það er ótrúlega mikilvægt fyrir þessa ungu stráka að vera með leikmann eins og Gylfa Þór Sigurðsson með sér inni á vellinum. Við erum með mjög ungt lið og Gylfi, ásamt Jóhanni Berg Guðmundssyni, er leikmaður sem þekkir landsliðsumhverfið mjög vel. Hann var og er algjör lykilmaður í þessu liði og hann er með reynsluna á þessu stærsta sviði fótboltans, alveg eins og Jóhann Berg. Það er í raun ómetanlegt að hafa þessa tvo leikmenn inni á vellinum. Þeir hafa spilað á móti bestu leikmönnum heims.

Ungu strákarnir í liðinu hafa verið duglegir að skipta um félög að undanförnu og þeir eru flestallir komnir í stærri deildir í dag. Það skiptir í raun öllu máli fyrir landsliðið að þeir leikmenn sem spila þessa landsleiki séu að spila með sínum félagsliðum. Það er algjört lykilatriði finnst mér því aðeins þannig öðlast menn reynslu, reynslu sem nýtist þeim svo á stóra sviðinu. Með meiri spiltíma kemur líka meira sjálfstraust og þá gera menn þessi litlu atriði, sem skipta samt svo miklu máli, betur.“

Hareide á réttri leið

Telur Hermann að Åge Hareide sé á réttri leið með liðið?

„Ég hef verið mjög hrifinn af því sem hann hefur verið að gera með liðið. Hann er óhræddur við að gefa leikmönnum tækifæri og hann er tilbúinn að henda þeim út í djúpu laugina sem skiptir máli. Hann kemur inn í þetta verkefni algjörlega óhræddur og er hokinn af reynslu. Hann er með gríðarlega mikla reynslu, bæði í félagsliðafótbolta og í landsliðsfótboltanum og þekkir þetta umhverfi inn og út.

Ég held að það hafi verið mjög góð ákvörðun líka hjá honum að fá Davíð Snorra með sér inn í teymið. Þeir tveir mynda mjög sterkt teymi myndi ég halda og ættu að vera með þetta í algjörri teskeið. Það er enginn vafi í mínum huga að það er stutt í að allt smelli hjá liðinu. Við erum með marga unga og mjög hæfileikaríka leikmenn. Þegar leikmennirnir verða búnir að stilla strengi sína aðeins betur saman verður mjög erfitt að stoppa okkur.“

Stórmót innan seilingar

En eru of miklar kröfur gerðar til íslenska liðsins?

„Það finnst mér ekki. Það er bara gott fyrir íslenskan fótbolta að það séu gerðar kröfur til landsliðsins, annars væri ekkert gaman að þessu. Það er líka gott fyrir leikmennina að finna fyrir pressunni, að þetta skipti fólk máli. Kröfurnar verða samt að vera raunhæfar og það er mjög mikilvægt að fólk fylki sér á bak við liðið, það er númer eitt, tvö og þrjú. Ungu strákarnir þurfa að finna fyrir því að þjóðin sé á bak við liðið því það gefur þeim rosalega mikið.

Fyrir mér þá er ekki það spurning hvort liðið fari aftur á stórmót, heldur hvenær. Hvort það verður næsta stórmót eða þarnæsta þarf svo bara að koma í ljós. Við erum með ótrúlega hæfileikaríka stráka í liðinu og samkeppnin er mjög mikil. Strákarnir eru að spila með góðum liðum í góðum deildum og við eigum marga mjög frambærilega fótboltamenn. Framtíðin er mjög björt og við förum klárlega á stórmót á næstu árum,“ bætti Hermann Hreiðarsson við í samtali við Morgunblaðið.

Höf.: Bjarni Helgason