Halldór Ævar Þiðrandason fæddist 30. maí 1946 í Sæbóli í Ólafsfirði. Hann lést á gjörgæsludeild Sjúkrahússins á Akureyri 30. ágúst 2024 eftir snarpa baráttu við krabbamein.

Foreldrar hans voru Þiðrandi Ingimarsson, f. 30.8. 1903, d. 14.4. 1967, og Snjólaug Jónsdóttir f. 13.9. 1913, d. 18.4. 1996. Systkini Ævars voru Ingimar Þiðrandason, f. 24.6. 1937, d. 8.6. 2013, Gestur Pálmason, f. 20.3. 1942, Guðrún Sigurbjörnsdóttir, f. 13.4. 1942, Hulda Þiðrandadóttir, f. 18.2. 1945, og Sveinbjörn Þiðrandason, f. 8.3. 1948, sem lést af slysförum 5. júlí 1965.

Árið 1974 flutti Ævar ásamt móður sinni og bræðrum frá Sæbóli að Hlíðarvegi 27 sem Ingimar byggði. Ævar innréttaði íbúð á neðri hæðinni og bjó þar til 1981. Árið 1981 hóf Ævar sambúð með Halldóru Marý Walderhaug, f. 16.12. 1936. Þau gengu í hjónaband 7. maí 1997 og bjuggu alla sína sambúð í Ólafsfirði, lengst af á Hlíðarvegi 31. Marý átti fyrir átta börn, þar af voru sex yngstu enn í heimahúsum. Ævar gekk börnum Marýjar í föður stað. Þau eru Sigurlaug Hrönn, f. 17.2. 1960, Vala, f. 25.7. 1962, Helgi, f. 26.3. 1964, d. 18.4. 2019, Ólöf Ýr, f. 23.3. 1966, Andri, f. 18.4. 1967, Tinna, f. 11.11. 1968, Sölvi, f. 15.8. 1970, og Guðrún, f. 26.7. 1971.

Ævar og Marý eiga 25 barnabörn og 35 barnabarnabörn.

Ævar bjó alla tíð í Ólafsfirði og lauk þaðan skyldunámi. Honum gekk vel í raungreinum, náttúrufræði, dýrafræði og reikningi. Áhugamál hans tengdust alla tíð þessum fræðum. Foreldrar hans áttu lengst af kú og kindur til heimilisnota. Ævar tók þátt í flestum verkum í kringum skepnurnar, var mikill dýravinur enda hændust dýr mjög að honum. Hafið átti þó hug hans frá blautu barnsbeini. Ævar var harðduglegur maður, vann mikið alla tíð. Níu ára fylgdi hann Huldu systur sinni á Stígandaplanið í síld, tíu ára lagði hann grunninn að ævilöngum sjómennskuferli sínum, lék sér á firðinum á Kríunni ásamt jafnöldrum og litla bróður og veiddi fisk til búdrýginda. Ellefu, tólf ára reri hann á sumrin á trillu með föðurbróður sínum Ragnari. Þegar ekki var róið var mikil vinna í landi tengd síld og saltfiskþurrkun. Eftir fermingu var Ævar eitt sumar á ufsaveiðum á Leifi ÓF 4 og tvö sumur á síld á Þorleifi Rögnvaldssyni. Hann vann við beitningar, fór á vetrarvertíð á ýmsum bátum frá Vestmannaeyjum og Hafnarfirði. Svo fór hann á Guðbjörgu ÓF 3 og þaðan á Hannes Hafstein. Á Hannesi fór hann í fyrsta skipti út fyrir landhelgina. Síldin var elt í Norðursjóinn og norður í haf langleiðina til Svalbarða, langt norður fyrir Jan Mayen. Landað var í Haförninn eða í Noregi, Færeyjum og Hjaltlandseyjum. Ævar var tvö sumur eingöngu á Norðursjónum á Bjarma 2., frá Dalvík, svo á Sigurbjörgu ÓF 1, eldri, áður en hann réð sig 1974 á Sólbergið ÓF 12 en þaðan fór hann yfir á frystitogarann Mánaberg ÓF 42 þegar hann kom til Ólafsfjarðar árið 1987. Ævar lauk sjómennskuferli sínum þar árið 2013.

Ævar var mikill fjölskyldumaður sem naut þess að eiga góðar stundir með fjölskyldu sinni og vinum.

Ævar verður jarðsunginn frá Ólafsfjarðarkirkju í dag, 12. september 2024, klukkan 14.
Streymi frá útför:
http://mbl.is/go/5626u

Ævar afi var barngóður, hjartahlýr og mikill mannvinur. Þegar ég minnist hans koma fyrst upp í hugann heimsóknir í bernsku á Hlíðarveginn til ömmu og afa þar sem ávallt var tekið vel á móti manni, jafnvel þótt húsið væri yfirfullt af gestum og hávaðasömu ungviði svo dögum skipti. Allir voru alltaf velkomnir og engu máli skipti þótt karlinn hefði verið þreyttur eftir langan túr á sjónum, alltaf lét hann í ljós að maður væri velkominn.

Þessi einstaki hugljúfi og þolinmóði mannvinur með sitt vinalega viðmót, góða húmor og miklu gestrisni var líka alltaf hjálpsamur og tilbúinn að rétta hjálparhönd ef á þurfti að halda. Gott lundarfar hans og vönduð manngerð var líka mikill hvati fyrir aukna samveru og samheldni innan stórfjölskyldunnar. Afi var alltaf tilbúinn að verja tíma sínum með okkur barnabörnunum, spjalla við okkur og sýndi okkar umræðuefnum alltaf áhuga.

Mér eru minnisstæðar trilluferðirnar með þér út á Ólafsfjörðinn sem var mikið ævintýri fyrir ungan pjakk í veiðihug en þessar ferðir geyma margar góðar minningar með þér. Það var mikið gæfuspor að fá þig í fjölskylduna og þótt leiðir okkar hafi ekki oft legið saman síðustu ár mun ég alltaf minnast þín með hlýju og söknuði elsku afi.

Andri Ísak Þórhallsson.

Lífið tekur stundum óvænta stefnu þegar við síst eigum von á því. Í dag kveðjum við og minnumst ástkærs manns – Ævars frænda, sem með góðvild og kærleika sáði mörgum fræjum til ættingja og vina. Hann var maður með hjarta úr gulli. Alltaf reiðubúinn að rétta öðrum hjálparhönd. Nærvera hans veitti öllum sem þekktu hann gleði og hlýju.

Þegar ég var yngri var ég eitt skipti spurð út í „Dóa“ frænda. Ég sagðist nú ekki eiga neinn frænda sem héti því nafni en í okkar fjölskyldu þekktum við hann einungis út frá nafninu Ævar – Ævar frændi.

Ég man eftir öllum plötunum sem hann átti hjá Inga frænda, þær skiptu hundruðum. Hann hélt mikið upp á ABBA og Boney M en mig minnir einmitt að Boney M-plata hafi verið sú fyrsta sem ég sá, efst í bunkanum.

Ævar elskaði hesta og keypti sér því hest, Glóð. Eitt skipti bauð mér hann í „stuttan“ reiðtúr. Ég hafði ekki setið hest áður. Við fórum frá hesthúsinu og inn Skeggjabrekkudal þar sem ég datt af baki. Upp á bak skyldi ég aftur og enduðum við þennan „stutta“ reiðtúr á að fara hringinn í kringum vatnið. Þetta var dásamleg ferð í frábærum félagsskap og frábæru veðri – þótt ferðin hafi aðeins verið í lengri kantinum.

Mamma og Ævar voru nokkuð náin systkini, sérstaklega nú á seinni árum. Þau pössuðu vel hvort upp á annað. Hittust yfir kaffibollanum á Hlíðarvegi 31 eða 63. Margar sögurnar voru rifjaðar upp yfir kaffibollanum eða vatninu sem Ævar kaus oft fram yfir kaffibollann.

Ævar elskaði fjölskylduna sína af öllu hjarta. Hann var kærleiksríkur frændi, eiginmaður, bróðir, faðir, tengdafaðir, afi og langafi. Hann sá til þess að hver stund sem hann eyddi með fjölskyldunni væri fyllt af ást. Í veikindum Ævars sást vel hve vænt börnum, tengdabörnum og barnabörnum þótti um hann. Hann var umvafinn ást og væntumþykju fram á síðustu stundu.

Ævar kvartaði aldrei, jafnvel þegar hann stóð frammi fyrir sínum eigin erfiðleikum eða veikindum. Styrkur hans og hugrekki voru augljós í því hvernig hann hugsaði um aðra og setti þarfir þeirra á undan sínum eigin.

Það verður skrítið að horfa upp að húsinu þínu þar sem þú munt ekki sitja við eldhúsgluggann og horfa út á haf. Það verður skrítið að sjá þig ekki standa með kíkinn í svefnherberginu og horfa út á haf en ég veit að þú verður með kíkinn þinn og horfir niður og passar upp á ástvini.

Til elsku Ævars frænda. Takk fyrir alla hlýjuna og væntumþykjuna sem þú gafst okkur. Þú munt alltaf eiga sérstakan stað í hjarta mínu.

Hvíldu í friði, kæri Ævar frændi. Þín mun verða sárt saknað en við munum halda áfram að ylja okkur við allar góðu minningarnar. Ég veit að bræður þínir, afi og amma og Helgi munu taka vel á móti þér.

Elsku Sigga, Vala, Ólöf, Tinna, Andri, Sölvi og Guðrún, takk fyrir að vera alltaf til staðar fyrir Ævar frænda.

Þín frænka,

Gyða.

Elsku Ævar frændi. Ég trúi því ekki að ég sé að skrifa minningargrein um þig. Mér finnst svo óraunverulegt að þú sért bara farinn frá okkur eftir mjög stutt veikindi ef stutt skyldi kalla. Þú hefur örugglega verið búinn að finna fyrir einkennum en haldið áfram á æðruleysinu.

Þú varst einstakur maður og góðvildina og væntumþykjuna fann ég svo sterkt frá þér.

Margt var maður búin að bralla með þér. Allar ferðirnar til Siglufjarðar á rauða Dodge-inum þínum að heimsækja ættingja og vini. Ekki var það nú leiðinlegt.

Þegar þú komst heim úr siglingum á gamla Sólberginu þá beið maður spenntur í eldhúsglugganum hjá ömmu þegar þú sigldir inn fjörðinn. Oft fannst mér taka allt of langan tíma að tollskoða skipið því ég gat ekki beðið eftir að fá að vita hvað þú kæmir með í þetta skiptið handa mér. Þú komst alltaf með eitthvað handa okkur systrum.

Eitt árið keyptir þú þér hest, hana Glóð þína. Þú bauðst mér með í reiðtúr inn sveitina og þú lést mig á einhverja bikkju sem nennti bara alls ekki að fara með mig í þessa ferð. Ég var mest stopp á leiðinni. Mikið varst þú búinn að hlæja að þessu. Það endaði með því að þú þurftir að teyma hestinn í bæinn.

Já, minningarnar eru óteljandi en ég geymi þær fyrir mig í hjarta mínu.

Elsku Ævar frændi, það voru forréttindi að fá að þekkja þig og alast upp með þér.

Elska þig alltaf.

Þín frænka,

Fjóla Bláfeld.

Elsku besti og kærleiksríki frændi minn, sem lést í faðmi fjölskyldunnar þann 30. ágúst á gjörgæsludeild SAK eftir stutt en erfið veikindi, skilur eftir sig tómarúm en miklar og góðar minningar. Mikið á ég eftir að sakna þín og okkar samveru við eldhúsgluggann með heitan kaffibollann og okkar einlæga spjalls. Mikið á ég eftir að sakna þess að veifa þér ekki þegar ég hjóla eða labba fram hjá.

Margar góðar minningar á ég um þig, endalausa væntumþykju og tala nú ekki um stríðnina og hláturinn. Mér er svo minnisstætt þegar amma sendi mig til að vekja þig. Ég var alltaf jafn hissa þegar ég kom niður og fæturnir voru undan sænginni en höfuðið undir og skýringin var sú að þú andaðir með tánum, auðvitað trúði ég þessu. Minningin um Boney M og plakötin maður minn, þetta var nýr heimur sem ég kynntist í gegnum þig. Þú varst og verður alltaf minn uppáhaldstöffari og leit ég alltaf upp til þín.

Minningin um þegar við fórum saman til Siglufjarðar að ná í Bubba frænda á rauða Dodginum. Þá sagðir þú við mig að það mætti alls ekki vera með opinn glugga í Strákagöngunum, þá gæti maður dáið, og ég trúði þér 100% – varð svo skíthrædd þegar Bubbi opnaði gluggann í göngunum, en þá hlóst þú og leiðréttir allt.

Elsku Ævar sem varst með hjarta úr gulli, góða nærveru og vildir allt fyrir alla gera. Það er erfitt að kyngja því að þú sért farinn í sumarlandið, lést á afmælisdegi pabba þíns. Ég veit að það hefur verið tekið vel á móti þér; amma, afi, Ingi og Sveini hafa fagnað komu þinni. Ég er þér ævinlega þakklát fyrir tímann sem ég hef fengið með þér og þú áttir og átt alltaf stórt pláss í hjarta mínu og mun ég aldrei gleyma þér. Takk Ævar „nafni“ fyrir allt, þín verður sárt saknað.

Minning

Sumir hverfa fljótt úr heimi hér,

skrítið stundum hvernig lífið er.

Eftir sitja margar minningar,

þakklæti og trú.

Þegar eitthvað virðist þjaka mig

þarf ég bara að sitja og hugsa
um þig.

Þá er eins og losni úr læðingi

lausnir öllu við öllu.

(Ingibjörg Gunnarsdóttir)

Elsku Marý og fjölskylda, ég votta ykkur mína innilegustu samúð.

Hallfríður Helga
Stefánsdóttir.

Í dag kveðjum við kæran vin. Ævar, eða Dói eins og við kölluðum hann alltaf, er látinn eftir stutt en snörp veikindi. Við minnumst Dóa með miklum hlýhug og yljum okkur við minningar um gamla og góða tíma þegar við vorum vinnufélagar á sjónum og nágrannar á Ólafsfirði. Okkur finnst það segja svo mikið um manngæsku Ævars að það var yfirleitt eitt af fyrstu verkum litlu strákanna í fjölskyldunni okkar að hlaupa upp Lyngholtstúnið þegar við komum norður og heimsækja hann og Marý. Hann tók þeim alltaf svo vel og var góður við þá, gaf þeim ís og ræddi fiskirí.

Elsku Marý, börn og fjölskyldur. Í gegnum veikindi Dóa hefur verið hjartnæmt að sjá hversu mikla væntumþykju og elsku þið hafið öll til Dóa. Þið voruð greinilega heppin með hann og hann heppinn með ykkur. Innilegar samúðarkveðjur til ykkar allra. Elsku Gestur, Hulda og fjölskylda; við sendum ykkur okkar innilegustu samúðarkveðjur. Minning um góðan mann lifir.

Einar, Jónína Margrét (Gréta) og börn.