Breytingar Leitað er að húsi fyrir sjúkrabíl við Austurströnd eða Eiðistorg.
Breytingar Leitað er að húsi fyrir sjúkrabíl við Austurströnd eða Eiðistorg. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Það hefur verið baráttumál í mörg ár að laga þetta viðbragð neyðaraðila. Mér finnst þetta því góð niðurstaða,“ segir Þór Sigurgeirsson bæjarstjóri á Seltjarnarnesi. Stjórn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins hefur falið Þór og Jóni Viðari…

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Það hefur verið baráttumál í mörg ár að laga þetta viðbragð neyðaraðila. Mér finnst þetta því góð niðurstaða,“ segir Þór Sigurgeirsson bæjarstjóri á Seltjarnarnesi.

Stjórn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins hefur falið Þór og Jóni Viðari Matthíassyni slökkviliðsstjóra að finna hentugt húsnæði fyrir útkallseiningu fyrir sjúkrabíl á Seltjarnarnesi á álagstímum í umferð. Sú vinna stendur nú yfir og er að sögn Þórs horft til húsnæðis við Eiðistorg eða við Austurströnd. Sú staðsetning kom best út úr rýni sem gerð var fyrir Seltjarnarnes og vestasta hluta Reykjavíkur.

Þór segir að mælingar hafi sýnt að viðbragð sjúkrabíla hafi ekki verið ásættanlegt fyrir vestasta hluta Reykjavíkur og Seltjarnarnes.

„Við erum á eldrauðu svæði samkvæmt brunavarnaáætlun. Það hefur tekið sjúkrabíla allt að 12 mínútur að komast hingað en viðmiðið er samkvæmt brunavarnaáætlun 7,5 mínútur,“ segir bæjarstjórinn.

Framtíðaráform um nýja slökkvistöð á BSÍ-reit duga ekki til að koma þessu í fullnægjandi horf. Segir Þór að sú breyting skili því aðeins að svæðið verði skilgreint sem appelsínugult.

„Okkur finnst það ekki boðlegt fyrir okkur og 25 þúsund Vesturbæinga þegar Hringbrautin er kolstífluð á álagstímum alla daga. Það er umferðin um Hringbraut sem þessu veldur,“ segir hann.

Með tilkomu sjúkrabíls á Seltjarnarnes fari bærinn, sem og Vesturbær Reykjavíkur, hins vegar yfir í grænt og viðbragð innan 7,5 mínútna.

„Nú er bara unnið að því að finna ákjósanlega staðsetningu,“ segir Þór bæjarstjóri.

Höf.: Höskuldur Daði Magnússon