Haraldur Schiöth Haraldsson fæddist í Reykjavík 21. september 1940. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Hlíð á Akureyri 19. ágúst 2024.

Foreldrar hans voru Haraldur Magnússon, f. 1914, d. 1983, og Guðrún Lárusdóttir, f. 1904, d. 1991. Systkin Haralds eru Elfar, f. 1933, d. 1991, og Elsa, f. 1943.

Eiginkona Haralds var Erna María Ludvigsdóttir, f. 1947, d. 2009. Sonur Ernu og kjörsonur Haralds er Pétur Albert, f. 1963, giftur Berglindi Johansen og eiga þau dæturnar Kristjönu, Karólínu og Ernu Katrínu. Börn Haralds og Ernu Maríu eru: 1) Unnur María, f. 1968, gift Helga Bjarnasyni, sonur þeirra er Arnór Bjarni. Sonur Helga frá fyrra sambandi er Árni Freyr. 2) Haraldur Ludvig, f. 1978, trúlofaður Huldu Geirsdóttur. Dóttir Haralds Ludvigs frá fyrra sambandi er Viktoría María. Hulda á tvær dætur frá fyrra sambandi; Magdalenu og Amalíu.

Haraldur gekk í Vélstjóraskólann í Reykjavík og starfaði sem vélstjóri um tíma. Hann starfaði hjá heildversluninni Globus um árabil, fyrst sem sölumaður og síðar sem sölustjóri.

Haraldur stofnaði síðan sitt eigið fyrirtæki, H. Haraldsson heildverslun, sem hann rak í um 20 ár. Síðustu árin starfaði Haraldur sem húsvörður hjá Atlanta-flugfélaginu og einnig sem rútubílstjóri hjá Hópbílum.

Hann flutti til Akureyrar 2017 og bjó síðustu níu mánuðina á Hjúkrunarheimilinu Hlíð.

Jarðarför hans fer fram í Bústaðakirkju í dag, 12. september 2024, klukkan 13.00.

Streymt verður frá athöfninni á www.mbl.is/andlat

Elsku Harrý, tengdapabbi minn, hefur nú kvatt þetta líf.

Það er alltaf sorg þegar ástvinur deyr en í dag fagna ég frelsinu sem Harrý hefur öðlast nú eftir að hafa glímt við sjúkdóm um tíma sem aðeins stelur minningum og tekur fólk inn í djúpan dal. Það átti ekki við minn mann sem var mikil félagsvera, ávallt hress og léttur í spori, sem elskaði söng og dans og fannst ekkert skemmtilegra en að hjálpa öðrum og „gera og græja“, hvort sem það var fyrir hann sjálfan eða aðra. Hann og Erna hans heitin voru yndisleg og samheldin, ekki síst í ömmu- og afahlutverkunum en dætur okkar Péturs ylja sér nú við dýrmætar minningar um þau.

Ég kveð nú minn kæra tengdapabba með þökk fyrir þau rúm 40 ár sem við áttum samleið, fyrir þá góðu vináttu og hlýleika sem ég fann alltaf frá honum. Hann hvíli í friði.

Berglind (Linda).

Kær mágur minn Harrý er látinn á Akureyri, tæplega 84 ára að aldri. Hann lést skyndilega á hjúkrunarheimilinu Hlíð þar sem hann hafði dvalið um nokkurt skeið og notið góðrar umönnunar. Gamlar minningar leita á hugann, minningar um góðan mann sem kom inn í líf systur minnar Ernu og Péturs sonar hennar og fjölskyldu okkar þegar vindar höfðu blásið. Hann bar með sér glaðværð, jákvæðni og dugnað, sem smitaði alla sem kynntust honum og einkenndu allt hans líf. Hann hafði aflað sér menntunar sem vélstjóri, en starfaði lengst af sem sölumaður, fyrst hjá öðrum, en síðar við eigin atvinnurekstur. Þar nutu glaðværð hans og dugnaður sín vel og fleyttu starfseminni áfram, þótt stundum hafi gefið á bátinn.

Harrý var einstaklega handlaginn, átti verkfæri til alls og var alltaf reiðubúinn til aðstoðar ef á þurfti að halda. Þegar vaskar stífluðust eða heimilistæki biluðu var hringt í hann, en líka þegar fagmenn höfðu gefist upp og engin ráð voru til. Þannig var ástandið á „Bláa ljóninu“ minum fyrsta bíl, blámáluðum Saab 1963, að hann drap alltaf á sér á lengri leiðum eftir um klukkustundar akstur. Mjög hvimleitt. Færustu fagmenn klóruðu sér í höfðinu, en Harrý fann lausnina. Bensínlokið var of þétt svo það kafnaði á vélinni þegar lækkaði í tanknum. Þetta voru töfrar.

Harrý hafði mikinn áhuga vélum og tækjum og um það leyti sem hann var að gera hosur sínar grænar fyrir systur minni, átti hann glæsilegan stíflakkaðan opinn hraðbát af sænskri gerð sem dugði til skemmtisiglinga og skotveiðiferða um Faxaflóann á fallegum vorkvöldum. En áhugi á mótorhjólum hafði lengi blundað í honum, svo eftir að Erna systir mín lést langt um aldur fram, fór mótorhjólaáhuginn á flug og hann eignaðist hjól, sem hann ferðaðist á vítt og breitt um landið og hafði mikla ánægju af. Alls konar viðgerðir og lagfæringar léku í höndum hans og þegar hann keypti sér litla íbúð við Pollinn á Akureyri fyrir nokkrum árum, til að vera í nágrenni við Unni dóttur sína og hennar fjölskyldu, fylgdi íbúðinni skúr þar sem hægt var að dunda sér og dytta að. Þar leið honum vel.

Síðustu ár hefur vaxandi heilabilun læst í hann klónum og sett mark sitt á þennan stolta og duglega mann. Þrátt fyrir mikinn stuðning fjölskyldunnar, sérstaklega Unnar dóttur hans, gat hann ekki lengur staðið einn með sjálfum sér. Það var því léttir að heyra að hann hefði fengið vistina á Hlíð og hann væri ánægður þar.

Við áttum góða samleið og vináttu sem ég mun ylja mér við þar til yfir lýkur. Ég sakna góðs manns og bið Guð að blessa minningu hans.

Pétur Lúðvígsson.

Að hryggjast og gleðjast

hér um fáa daga,

að heilsast og kveðjast.

Það er lífsins saga.

(Páll J. Árdal)

Í dag kveðjum við kæran félaga og vin, Harald Haraldsson eða Harrý eins og hann var kallaður. Enn og aftur sjáum við á bak vini úr klíkunni okkar sem hefur haldið hópinn í meira en hálfa öld. Harrý kvaddi þessa jarðvist 19. ágúst sl., daginn eftir fimmtán ára dánardægur eiginkonu sinnar, Ernu Ludvigsdóttur, sem lést fyrir aldur fram 18. ágúst 2009. Þau gengu í hjónaband 20. ágúst 1966 og hefðu því fagnað 58 árum saman hefði þeim enst aldur til. Eins og börn Harrýs komust að orði þegar þau tilkynntu lát hans hefði Erna eflaust kippt í strengi til að þau hjónin gætu dansað brúðardansinn saman í tilefni dagsins.

Söknuður Harrýs við ótímabært lát Ernu var mikill og sár því þau voru einstaklega samheldin hjón og félagslynd og sáu til þess að kalla hópinn saman ef þeim fannst of langt liðið frá síðasta hittingi. Oftar en ekki fengu vinir boðskort í formi bundins máls sem Erna átti svo auðvelt með að koma frá sér og eigum við mörg dýrmætar vísur í fórum okkar sem hún orti við ýmis tilefni.

Harrý var fullur af orku, léttur á fæti og gat verið hrókur alls fagnaðar. Hann var músíkalskur og góður söngmaður og sóttust dömurnar eftir því að fá að fylgja honum út á dansgólfið því hann var jafnvígur á bæði gömlu og nýju dansana. Hann var handlaginn og var ávallt boðinn og búinn að rétta hjálparhönd og allt virtist leika í höndunum á honum. Hann var líka „dellukarl“ því hann hafði áhuga á öllu sem gekk fyrir vélarafli, hvort sem það voru bílar, mótorhjól eða bátar. Harrý lá ekki á skoðunum sínum og gat verið fastur fyrir en Erna var sú sem gat tjónkað við hann ef svo bar undir.

Klíkan hefur haldið hópinn allt frá sjötta áratug síðustu aldar og vorum við 16 alls. Árleg ferðalög og samverustundir hafa skapað ómetanlegar minningar sem ljúft er að ylja sér við nú á kveðjustund. Án efa verður vel tekið á móti Harrý af þeim sex félögum sem á undan eru gengnir inn í sumarlandið.

Eftir lát Ernu myndaðist tómarúm hjá vini okkar sem erfitt var að fylla. Fluttist hann til Akureyrar fyrir nokkrum árum til að vera nær dóttur sinni Unni sem hugsaði vel um pabba sinn síðustu árin sem voru honum á margan hátt erfið þegar óminnishegrinn fór að taka völdin. Hann fékk hægt andlát og óskandi væri að þau hjónin séu nú sameinuð handan þessa heims og dansi saman brúðardansinn.

Við leiðarlok vottum við börnum hans Pétri, Unni og Halla, tengdabörnum, barnabörnum og fjölskyldunni allri okkar dýpstu samúð. Þeirra er söknuðurinn mestur. Við kveðjum góðan vin með virðingu og þökkum samfylgdina og vitum að ljúfar minningar sem streyma í gegnum hugann munu ylja fjölskyldunni og okkur öllum sem hann þekktu um ókomin ár og veita styrk.

Nú kveðja þig vinir með klökkva og þrá

því komin er skilnaðarstundin.

Hve indælt það verður þig aftur að sjá

í alsælu og fögnuði himnum á,

er sofnum vér síðasta blundinn.

(Hugrún)

Erla og Garðar,
Arna og Sveinbjörn,
Hermann og Ólafía, Elsa, Kolbrún og Snæfríður.