Þórdís Lóa Þórhallsdóttir
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir
Að stýra fjármálum er langtímaverkefni, ekki háð dægursveiflu eða skammtímamarkmiðum. Það kallar á skýra sýn, festu og eftirfylgni ákvarðana.

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir

Að stýra opinberum fjármálum er langtímaverkefni og á ekki að vera háð dægursveiflu eða skammtímamarkmiðum. Fjármál opinberra aðila kalla á skýra sýn, festu og eftirfylgni ákvarðana. Síðan Viðreisn kom inn í borgarmálin höfum við tekist á við heimsfaraldur, aukið atvinnuleysi, háa vexti og verðbólgu. Við höfum siglt skipinu af festu en líka brugðist við eins og þurfti, líkt og við gerðum í heimsfaraldrinum. Þá jukum við í fjárfestingu, fórum í vinnumarkaðsaðgerðir og þjónustustofnanir borgarinnar réðu inn fólk til að mæta sóttvörnum og hólfunum.

Viðreisn í Reykjavík studdi innspýtingu og fjárfestingu í heimsfaraldri ásamt meirihlutanum í Reykjavík. Við hins vegar settum okkur skýra fjármálasýn um hvernig við ættum að bakka úr þessum viðbrögðum og stýra fjármálum borgarinnar til framtíðar. Sú sýn birtist, að undirlagi okkar í Viðreisn, í nýrri fjármálastefnu borgarinnar með mælanlegum lykiltölum sem eru leiðarvísir fjármálastjórnunar borgarinnar í dag.

Viðsnúningur með skýra stefnu

Langtímasýn með skýra fjármálastefnu kallar á aðgerðir, og því fórum við strax eftir heimsfaraldur í um 100 aðgerðir, hagræðingu og aðhald. Aðgerðir sem hafa áhrif til langs tíma og stöðugs aðhalds í útgjöldum. Hagræðing í fjármálum sveitarfélaga kallar alltaf á erfiðar ákvarðanir því rekstur sveitarfélaga snýst um nærþjónustu við íbúa sem allir nota þjónustu borgarinnar og allir hafa skoðun á. Því þarf skýra sýn og úthald í aðgerðir til að snúa fjármálum við á tímum hárrar verðbólgu og stýrivaxta.

Það er útgjaldalítið fyrir stjórnmálamenn að lofa auknum útgjöldum á slíkum tímum og auka skuldir í stað þess að draga úr þenslu og verðbólgu. Þetta er sú lína sem ríkisstjórnin hefur reynt undanfarin ár en situr þess í stað uppi með langvarandi verðbólgu og háa vexti, áætlaðan halla á ríkissjóði fram að lokum næsta kjörtímabils og mjög ósátta þjóð. Hinn kosturinn hefði verið að bregðast við með hagsmuni almennings í huga og hafa hugrekki til að taka erfiðar ákvarðanir til að hægt sé að nýta vaxtagjöld til að efla þjónustu við fólk.

Við sjáum nú fyrstu merki um viðsnúning í sex mánaða uppgjöri borgarinnar sem sýnir að rekstur borgarinnar er réttum megin við núllið og mun skila um 200 milljóna króna afgangi. Ef þetta helst út árið stefnir í að A-hluti borgarinnar verði rekinn með afgangi í fyrsta sinn síðan fyrir heimsfaraldur. Rekstrarniðurstaða bæði A- og B-hluta er einnig jákvæð um 406 milljónir og er 7,1 milljarði betri en á sama tíma í fyrra.

Áhersla á góða þjónustu við borgarbúa

Hagræðing og aðgerðir eru ekki bara til þess fallnar að bæta fjármálin, heldur einnig til þess að bæta þjónustu. Okkar megináhersla er að bjóða upp á góða þjónustu fyrir borgarbúa. Við höfum þurft að taka erfiðar ákvarðanir sem ekki falla alltaf vel í kramið en lögbundin þjónusta hefur fengið algjöran forgang hjá okkur í meirihlutanum í Reykjavík. Þannig höfum við ekkert gefið eftir í þjónustu við aldrað fólk eða fatlað. Sett mikið átak í viðhaldsaðgerðir skóla og leikskóla og haldið dampi í „Brúum bilið“. Hins vegar höfum við klipið af þjónustutíma sundlauga á tímum þegar lágmarksaðsókn er og stytt afgreiðslutíma félagsmiðstöðva unglinga um 15 mínútur svo eitthvað sé nefnt en það er hvorki auðvelt né einfalt.

Við fórum í um 100 aðgerðir því það er engin leið að hagræða innan sveitarfélaga öðruvísi en að það sé gert á mörgum stöðum.

Að halda að hægt sé að fara í aðgerðir án þess að það kalli á breytingar er einföldum og í raun blekking. Ekkert kerfi á að vera hrætt við breytingar og að mínu mati eru stöðugar breytingar góðar, þær halda okkur á tánum og krefjast þess að við hlaupum hratt og getum brugðist við. Breytingar innan kerfa kalla á flæði og hreyfingu sem er mikilvæg til að ekki verði stöðnun.

Okkar sýn er að verja lögbundna grunnþjónustu borgarinnar, efla innviði og stuðla að góðu mannlífi. Það gerum við með traustri fjármálastjórnun og langtímasýn.

Höfundur er forseti borgarstjórnar og oddviti Viðreisnar í Reykjavík.

Höf.: Þórdís Lóa Þórhallsdóttir