Við veiðar Lagt er til við endurskoðun laga að veiðigjald á uppsjávartegundir hækki úr 33% í 45%. Á móti verði álag á uppsjávarfisk fellt brott.
Við veiðar Lagt er til við endurskoðun laga að veiðigjald á uppsjávartegundir hækki úr 33% í 45%. Á móti verði álag á uppsjávarfisk fellt brott. — Morgunblaðið/Börkur Kjartansson
Gert er ráð fyrir því í fjárlagafrumvarpi næsta árs að tekjur ríkissjóðs af veiðigjaldi verði 14.260 milljónir króna á árinu 2025. Matvælaráðuneytið leiðir um þessar mundir endurskoðun á lögunum um veiðigjald

Gert er ráð fyrir því í fjárlagafrumvarpi næsta árs að tekjur ríkissjóðs af veiðigjaldi verði 14.260 milljónir króna á árinu 2025. Matvælaráðuneytið leiðir um þessar mundir endurskoðun á lögunum um veiðigjald. Rangt var farið með í frétt í blaðinu í gær um þessa endurskoðun og tekjur af veiðigjaldi að gjaldið skili tveimur milljörðum á næsta ári. Hið rétta er að gert er ráð fyrir því að breytingar vegna endurskoðunar laganna muni skila um tveimur milljörðum í auknum tekjum í ríkissjóð á árinu 2025.

Af þeim heildartekjum af veiðigjaldi sem gert er ráð fyrir að skili sér til ríkisins á næsta ári koma um 2,3 milljarðar af verðmætagjaldi af fiskeldi. „Hluta af aukningunni á milli ára má rekja til fyrirhugaðrar hækkunar á verðmætagjaldinu úr 4,3% í 5%. Veiðigjald byggist á afkomu við veiðar hvers nytjastofns tveimur árum fyrir álagningu gjaldsins og er lagt á í krónum á hvert kílógramm óslægðs afla. Áætlunin fyrir 2025 verður endurskoðuð þegar endanleg ákvörðun um álagningu veiðigjalda árið 2024 liggur fyrir hjá Skattinum í byrjun desember nk.,“ segir í greinargerð fjárlagafrumvarpsins.

Gjald á uppsjávartegundir hækki en álag fellt niður

Leggja á til við endurskoðun laganna um veiðigjald að veiðigjald á uppsjávarfisktegundir verði hækkað úr 33% í 45%, en á móti verði fellt niður álag á uppsjávarfisktegundir. „Einnig verður lagt til að fella niður heimild laganna um að veiðigjald sé rekstrarkostnaður sem draga megi frá tekjuskattsstofni samkvæmt ákvæðum tekjuskattslaga,“ segir í skýringum um fyrirhugaðar lagabreytingar.

Birt voru drög að frumvarpi með breytingunum á veiðigjaldinu í gær í samráðsgátt stjórnvalda. Byggir það að hluta til á umfjöllun um veiðigjald í skýrslu starfshópa Auðlindarinnar okkar-sjálfbærs sjávarútvegs, sem kom út í ágúst á seinasta ári, og á að hluta til að uppfylla markmið fjármálaáætlunar til ársins 2029 um hækkun veiðigjalds.

Þar er nánar fjallað um áhrif breyttrar gjaldtöku á uppsjávartegundir sem munu hafa neikvæð áhrif á útgerðir skipa með aflamark í uppsjávarfiski. Verði þessar breytingar lögfestar er þar áætlað að hækkun veiðigjaldsins á uppsjávartegundir muni í meðalári leiða til um eins milljarðs króna hækkunar á tekjum ríkisins. Á móti muni hins vegar niðurfelling 10% álags á uppsjávarstofna lækka tekjur ríkissjóðs um 200 milljónir króna. Heildaraukning á tekjum ríkissjóðs vegna þessarar hækkunar á gjaldtökunni verði því um 800 milljónir króna.

Þó er bent á að óvissa sé um þær heildartekjur sem breytingin muni skila þar sem veiðigjaldið byggir á aflaverðmæti nytjastofna og ráðgjöf um heildarafla, sem liggur ekki fyrir nema fyrir eitt ár í senn. Veruleg óvissa sé því um hver þróun veiðigjaldsins verður þegar litið er til lengra tímabils en yfirstandandi fiskveiðiárs.

Einnig er tekið fram að óvissa sé um hver tekjuáhrifin verða ef heimild til að draga veiðigjald frá tekjuskattsstofni sem rekstrarkostnað verður felld á brott.

„Ákveðin óvissa er einnig um það hverju niðurfelling heimilda til að draga veiðigjald frá tekjuskattsstofni muni nákvæmlega skila í tekjum ríkissjóðs. Það ræðst m.a. af því að ekki er unnt að ganga út frá því að allir sem greiða veiðigjald séu með jákvæðan tekjuskattsstofn, m.a. vegna tapreksturs eða nýtingu [sic] eldra taps. Líklegt má þó telja að heildartekjuskattur á lögaðili [sic] sem greiða veiðigjald kunni að hækka um 10-20% af því sem nemur greiddu veiðigjaldi ár hvert,“ segir í mati á áhrifum þessarar fyrirhuguðu lagasetningar.

Í fjármálaáætlun fyrir árin 2024-2029 er gert ráð fyrir að veiðigjald hækki um þrjá milljarða 2026 og um fjóra á árinu 2027. Í frumvarpsdrögunum segir að veruleg óvissa sé þó um innheimt veiðigjald hvers árs og frávik geti verið veruleg. Árið 2023 voru veiðigjöld t.a.m. áætluð 9,5 milljarðar en þá voru innheimtir tíu milljarðar. omfr@mbl.is