Magdalena Anna Torfadóttir
magdalena@mbl.is
Ísland hefur sett sér markmið í loftslagsmálum og stefnir að kolefnishlutleysi. Ríflega tvöfalda þarf græna orkuframleiðslu á Íslandi til þess að ljúka orkuskiptum að fullu og standa undir aukinni verðmætasköpun. Bæði atvinnulífið og stjórnvöld hafa sett fram aðgerðaáætlanir til þess að ná þeim markmiðum.
Þetta og fleira kemur fram í nýrri skýrslu Samtaka atvinnulífsins í tengslum við Ársfund atvinnulífsins: Orka er undirstaða hagsældar.
Sigríður Margrét Oddsdóttir,
framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að sterkt samhengi sé á milli orkunotkunar þjóða og hagsældar, eftir því sem orkunotkun eykst, eykst landsframleiðsla og lífskjör batna.
„Lífskjör á Íslandi eru góð og það endurspeglast í mikilli orkunotkun á Íslandi,“ segir hún og bætir við að atvinnulífið hafa tvíþætt markmið; bætt lífsgæði samhliða árangri í loftslagsmálum.
„Við þurfum að gefa í, í grænni orkuöflun, því er yfirgnæfandi meirihluti atvinnulífs og almennings sammála. Við þurfum að tímasetja markmið í loftslagsmálum rétt, svo þau séu raunhæf. Við þurfum að draga úr bönnum, sköttum og kvöðum en auka stuðning og samstarf.“
Í skýrslunni kemur fram að Ísland sé í fremstu röð þegar kemur að endurnýjanlegri orku og hafi náð eftirtektarverðum árangri þegar kemur að aftengingu orkunotkunar og kolefnislosunar. Ísland hefur tvívegis gengið í gegnum umbyltingu í orkunotkun. Jafnframt kemur fram að til þess að ná markmiðum um samdrátt í losun þurfi að þrefalda til fimmfalda hraðaaukningu í samdrætti losunar.
„Mörg tækifæri felast í þeirri grænu umbreytingu sem á sér stað á heimsvísu, við höfum tekið saman fimm straumhvörf sem munu hafa áhrif á verðmætasköpun í atvinnulífinu og fela í sér bæði tækifæri og áskoranir. Þau eru kolefnishlutleysi, hringrásarhagkerfið, líffræðileg fjölbreytni, sjálfbær tækni og svo grænþvottur. Hann er búinn að vera, fólk er komið með grænþreytu og það er búið að færa ábyrgðina þangað sem hún á heima, til stjórnvalda og atvinnulífsins. Umræða um orku- og loftslagsmál snýst í raun um framtíðarsýn og tækifæri, en með réttum ákvörðunum getum við náð umtalsverðum þjóðhagslegum ávinningi fyrir Ísland,“ segir Sigríður Margrét og bætir við að til að halda í samkeppnishæfni Íslands þurfi að fjárfesta í fjölbreyttri grænni, hagkvæmri orku.
Ríflegur meirihluti landsmanna er hlynntur aukinni orkuöflun að því er fram kemur í nýrri könnun Samtaka atvinnulífsins, sem kynnt var á ársfundi samtakanna.
Þórður Gunnarsson hagfræðingur stýrði pallborðsumræðum á fundinum. Hann segir í samtali við Morgunblaðið að hefðbundnar hagfræðikenningar geri ekki ráð fyrir orku sem mikilvægu inntaki hagvaxtar. „Staða alþjóðahagkerfisins um þessar mundir sýnir sérstaklega vel að orka er helsta undirstaða efnahagsumsvifa. Þær þjóðir sem ekki eiga úr nægri orku að moða eiga á brattann að sækja,“ segir hann.
Þórður lýsir því að stjórnvöld hafi sett upp ýmsar áætlanir og hvata til að ýta atvinnulífinu út í fjárfestingar sem snúa að því að auka vægi grænnar orku. Dæmi um slíkt sé
rafvæðing fiskimjölsverksmiðja. Þrátt fyrir háleit markmið hafi orkuskipti Íslands færst í vitlausa átt.
„Við erum komin í þá stöðu í dag að aukin orkuframleiðsla hefur hikstað verulega. Svo mikið að við erum farin að brenna olíu í auknum
mæli til að framleiða raforku. Merkilegt er að sjá að hagvöxtur í Bandaríkjunum hefur lítið hikstað þrátt fyrir háa vexti. Ástæðan er einkum sú að orkuframleiðsla þar stendur sterkum fótum og hefur aukist hratt síðastliðin 20 ár,“ segir Þórður. Ýmis lönd hafi tekið slæmar ákvarðanir á sviði orkumála og súpi nú seiðið af þeim. Til að mynda Þýskaland, sem gangi nú í gegnum hálfgerða af-iðnvæðingu vegna minnkandi orkuframleiðslu og þar með hækkandi orkuverðs.
Spurður um hvaða áherslur Ísland ætti að leggja á sviði orkumála segir Þórður að Íslendingar ættu að leggja aukna áherslu á nýtingu hefðbundinna orkukosta, einkum jarðhita.
„Þar liggur okkar sérsvið og þekking. Heimsbyggðin leitar í þekkingu okkar á jarðhitanýtingu. Ekki er hægt að segja það sama um vind- og sólarorku. Við eigum að keyra á styrkleikum okkar. Þar að auki er jarðhiti að öllu leyti betri orkukostur en bæði vind- og sólarorka. Hellisheiðin er til að mynda bara hálfnýtt núna. Þar liggja augljós tækifæri,“ segir Þórður.