Magnús Örn Guðmundsson
Magnús Örn Guðmundsson
Minni sátt er um samgöngusáttmálann en nafnið gæti gefið til kynna. Hörð gagnrýni hefur komið fram á undirbúning, áhættumat, fjármögnun og framúrkeyrslu, svo nokkuð sé nefnt. Magnús Örn Guðmundsson, stjórnarmaður í strætó og bæjarfulltrúi á…

Minni sátt er um samgöngusáttmálann en nafnið gæti gefið til kynna. Hörð gagnrýni hefur komið fram á undirbúning, áhættumat, fjármögnun og framúrkeyrslu, svo nokkuð sé nefnt. Magnús Örn Guðmundsson, stjórnarmaður í strætó og bæjarfulltrúi á Seltjarnarnesi, setti fram alvarlegar athugasemdir í samtali við blaðið í gær og benti meðal annars á að fjármögnun væri verulega ábótavant, auk þess sem kostnaður væri enn vanáætlaður, þrátt fyrir að hafa tvöfaldast í nýrri uppfærslu sáttmálans.

Magnús Örn segir dæmið „einfaldlega ekki hugsað til enda“ og óábyrgt sé að samþykkja sáttmálann eins og hann liggi fyrir.

Þá gagnrýnir hann rekstraráætlun borgarlínunnar, sem gerir ráð fyrir margföldun í notkun á almenningssamgöngum. Áætlað sé að fargjöld standi undir 40% af rekstrarkostnaði, sem sé ekki raunhæft og í dag standi þau aðeins undir 20% kostnaðarins. Þarna getur hæglega munað milljörðum króna á ári og hver á að standa undir því? Þeirri spurningu hefur ekki verið svarað.

Þá er opin lántökuheimild Betri samgangna með ábyrgð skattgreiðenda mikið áhyggjuefni, ekki síst þegar kostnaður er að öllum líkindum vanmetinn og tekjur stórkostlega ofmetnar. Ekki er ofsögum sagt að málið í heild sé vanhugsað og ábyrgðarleysi að halda áfram á þessum hæpnu og röngu forsendum.