Búrfellslundur Rangárþing ytra hefur gefið út framkvæmdaleyfi.
Búrfellslundur Rangárþing ytra hefur gefið út framkvæmdaleyfi. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Sveitarstjórn Rangárþings ytra samþykkti samhljóða á fundi sínum í gær að veita Landsvirkjun leyfi til framkvæmda vegna vindorkuvers við Vaðöldu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsvirkjun. Um er að ræða leyfi vegna vegagerðar innan…

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Sveitarstjórn Rangárþings ytra samþykkti samhljóða á fundi sínum í gær að veita Landsvirkjun leyfi til framkvæmda vegna vindorkuvers við Vaðöldu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsvirkjun.

Um er að ræða leyfi vegna vegagerðar innan framkvæmdasvæðis annars vegar og leyfi til uppsetningar vinnubúða hins vegar. Samkvæmt upplýsingum frá Landsvirkjun er gert ráð fyrir að farið verði í þær framkvæmdir í lok þessa mánaðar, enda að því stefnt að vindorkuverið verði komið í gagnið fyrir lok árs 2026.

Sveitarstjórnin tók framkvæmdaleyfisumsókn Landsvirkjunar fyrir á fundinum og fól skipulags- og umferðarnefnd, ásamt umhverfis-, hálendis- og samgöngunefnd Rangárþings ytra, að vinna áfram að afgreiðslu umsóknarinnar, þ.e. að ganga frá útgáfu framkvæmdaleyfisins með formlegum hætti.

Landsvirkjun áformar að efnistaka vegna framkvæmdanna við Búrfellslund verði í námum innan vébanda Rangárþings ytra, t.d. á Tungnaáreyri, en einnig verði nýtt efni sem fellur til við uppgröft á framkvæmdasvæðinu.

Í tilkynningu Landsvirkjunar segir að útboðsferli meðal vindmylluframleiðenda sé á lokametrunum og gert sé ráð fyrir að í októbermánuði verði ljóst hvaða vindmylluframleiðandi verði fyrir valinu. Búist er við að skrifað verði undir samninga í nóvember, enda liggi öll leyfi fyrir þegar þar verður komið sögu.