Þuríður Björg Árnadóttir
Þuríður Björg Árnadóttir
Biskup Íslands óskaði nýlega eftir presti til þjónustu við Hafnarfjarðarprestakall. Tíu umsóknir bárust. Valnefnd hefur valið séra Þuríði Björgu Wiium Árnadóttur sóknarprest í Vopnafirði úr þeim hópi

Biskup Íslands óskaði nýlega eftir presti til þjónustu við Hafnarfjarðarprestakall.

Tíu umsóknir bárust. Valnefnd hefur valið séra Þuríði Björgu Wiium Árnadóttur sóknarprest í Vopnafirði úr þeim hópi. Biskup Íslands hefur staðfest valið.

Sr. Þuríður Björg fæddist á Akureyri 21. nóvember 1989 og ólst upp á Vopnafirði. Foreldrar hennar eru Árni Magnússon rafvirkjameistari og Ásgerður Sigurðardóttir. Hún er yngst þriggja systkina.

Þuríður varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri árið 2009 og útskrifaðist með embættispróf frá guðfræði- og trúarbragðadeild Háskóla Íslands 2017. Hún vígðist sem sóknarprestur til Hofsprestakalls í Vopnafirði sama ár. Hún hefur starfað sem sjúkrahúsprestur á Landspítalanum í afleysingu frá því í nóvember 2023.

Þuríður Björg sat í stjórn Lútherska heimssambandsins fyrir hönd þjóðkirkju Íslands árin 2017-2023 og hefur setið á kirkjuþingi síðan 2020. Hún situr nú í stjórn þjóðkirkjunnar.

Á árum sínum á Vopnafirði hefur hún verið formaður veiðifélags Hofsár og Sunnudalsár, setið í stjórn veiðifélags Sandvíkur og í stjórn Kvenfélagsins Lindarinnar.

Þuríður Björg er í sambúð með Ólafi Ragnari Garðarssyni fjármálaverkfræðingi og framkvæmdastjóra Angling IQ. Þau eiga tvö börn, 10 og 11 ára, og eru búsett í Mosfellsbæ. sisi@mbl.is