Frank Zappa setti sinn svip á tónlistarheim síðari hluta 20. aldarinnar. Tónlist hans var ágeng og furðuleg, textarnir uppfullir af ögrunum og húmor. Hann sló um sig með hárbeittum athugasemdum og skírði börnin sín furðulegum nöfnum.
Eitt þeirra, dóttirin Moon Unit Zappa, gaf út ævisögu í haust, Earth to Moon, þar sem hún lýsir lífinu á heimili Zappa-fjölskyldunnar, lífi fjölskyldu í upplausn. Bókin hefur fengið nokkra umfjöllun og eru umsagnir yfirleitt lofsamlegar. Í þeim hafa einnig verið raktar ýmsar uppvaxtarsögur úr bókinni.
Zappa var reyndar mikið heima þegar hann var ekki á tónleikaferðalögum, en í raun var hann aldrei til staðar. Hann var niðri í kjallara á heimili fjölskyldunnar í Laurel Canyon í Kaliforníu að sinna tónlistinni, börnin náðu vart sambandi við hann og í húsinu var hálfnakið, ókunnugt fólk á vappi.
„Ég er þrettán ára. Ég heiti Moon.“
Í bókinni lýsir hún því þegar hún ýtti bréfi undir dyrnar á hljóðverinu hjá honum til þess að ná sambandi við föður sinn. „Hæ pabbi! Ég er þrettán ára. Ég heiti Moon. Hingað til hef ég reynt að vera ekki fyrir þegar þú ert að taka upp. En nú hef ég komist að þeirri niðurstöðu að mig langar að syngja með þér á nýju plötunni þinni. Ég er með nokkuð fína rödd.“
Þetta var eina leiðin fyrir hana til að komast að föðurnum, sem hún elskaði og dáði.
Nokkru síðar – þetta var sumarið 1982 – vakti pabbi hennar hana um miðja nótt og sagði: „Mig langar að gera lag með þér.“
Í áðurnefndu bréfi til föður síns hafði Moon Unit sagt að hún vildi nota Encino-hreiminn sinn fyrir hann. Encino nefnist hverfið sem hún gekk í skóla í Los Angeles. Hún vildi tala eins og krakkarnir í skólanum hennar.
Hann sagði henni að tala með þessari skrítnu rödd og hún varð við því. „Ég ýkti hvernig stelpurnar í skólanum töluðu og ímyndaði mér bara um hvað þær hefðu talað ...“
Frank Zappa lét hana síðan hlusta á hráa upptöku af laginu og faðmaði hana að sér. „Þetta tók bara örskotsstund. Svo var ég komin aftur upp í rúm og óskaði mér að við hefðum getað haldið áfram að taka upp og faðmlagið hefði varað að eilífu.“
Seinna komst hún að því að faðir hennar hefði ekki viljað að hún yrði skrifuð fyrir laginu eða fengi höfundarréttargreiðslur.
Moon Unit var aðeins 14 ára þegar lagið Valley Girl kom út. Lagið fór í 32. sæti bandaríska vinsældalistans og reyndist eina lag hans, sem komst ofar en í 40. sæti hans; eini smellurinn á ferli listamannsins.
Lagið átti að vera háð um unglingamenninguna í San Fernando-dal, en varð til þess að vekja forvitni og breiða út orðfæri stelpnanna í dalnum.
Moon Unit er elst fjögurra barna Frank og Gail Zappa og lagið gerði hana heimsfræga.
Heimilið var annálað fyrir frjálsræði, en samkvæmt lýsingum í bókinni ríkti glundroði á heimilinu. Frank Zappa gerði það sem honum sýndist og lýsti því sjálfur í viðtali að hann hefði yndi af að sofa hjá. Þegar hann var spurður hvað konunni hans fyndist um það svaraði hann að hún hefði vanist því í áranna rás.
Hann svaf óspart hjá á tónleikaferðalögum. Þegar Moon Unit fer með honum á tónleikaferðalag vaknar hún um miðja nótt við að rúmgaflinn í herbergi föður hennar hinum megin við þilið rekst taktfast í vegginn.
Hjónabandið átti að heita opið, en kona hans var allt annað en sátt og virðist iðulega hafa látið reiði sína koma niður á börnunum og þá kannski helst Moon Unit vegna þess hvað hún er lík pabba sínum. Heiti bókarinnar, Earth to Moon, er tilvitnunin í móðurina. „Jörð kallar tungl,“ hrópaði hún á dóttur sína þegar henni fannst hún gleyma sér í eigin hugarheimi.
Systkinin handjárnuð
Í bókinni lýsir Moon Unit því að eitt sinn hafi hún farið í spjallþátt þegar hún var unglingur. Á einum stað í viðtalinu segir hún „skemmtisögu“ af því þegar mamma hennar handjárnaði hana við bróður sinn þegar þau voru smábörn og tók upp öskrin í þeim. Svo spilaði hún upptökuna fyrir þau og hrópaði „Hvernig finnst ykkur þetta?“ Í auglýsingahléi sneri spyrillinn sér að henni og sagði að þetta hljómaði eins og barnaníð og batt enda á viðtalið.
Frank Zappa var frægur fyrir flóknar lagasmíðar sínar og á tónleikaferðalögum voru þeir sem spiluðu í hljómsveit hans undir járnaga. Hann laðaði að sér hina færustu tónlistarmenn, en kom fram við þá eins og starfsmenn á plani. Æfingar voru tímafrekar, meira að segja meðan á tónleikaferðum stóð, og þeir þurftu að læra hátt í hundrað flókin lög í þaula. Svo hæddist hann að þeim og kallaði þá „spilandi apa“. Hann hafði mestu óbeit á ólöglegum lyfjum og hótaði hljóðfæraleikurunum brottrekstri gerðu þeir sig seka um neyslu.
Aginn var engu minni heima fyrir. Gail Zappa rak heimilið eins og herforingi og stýrði viðskiptunum af engu minni festu eftir að Frank Zappa setti sína eigin útgáfu á laggirnar.
Frank Zappa lést úr krabbameini árið 1993, aðeins 52 ára gamall.
Á ýmsu hefur gengið í fjölskyldunni síðan, sem ekki verður rakið hér. Sonurinn Dweezil, sem er næstelstur, hefur haft sitt lifibrauð af því að spila tónlist föður síns. Frank Zappa var mikil gítarkempa og Dweezil stendur honum ekki á sporði. Yngri systkinin eru Ahmet og Diva.
Gail lést 2015. Það var ekki fyrr en eftir lát hennar að börnin komust að því að Gail hafði breytt erfðaskránni, sem hún og Frank höfðu undirritað árið 1990 um að skipta dánarbúinu í fjóra jafna hluta milli barnanna. Þess í stað fengu Ahmet og Diva 30% hvort og Dweezil og Moon Unit aðeins 20% hvort. Þetta varð ekki til að bæta samskiptin í fjölskyldunni.
Bók Moon Unit virðist hins vegar ekki vera uppgjör skrifað í reiði og sút. „Earth to Moon er dásamleg bók, hlý, full af ást og skrifuð af fágætri list og hæfileikum,“ skrifar rýnir Mail on Sunday og gefur bókinni sín bestu meðmæli.