Vindmyllur Þessar vindmyllur standa við Búrfell, þar sem áformað er að byggja vindorkuverið Búrfellslund. Leyfi þar um hefur verið kært.
Vindmyllur Þessar vindmyllur standa við Búrfell, þar sem áformað er að byggja vindorkuverið Búrfellslund. Leyfi þar um hefur verið kært. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps hefur kært virkjunarleyfi Orkustofnunar fyrir Búrfellslund til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og var kæran send nefndinni í gær. Þar er þess krafist að ákvörðun Orkustofnunar um virkjunarleyfi…

Sviðsljós

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps hefur kært virkjunarleyfi Orkustofnunar fyrir Búrfellslund til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og var kæran send nefndinni í gær. Þar er þess krafist að ákvörðun Orkustofnunar um virkjunarleyfi fyrir hið 120 megavatta vindorkuver verði fellt úr gildi. Svo segir í kærunni sem Morgunblaðið hefur undir höndum.

Í kærunni er ferill málsins rakinn, en virkjunarkosturinn kom fyrst fram í 3. áfanga rammaáætlunar sem tók til áranna 2013 til 2017. Fékk Búrfellslundur þar tiltekið auðkennisnúmer og var settur í biðflokk, en í umfjöllun verkefnisstjórnar rammaáætlunar kom m.a. fram að áhrif framkvæmda á einum stað næðu yfir mun stærra svæði en framkvæmdasvæðið sjálft og hefðu mikil neikvæð áhrif á verðmæt ferðamannasvæði.

Breytt útfærsla í 4. áfanga

Í kærunni er vakin athygli á því að Búrfellslundur hafi komið á ný til umfjöllunar í 4. áfanga rammaáætlunar og fengið þar heitið Búrfellslundur – endurhönnun. Var afl vindorkuversins þar tilgreint 120 megavött og lagt til að verkefnið yrði enn í biðflokki. Þegar 3. áfangi rammaáætlunar var til umfjöllunar á Alþingi 2022 barst þinginu umsögn Landsvirkjunar um verkefnið og var þar upplýst að fyrirtækið hefði unnið að breyttri útfærslu virkjunarinnar og var kallað eftir því að hún yrði færð í nýtingarflokk. Svo var og gert með breytingartillögu meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis. Hlaut Búrfellslundur þar nýtt auðkennisnúmer. Taldi meirihluti nefndarinnar að um sama virkjunarkost væri að ræða þótt um væri að ræða allt að 120 megavatta virkjun í stað 200 megavatta áður.

„Atvik virðast því vera þau að Alþingi hafi við málsmeðferð tillögunnar flokkað annan virkjunarkost en var til umfjöllunar í 3. áfanga rammaáætlunarferlis, en segir hins vegar að um sama kost sé að ræða og verkefnisstjórn fjallaði um,“ segir í kærunni og er þar með vakin athygli á því að í raun hafi annar Búrfellslundur verið settur í nýtingarflokk en sá Búrfellslundur sem fór í gegnum lögformlegt ferli stjórnsýslunnar og ekki fengið málsmeðferð verkefnisstjórnar rammaáætlunar.

Leyfisveiting efnislega röng

Í kærunni er vísað til þess að meginreglur í stjórnsýslurétti hvað varðar ógildingu stjórnsýsluákvarðana, feli í sér að ógilda skuli slíka ákvörðun ef annmarki sé á henni efnislega eða málsmeðferðarreglur brotnar. Þannig byggi kæra Skeiða- og Gnúpverjahrepps á því að ákvörðun Orkustofnunar um veitingu virkjunarleyfis sé efnislega röng sem og að málsmeðferðarreglur hafi verið brotnar. Sérstaklega er vakin athygli á rannsóknarreglu stjórnsýslulaga þar sem kveðið er á um að stjórnvald skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því og þar vísað til meints ágalla á málsmeðferð Alþingis, sem sveitarfélagið telur að orðið hafi þegar Búrfellslundur var færður í nýtingarflokk.

„Kærandi telur ljóst að ef verkefnastjórn hefur ekki fjallað um ákveðinn virkjunarkost, sé því ekki heimild í lögum til að flokka slíkan virkjunarkost í orkunýtingarflokk, biðflokk, eða verndarflokk,“ segir í kærunni. Sá virkjunarkostur sem virkjunarleyfið hlaut hafi ekki fengið umfjöllun verkefnastjórnar 3. áfanga rammaáætlunar og heldur ekki komið til umfjöllunar við málsmeðferð á grundvelli laga um verndar- og orkunýtingaráætlun. Virkjunarkosturinn hafi ekki hlotið málsmeðferð hjá verkefnisstjórn rammaáætlunar, Alþingi, eða farið í samráðsferli. Því hafi Orkustofnun verið óheimilt að gefa út virkjunarleyfið.

Segir í kærunni að sýnt þyki að Búrfellslundur, sem í raun gangi undir þremur málsnúmerum og með mismunandi útfærslum, hafi fengið fordæmalausa málsmeðferð sem samræmist ekki lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun, enda geri þau lög ekki ráð fyrir að Alþingi geti við málsmeðferð þingsályktunar breytt eða tekið upp nýja virkjunarkosti. Áréttað er að við samþykkt þingsályktunar fari Alþingi ekki með löggjafarvald og flokkun virkjunarkosts með þingsályktun upphefji ekki fyrirmæli laga.

Auk framangreinds eru tilteknir ýmsir ágallar á virkjunarleyfinu. Þar er m.a. tiltekið að í raforkulögum sé mælt fyrir um að nauðsynlegt sé að afla heimilda fyrir nýtingu lands og auðlinda. Í umhverfismati hafi verið gert ráð fyrir að efnistaka vegna framkvæmdarinnar færi einkum fram í námum í Skeiða- og Gnúpverjahreppi sem séu á þjóðlendu. Sveitarfélög veiti leyfi til nýtingar náma og annarra jarðefna, en ekkert slíkt leyfi liggi fyrir af hálfu Skeiða- og Gnúpverjahrepps.