Auður Jóhannesdóttir fæddist í Reykjavík 9. júní 1947. Hún lést á heimili sínu í faðmi fjölskyldunnar eftir erfið veikindi 1. september 2024.

Auður var dóttir hjónanna Jóhannesar Guðnasonar eldavélasmiðs, f. 1921, d. 1990, og Aldísar Jónu Ásmundsdóttur húsmóður, f. 1922, d. 2008, en þau bjuggu á Hverfisgötu 58. Jói og Jóna áttu líka Sigríði Svanhildi, f. 1943, Ásmund, f. 1945, Guðna Albert, f. 1951, d. 2023, og Arnbjörn f. 1958.

Auður giftist Haraldi Lárussyni húsasmíðameistara, f. 23. október 1946, hinn 4. desember 1971. Foreldrar hans voru Lárus Rögnvaldsson, rafvirki og rafstöðvarstjóri, f. 1904, d. 1956, og Ásta Halldóra Gestsdóttir húsmóðir, f. 1910, d. 1991. Börn Auðar og Halla eru: 1) Ásta Sóley, f. 1972. 2) Lárus Rögnvaldur, f. 1977, kvæntur Hildi Björgvinsdóttur, f. 1983, og eru synir þeirra Þórður Bjarki, f. 2013, og Rögnvaldur, f. 2015. 3) Aldís Jóna, f. 1985, gift Gróu Rán Birgisdóttur, f. 1990. Sonur þeirra er Birgir Aðalsteinn, f. 2013.

Auður lauk gagnfræðaprófi frá Lindargötuskólanum vorið 1964 og starfaði að því loknu á smurbrauðsstofunni Brauðborg við Grettisgötu. Sumarið 1965 hóf hún störf í innheimtudeild Útvegsbankans og starfaði þar og í Íslandsbanka uns hún fór á eftirlaun 2007.

Útför Auðar fer fram í Fella- og Hólakirkju í dag, 12. september 2024, klukkan 13.

Hún Auður, litla systir mín, er látin. Hver hefði getað ímyndað sér að hún myndi fara svona snöggt, þessi hrausta kona sem alltaf hefur hugsað vel um heilsuna og borðað hollan mat. Hún hafði hins vegar stórar áhyggjur af heilsu minni sem bæði borðaði ekki nógu hollt og og drakk Pepsi Max sem hún hafði mjög illan bifur á. En svona er heimsins óréttlæti.

Auður er alin upp á Hverfisgötu 58 í Reykjavík í húsi afa og ömmu eins og við öll afkomendur þeirra. Það var stór hópur og býsna fjörugur. Við Aldísarbörn bjuggum fimm á efri hæðinni og Maggýjarbörn þrjú á þeirri neðri. Svo bjuggu amma og afi þarna líka og inni hjá þeim var gott að fela sig svo ekki væri endalaust verið að senda okkur í sendiferðir. Auður varð snemma læs og pabbi okkar, sem var ákaflega hrifinn af litlu dóttur sinni, orti eftirfarandi vísu:

Auður mín er yndisleg

allir vegir henni færir.

Að lesa er komin vel á veg

og vísdómslega reikning lærir.

Auður var alla tíð mjög bókhneigð. Hún sökkti sér alveg niður í bækur og var ekki auðvelt að ná sambandi við hana þegar sá gállinn var á henni. Að mínum dómi var hún líka mikil smekkkona á bækur. Hún hneigðist líka til hannyrða ýmiss konar og bjó til ýmislegt frá mjög ungum aldri sem ég öfundaðist mikið yfir, því ég hafði ekki erft þessa handlagni sem var þó gegnumgangandi í ættinni. Hún passaði líka ákaflega vel upp á allt sitt, raðaði gjarnan og sorteraði eftir litum og áferð. Við systur deildum fataskáp og höfðum sínar tvær hillurnar hvor. Í minningunni voru Auðar hillur algerlega óaðfinnanlegar, þar stóð allt í hnífjöfnum röðum, en mínar hillur voru algert kaos.

Pabbi og mamma voru mikið fyrir að halda miklar og fjölmennar veislur á Hverfisgötunni. Var þá mikið sungið og sagðar sögur og jafnvel dansað í stofunni við gítarundirleik pabba. Þannig kynntumst við vel fjölskyldu pabba okkar og var alla tíð mjög náið samband við þau, sem efldist enn síðar þegar við fórum að dvelja í gamla bænum afa og ömmu í Botni í Súgandafirði á sumrin. Við systurnar höfum mörg undanfarin ár staðið þar fyrir veisluhöldum og skemmt okkur afskaplega vel. Enga manneskju veit ég betri en Auði í þeim kringumstæðum þar sem við vorum oft með 20 manns í kvöldmat í litlu stofunni í Botni. Við héldum líka upp á sjötugsafmæli Auðar á pallinum fyrir framan húsið og var þar margmenni og mikið fjör. Svo skruppum við systur ævinlega til Ísafjarðar til þess að kaupa tískuföt hjá Jóni og Gunnu.

Hámark sælunnar var að vera í Botni þegar aðalbláberjatíminn stóð sem hæst og við vorum úti í skógi að tína og ilmurinn af lynginu og skóginum var svo sterkur og berin svo stór og falleg. Það var hinsta ósk Auðar að komast vestur í ber en ekki gat orðið af því þar sem heilsu hennar hafði þá hrakað svo mjög.

Það er erfitt að þurfa að kveðja litlu systur sína svo snemma. Hún sjálf tók þessum örlögum af mikilli skynsemi og ég er að reyna að feta í fótspor hennar með það en ég er víst bara ekki eins skynsöm. En það er alla vega satt sem stendur í kvæðinu:

„Það syrtir að er sumir kveðja.“

Sigríður Jóhannesdóttir.