Viðtal
Ásgeir Ingvarsson
ai@mbl.is
Töluverð umræða hefur spunnist í kringum nýja skýrslu Marios Draghi, fyrrverandi seðlabankastjóra Evrópu, en þar gerir hann ítarlega greiningu á hnignandi framleiðni og versnandi samkeppnishæfni Evrópu. Í skýrslunni, sem kom út í byrjun mánaðarins, leggur Draghi meðal annars til að efla nýsköpun í álfunni með aukinni samevrópskri fjárfestingu og einnig að dregið verði úr reglufargani ESB.
Dr. Jón Helgi Egilsson, meðstofnandi og stjórnarformaður fjártæknifélagsins Monerium og fyrrverandi formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands, segir skýrsluna um margt athyglisverða en að þögn Draghi um þátt evrunnar í vandanum sé æpandi. Jón Helgi bendir á að skýrslan sýni viðsnúning og hnignun frá upptöku evru fyrir aldarfjórðungi en að sú staðreynd sé ekkert rædd: „Ekki er að finna orð um það á þessum 397 blaðsíðum. Það vita það allir að evran hentar mörgum aðildarríkjum ESB illa og það hefur áhrif á framleiðni þeirra og samkeppnishæfni. Af hverju má ekki ræða það ef markmiðið er að takast á við áratuga hlutfallslega hnignun í Evrópu?“
Jón Helgi bendir sérstaklega á línurit úr skýrslu Draghi sem sýni hvernig framleiðni vinnuafls í Evrópu, í samanburði við Bandaríkin, jókst stórlega á tímabilinu 1945 til 1995 og náði þegar best lét 95% af framleiðni Bandaríkjanna. „Greinilegur viðsnúningur varð á tímabilinu frá samþykkt Maastricht-sáttmálans árið 1992 og fram að upptöku evrunnar árið 1999 en síðan þá hefur framleiðni Evrópu verið á niðurleið í samanburði við Bandaríkin.“
Setur kíkinn fyrir blinda augað
Skýrsla Draghi bendir m.a. á að ein meginástæðan fyrir því að hagkerfi Evrópu hafi dregið lappirnar sé að atvinnulífið í álfunni hafi farið seint af stað við að nýta möguleika internetsins og eins að fjármögnunarumhverfi evrópskra nýsköpunarfyrirtækja sé ábótavant. „Skýrslan sýnir að opinber fjárlög til nýsköpunar eru meiri í Evrópu en Bandaríkjunum en að evrópskir vísisjóðir eru langt á eftir vísisjóðum vestanhafs. Til að bæta úr þessu biður Draghi um 800 milljarða evra framlag sem yrði sameiginleg ríkisútgjöld ESB-ríkjanna til nýsköpunar, sem gagnrýnendur hafa bent á að sé helst hugsað til að færa ESB skrefi nær því að setja á sameiginleg fjárlög og sameiginlega skatta.“
Jón Helgi segir evruna vissulega bara einn af fleiri þáttum sem valdi hægum vexti evrópska hagkerfisins. Í umræðunni sem spunnist hefur um skýrslu Draghi hefur m.a. verið bent á að breytingar á aldurssamsetningu evrópsks vinnuafls og afslöppuð vinnumenning í Evrópu kunni að skýra rólegri hagvöxt í álfunni, og eins geri mikill uppgangur bandaríska tæknigeirans allan samanburð óhagfelldan.
Að mati Jóns Helga má samt ekki hunsa áhrif evrunnar. „Vissulega eru fleiri þættir en gengi gjaldmiðila sem hafa áhrif á samkeppnishæfni og framleiðni, en er þessi skýri viðsnúningur tilviljun? Sameiginlegur gjaldmiðill er, eðli máls samkvæmt, ekki fær um að endurspegla efnahagslegan veruleika einstakra aðildarríkja. Lönd eins og Grikkland, Ítalía og Spánn, sem áður höfðu eigin gjaldmiðla sem löguðu sig að þeirra efnahagslega raunveruleika, gátu áður endurheimt samkeppnishæfni sína í kjölfar efnahagsáfalla og breytinga. Þessi lönd misstu þennan sveigjanleika við upptöku evrunnar,“ segir hann. „Þetta varð sérstaklega áberandi eftir fjármálakreppuna 2008, þegar þessi lönd stóðu frammi fyrir gríðarlegum efnahagsáföllum án möguleika á aðlögun nema í gegnum vinnumarkaðinn með tilheyrandi langvarandi atvinnuleysi og þeim hörmungum sem slíku fylgir, auk brottflutnings vel menntaðs og hreyfanlegs vinnuafls til annarra landa innan og utan Evrópu, sem enn sér ekki fyrir endann á.“
Þykir Jóni Helga löngu tímabært að skoða hlut evrunnar í mikilli hnignun efnahagslífs Evrópu og endurskoða kröfuna um að aðildarríki verði að nota evru. „Af hverju að undanskilja heiðarlega greiningu á þætti evrunnar í hnignun í framleiðni og samkeppnishæfni Evrópu og láta sem sameiginlegur gjaldmiðill skipti ekki máli? Hann skiptir heldur betur máli,“ segir Jón Helgi og bætir við að það að forðast þessa umræðu, eins og Draghi geri í sinni skýrslu, sé að setja kíkinn fyrir blinda augað:
„Í áratugi hafa fremstu hagfræðingar heims varað við evrunni og það vita allir sem vilja vita að evran er pólitísk ákvörðun; pólitísk draumsýn en ekki hagfræði. Martin Feldstein, fyrrverandi prófessor við Harvard, varaði snemma við því að evran myndi skapa efnahagsleg vandamál fyrir Evrópu og draga úr getu aðildarríkja til að bregðast við áföllum og að það myndi hafa alvarleg efnahagsleg áhrif í för með sér,“ segir Jón Helgi. „Paul Krugman, nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, hefur einnig ítrekað bent á ókostina við evruna og kallað hana vandamál Evrópusambandsins. Joseph Stiglitz, einnig nóbelsverðlaunahafi, hefur gagnrýnt evruna fyrir að skapa „hættu á efnahagslegri sundrungu“ þar sem efnahagslegur mismunur milli aðildarríkja verður meiri vegna sameiginlegs gjaldmiðils. Þannig má lengi telja og vitna í virta hagfræðinga sem hafa varað við evrunni.“
Efnahagsleg byrði sem elur á sundrungu
En hvað með það markmið ESB að fjarlægja hindranir í viðskiptum á milli ríkja Evrópu og stuðla þannig að hagsæld og friðsemd? Myndi það ekki flækja málin að kasta evrunni fyrir róða? „Það ætti að vera óumdeilt að friður, aukin samvinna og viðskipti innan Evrópu eru æskileg markmið. En þegar pólitíska verkfærið leiðir til efnahagslegs samdráttar Evrópu, fólksflótta, misskiptingar og hnignunar í áratugi, þá ættu fylgjendur evru kannski að staldra við. Evran, sem fyrst og síðast var hugsuð sem pólitískt verkfæri og sem tilraun til að hraða samruna innan Evrópu, hefur orðið að efnahagslegri byrði sem færa má rök fyrir að ali á sundrungu innan Evrópu og búi til gjá á milli Evrópu og annarra hagkerfa, svo sem Bandaríkjanna,“ segir Jón Helgi. „Það er ekkert sem segir að efnahagsleg samvinna þurfi sameiginlegan gjaldmiðil. NAFTA – fríverslunarsamkomulag Bandaríkjanna, Kanada og Mexíkó – er dæmi um samvinnu á grundvelli viðskiptafrelsis, án þess að ríki afsali sér efnahagslegu sjálfstæði sínu með því að taka upp sameiginlegan gjaldmiðil.“
Ekki gallalaus
Virtir hagfræðingar hafa varað við að evran gæti valdið vandamálum.
Náin efnahagsleg samvinna getur farið fram án þess að ríki afsali sér efnahagslegu sjálfstæði.
Lönd sem ekki hafa eigin gjaldmiðil bregðast einkum
við áföllum í gegnum vinnumarkaðinn.