Illinois Farþegaflugvél frá American Airlines á flugvellinum í Chicago. Flugstjóri hjá félaginu ræddi við WSJ.
Illinois Farþegaflugvél frá American Airlines á flugvellinum í Chicago. Flugstjóri hjá félaginu ræddi við WSJ. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Kristján Jónsson kris@mbl.is

Baksvið

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Truflanir í GPS-kerfi geta gert flugmönnum í farþegaflugi erfitt fyrir og mörg dæmi eru um slíkt þegar flogið er nærri stríðsátakasvæðum.

Hernaðartaktík á sér ýmsar birtingarmyndir. Árásir á flugleiðsögukerfi, GPS-kerfi, eru dæmi um það sem er notað í hernaði. Bandaríska blaðið The Wall Street Journal (WSJ) greinir frá því að flugmenn í farþegaflugi hafi fengið rangar upplýsingar úr GPS-kerfinu í miðju flugi jafnvel þótt árásirnar beinist ekki að farþegaflugvélunum sjálfum.

Rétt er að taka fram að ekki er víst að slíkar truflanir eigi við í flugi nærri Íslandi heldur virðist sem þær verði nærri stríðsátakasvæðum, eins og Úkraínu sem dæmi. Í umfjöllun WSJ kemur fram að fyrst hafi orðið vart við þessar árásir á GPS-kerfið á flugleiðum fyrir ári og er það haft eftir bæði flugmönnum og starfsmönnum í flugumferðarstjórn.

Frásögn flugstjóra

Blaðið ræðir við Dan Carey flugstjóra hjá flugfélaginu American Airlines sem segir frá tilfelli þegar hann var við stjórnvölinn í vél á flugi yfir Pakistan í mars. Vélin var í 32 þúsund feta hæð þegar kerfið sendi frá sér skilaboð um að rífa vélina upp. Carey segist hafa verið áhyggjufullur þar sem búnaður var greinilega ekki í lagi en hann hafi ekki beinlínis verið sleginn yfir atvikinu vegna þess að vélin var í mikilli hæð.

Þessi rafeindahernaður truflar hundruð flugmanna við störf á hverjum einasta degi að sögn blaðsins og skapar því hættu í háloftunum. Í hernaði er tilgangurinn væntanlega sá að gera drónum og flugskeytum erfiðara fyrir og meiningin er ekki að trufla farþegaflug. Stærstu atvikin hafa orðið nærri Rússlandi, Úkraínu og Ísrael að sögn Todds Humphreys prófessors hjá Texas-háskóla í Austin.

Atvikum fjölgaði geysilega

Núorðið reiða flugfélög sig mjög á GPS-kerfið og rangar upplýsingar valda því ýmsum flækjum fyrir flugmennina. Stundum gefur kerfið frá sér rangar upplýsingar í einhverjar mínútur en stundum alla leiðina.

Í skýrslum sem WSJ vísar í eru nokkur dæmi sem flugmenn lýsa. Klukkur stilla sig aftur til tímans í flugtaki, falskar viðvaranir eru gefnar og röng flugleið gefin upp. Í febrúar á þessu ári bárust fregnir af nokkrum tugum tilfella en þau voru um 1.100 í ágúst. Fjölgunin er því geysileg en þegar GPS-kerfið bilar er hægt að nýta önnur stýrikerfi til að flugvélin komist leiðar sinnar.

Flugmenn eru auk þess þjálfaðir í því að nota aðrar leiðir en GPS þegar á þarf að halda. Viðmælandi WSJ í eftirlitsiðnaðinum segist ekki þekkja dæmi um að farþegaflugvél hafi lent í stórhættu vegna þessara atvika. Vissulega hafi ruglingur á GPS-kerfinu þó valdið hnökrum.

Þegar flugið gangi eðlilega fyrir sig að öðru leyti þurfi vélin ekki að vera í hættu en viðmælandinn bendir á að ef vélin lendir í öðrum vandkvæðum á leiðinni sé hættulegt að flugmenn þurfi einnig að hafa áhyggjur af GPS-kerfinu.

Unnið að lausn vandans

Í umfjöllun blaðsins er jafnframt greint frá því að unnið sé að lausn vandans. Flugfélög, flugvélaframleiðendur og birgjar eru sagðir leggjast á árarnar með þeim sem starfa við flugöryggi til að komast megi í kringum þessar árásir á GPS-kerfið auk þess að velta fyrir sér langtímalausn til að verjast árásum.

Samkvæmt heimildum WSJ er ekki búist við stórtíðindum í þeim efnum fyrr en snemma á næsta ári. Þangað til fá flugmenn leiðsögn og fræðslu um hvernig best sé að bregðast við þegar árás brenglar GPS-kerfi. Fyrrnefndur prófessor Todd Humphrey segir stöðuna vera vandræðalega fyrir flugiðnaðinn og flugumferðarstjórn.