Flugvöllur Umfangsmikil rannsókn lögreglu stendur nú yfir.
Flugvöllur Umfangsmikil rannsókn lögreglu stendur nú yfir. — Morgunblaðið/Eggert
Umfangsmikil mansalsrannsókn er í gangi hjá lögreglunni á Suðurnesjum. Tveir menn voru úrskurðaðir í vikulangt gæsluvarðhald eftir að í ljós kom að tvær stúlkur undir 18 ára aldri voru ranglega skráðar sem dætur annars þeirra

Umfangsmikil mansalsrannsókn er í gangi hjá lögreglunni á Suðurnesjum. Tveir menn voru úrskurðaðir í vikulangt gæsluvarðhald eftir að í ljós kom að tvær stúlkur undir 18 ára aldri voru ranglega skráðar sem dætur annars þeirra. Var það ljóst eftir niðurstöðu úr DNA-prófi.

Í gæsluvarðhaldsúrskurði yfir öðrum manninum kemur fram að grunur leiki á því að maðurinn hafi ætlað sér að hagnýta stúlkurnar í mansal. Fram kemur í úrskurði Héraðsdóms Reykjaness sem staðfestur var í Landsrétti á þriðjudag að rannsókn lögreglu snúi að mansali, skjalafalsi, röngum framburði og skipulagningu á smygli á fólki til landsins.

Í gæsluvarðhaldsúrskurði héraðsdóms kemur fram að stúlkurnar hafi komið til landsins í júlí í fyrra. Þær sögðust vera komnar til Íslands til að hitta föður sinn sem ætti heima á Íslandi.

Við uppflettingu hjá lögreglu mátti sjá að þeim hafði verið veitt dvalarleyfi á grundvelli þess að þær ættu íslenskan föður. Jafnframt var hann skráður í kerfum stjórnvalda sem faðir stúlknanna. Faðirinn var ekki á landinu þegar stúlkurnar komu til landsins og voru þær í umsjá barnaverndaryfirvalda þar til maðurinn kom til landsins.

Fram kemur að lögregla hafi rökstuddan grun um að stúlkurnar búi við slæmar aðstæður. Fyrir liggur að önnur stúlkan er þunguð en hin er HIV-smituð. Að kröfu Útlendingastofnunar voru stúlkurnar sendar í DNA-próf og tekið var sýni úr meintum föður þeirra einnig. Í ljós kom að hann var ekki faðir þeirra. Þá segir að grunur lögreglu snúi að því að maðurinn hafi vísvitandi blekkt íslensk stjórnvöld og gefið upp rangar upplýsingar í því skyni að fá dvalarleyfi fyrir stúlkurnar á fölskum forsendum.