Kappræður Trump og Harris takast hér í hendur við upphaf kappræðnanna í Fíladelfíuborg í fyrrinótt. Lýstu báðir flokkar yfir sigri að ræðum loknum.
Kappræður Trump og Harris takast hér í hendur við upphaf kappræðnanna í Fíladelfíuborg í fyrrinótt. Lýstu báðir flokkar yfir sigri að ræðum loknum. — AFP/Saul Loeb
Niðurstöður úr skoðanakönnunum og frá þeim viðhorfshópum sem leitað var til vestanhafs í gær bentu til þess að Kamala Harris, varaforseti Bandaríkjanna og forsetaframbjóðandi demókrata, hefði staðið sig betur en Donald Trump, fyrrverandi forseti og…

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Niðurstöður úr skoðanakönnunum og frá þeim viðhorfshópum sem leitað var til vestanhafs í gær bentu til þess að Kamala Harris, varaforseti Bandaríkjanna og forsetaframbjóðandi demókrata, hefði staðið sig betur en Donald Trump, fyrrverandi forseti og frambjóðandi repúblikana, í fyrstu kappræðum þeirra sem haldnar voru í Fíladelfíuborg í fyrrinótt.

Þannig töldu 63% þeirra sem svöruðu könnun CNN-sjónvarpsstöðvarinnar að Harris hefði staðið sig betur, en 37% töldu Trump hafa haft betur. Mikill meirihluti þeirra sem svöruðu könnuninni sögðu hins vegar einnig að kappræðurnar myndu ekki hafa nein áhrif á atkvæði þeirra.

Einn helsti vendipunktur kappræðnanna kom þegar frambjóðendurnir voru spurðir út í innflytjendamál, sem kannanir benda til að séu akkilesarhæll fyrir Demókrataflokkinn. Nýtti Harris hluta af svartíma sínum til þess að gera lítið úr kosningafundum Trumps og sagði hún m.a. að áhorfendur færu snemma heim af þeim, þar sem fundirnir væru leiðinlegir. Eyddi Trump þá meirihluta svartíma síns í að ræða það hversu fjölmennir kosningafundir sínir væru í stað þess að benda á veikleika demókrata í málaflokknum.

Trump ákvað svo í kjölfarið að halda því fram að ólöglegir innflytjendur frá Haítí hefðu lagt sér gæludýr til munns í borginni Springfield í Ohio-ríki, en slíkar fullyrðingar hafa farið hátt í fjölmiðlum á hægri jaðri bandarískra stjórnmála undanfarna daga. Lögreglan í Springfield hefur hins vegar sagt að engin kæra eða tilkynning hafi borist um að gæludýrum hafi verið stolið eða þau borðuð.

Báðir flokkar lýstu yfir sigri að kappræðunum loknum, en óvíst er hvaða áhrif þær muni hafa á kosningabaráttuna. Harris lýsti því strax yfir að hún vildi mæta Trump aftur í október, en Trump sagðist í gær þurfa að íhuga hvort hann vildi mæta Harris aftur. Þá gagnrýndu repúblikanar nokkuð spyrla ABC-sjónvarpsstöðvarinnar og sögðu þá hafa dregið taum Harris. Sagði Trump við Fox-sjónvarpsstöðina í gær að hann hefði att kappi við þrjá andstæðinga og haft betur.

Bandaríska tónlistarkonan Taylor Swift birti yfirlýsingu á samfélagsmiðlum strax að loknum kappræðum þar sem hún lýsti yfir stuðningi sínum við Kamölu Harris. Swift er nú einn vinsælasti tónlistarmaður Bandaríkjanna, og er hún talin hafa mikil áhrif á aðdáendur sína, hinar svonefndu „Swift-ínur“, sem hafa fjölmennt á tónleikaferð hennar síðustu mánuði. Trump sagði hins vegar í gær að það hefði verið viðbúið að Swift myndi styðja Harris.

Höf.: Stefán Gunnar Sveinsson