Sprett úr spori Aðstaðan til að æfa íþróttir innanhúss í Laugardalnum er nú eins og hún gerist best í heiminum.
Sprett úr spori Aðstaðan til að æfa íþróttir innanhúss í Laugardalnum er nú eins og hún gerist best í heiminum. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nýlega lauk umfangsmiklum endurbótum á frjálsíþróttahöllinni í Laugardal. Stendur hún nú jafnfætis slíkum mannvirkjum hvar sem er í heiminum, segir Birgir Bárðarson framkvæmdastjóri Laugardalshallarinnar

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Nýlega lauk umfangsmiklum endurbótum á frjálsíþróttahöllinni í Laugardal. Stendur hún nú jafnfætis slíkum mannvirkjum hvar sem er í heiminum, segir Birgir Bárðarson framkvæmdastjóri Laugardalshallarinnar.

Frjálsíþróttahöllin var tekin í notkun árið 2005 og fyrsta mótið var haldið þar í desember sama ár. Tími var til kominn að endurbæta aðstöðuna að sögn Birgis. Vel hefur verið hugsað um húsið í gegnum árin, það þrifið reglulega og smærri endurbætur gerðar eftir þörfum. En nú var komið að algerri endurnýjun.

Framkvæmdir hófust í höllinni um miðjan júní og þeim lauk í byrjun september.

Nýtt tartanefni var lagt á allt gólfið, hlaupabrautir og önnur svæði. Notað var sama efni og notað var í höllinni í Glasgow í Skotlandi, þar sem heimsmeistaramótið innanhúss var haldið í mars í fyrra. Auk þess var bætt við mýkra efni á sum svæðin. Breytingar voru gerðar á aðstæðum fyrir þrístökk og langstökk og sömuleiðis fyrir kúluvarp og sleggjukast.

Sá sem lagði gólfefnið var ítalskur, sá sami og lagði gólfefnið á íþróttahöllina í Glasgow. Annar Ítali sá um allar merkingar, sá sami og hafði yfirumsjón með merkingum á ólympíuleikvanginum í París, þar sem keppt var síðastliðið sumar. Þetta eru menn í fremstu röð og taka að sér slík verkefni um allan heim.

Nýjar lagnir fyrir ljósleiðara voru lagðar í gólf sem gerir kleift að koma fyrir fullkomnari tækjabúnaði. Sömuleiðis bætir þetta aðstöðu fyrir sjónvapsstöðvar að vera með beinar útsendingar frá íþróttaviðburðum. Þetta er nýjasta tækni sem boðið er upp á í heminum, segir Birgir.

Skipt var um liti á gólfefninu, frá rauðu og gulu yfir í dökkblátt og ljósblátt.

Kostnaður er áætlaður á bilinu 150-170 milljónir, efni og vinna. Fyrirtækið Sport-Tæki ehf. vann verkið.

„Frjálsíþróttahölllin er orðin eins flott og fullkomin og hún getur orðið og hvetur vonandi okkar fólk til afreka,“ segir Birgir Bárðarson. „Ég er bjartsýnn á að við séum að eignast nýtt afreksfólk sem færir okkur gull, með nýju efni fáum við ný met.“

Frjálsíþróttahöllin hefur ekki aðeins verið vettvangur frjálsra íþrótta. Þar hafa farið fram fjölmennir tónleikar og vörusýningar af ýmsu tagi. Árið 2014 var t.d. Evrópumótið í fimleikum haldið þar og húsinu að hluta breytt í fimleikahöll. Sett var upp færanleg áhorfendastúka sem tók 4.000 manns í sæti.

Höf.: Sigtryggur Sigtryggsson