Þóra Kristjánsdóttir fæddist 23. janúar 1939 í Reykjavík. Hún lést 22. september 2024.

Foreldrar Þóru: Kristján G. Gíslason stórkaupmaður og Ingunn Jónsdóttir húsfreyja. Bræður: Garðar Gíslason hæstaréttardómari og Jón Kristjánsson stórkaupmaður. Börn Garðars eru Maríanna læknir og Kristján arkitekt. Börn Jóns eru Ingunn tónlistarkennari og Anna Helga stærðfræðingur.

Maki Þóru: Sveinn Einarsson leikstjóri, leikhússtjóri, og rithöfundur. Barn þeirra: Ásta Kristjana Sveinsdóttir, heimspekingur, gift Dore Elisa Bowen Solomon, listfræðingi, og eiga þær Þóru Djunu Ástudóttur Solomon.

Þóra gekk í Ísaksskóla, Melaskóla, Kvennaskólann í Reykjavík, Menntaskólann á Akureyri og varð stúdent frá MR 1959. Hún stundaði nám í listasögu í Uppsölum frá 1959-1961 og eftir það við Stokkhólmsháskóla. Las þar auk listasögu m.a. mannfræði og leikhúsfræði og lauk fil.cand.-prófi 1966. Lauk MA-prófi frá Háskóla Íslands árið 2003 með áherslu á listsagnfræði.

Á námsárum sínum 1965-67 vann hún á Listasafni Íslands, var fréttamaður á fréttastofu RÚV 1968-1974 og annaðist listræna starfsemi í Norræna húsinu frá 1974-80. Var í nokkur ár listráðunautur Kjarvalsstaða og stóð þar fyrir mörgum merkum sýningum, m.a. fyrstu sýningu á verkum Thorvaldsens utan Danmerkur.

Síðar var Þóra fyrst listfræðinga ráðin til Þjóðminjasafnsins. Þar lagðist hún í rannsóknir og beindi sjónum sínum einkum að list fyrri alda. Afrakstur þess var tímamótaritið Mynd á þili.

Þóra ritaði fjölda greina um íslenska myndlist í bækur, blöð og tímarit og vann ótal útvarpsþætti. Hún sat í framkvæmdastjórn Listahátiðar í Reykjavík og stjórn margra lista- og menningarstofnana hér á landi. Þá starfaði hún mikið fyrir Listvinafélag Hallgrímskirkju, m.a. sem formaður í nærfellt áratug og var gerð að fyrsta heiðursfélaga þar 2009.

Árið var 2020 var hún útnefnd fyrsti heiðursfélagi Listfræðafélags Íslands. Hún hlaut fálkaorðuna árið 2006 og málþing var haldið til heiðurs henni í janúar 2021 á vegum Listfræðafélagsins og Þjóðminjasafns Íslands.

Útför hennar fer fram frá Dómkirkjunni í dag, 30. september 2024, klukkan 15.

Þegar þau voru krakkar var Þóra dugleg að tuska bræður sína til. Þótti foreldrunum nokkuð til koma og töldu hana gott efni í skólastjóra þegar fram í sækti. Brátt var Þóra orðin skátaforingi og farin að tuska til heilu skátaflokkana. Nýttist skipulagshæfni hennar vel í skátastarfinu og útilegur og ævintýri margs konar. Ævintýrin stækkuðu og ferðirnar lengdust á langri ævi; minnist ég margra ferðasagna Þóru af framandi slóðum vítt og breitt um heiminn, hún var forvitin og sótti í að kynnast ólíkum menningarheimum.

Ætli áhuginn á listasögu hafi ekki verið þannig hvort tveggja áunninn og henni í blóð borinn; Muggur ömmubróðir hennar hefði sennilega sagt að hún hafi haft neistann. Neistann til að skapa sér og sínum stórbrotið umhverfi hvar sem hún var, það var allaf fallegt í kringum Þóru – hvernig hún valdi hluti og listaverk og setti saman.

Gjafir Þóru voru alltaf úthugsaðar, ekkert valið af handahófi. Og innihaldið fékk meira vægi í margendurnýttum pappír og slaufum, það var eitthvað myndarlegt við hvernig hún bjó um alla hluti þótt þreyttir væru. Og svo heyrði ég líka ungur fyrst hjá henni hugtakið „þykkt málað“, sennilega erfði hún verklagni frá pabba sínum.

Þóra var stór í sniðum og tilfinningarík og skiptist stundum fljótt á grátur og hlátur og maður hvað hláturinn var hvell og innilegur og brosið stórt. Þegar við frændsystkinin vorum ung bárum við óttablandna virðingu fyrir töntu – á jákvæðan hátt. Hún sýndi okkur áhuga og við fundum hve henni þótti mikilvægt að miðla sögu forfeðra og formæðra til okkar og komandi kynslóða. Hún passaði upp á að saga aldagamalla ættargripa yrði varðveitt á hennar vakt, þar mættust í henni djúpstæð ættrækni, listfræðingurinn og safnakonan.

Svo kom að því að Þóra eignaðist nöfnu, dótturdóttur, og þá var hringnum hennar lokað og nýir kaflar í hennar sögu að fæðast, hún var sátt á sínu ævikvöldi. Blessuð sé minning Þóru frænku.

Kristján Garðarsson.

Það var sífellt stúss á mömmu. Hún var lengst af í erilsömu starfi á Morgunblaðinu og í tuttugu ár stjórnaði hún Félagi einstæðra foreldra eins og herforingi. Seinna gerðist hún ferðagarpur og rak litla ferðaskrifstofu og safnaði peningum svo stúlkur í Mið-Austurlöndum gætu lært að lesa, og er þá ekki nærri allt upptalið.

Hún þekkti því mikinn manngrúa og átti þó nokkra aðskilda kunningjahópa og nána vini á ólíkum stöðum og var alls staðar eins og fiskur í vatni.

Við börnin hennar vissum samt alla tíð hvar henni þótti í rauninni best að vera.

Það var með Hildi og Þóru.

Þær urðu vinkonur nýorðnir táningar í Kvennaskólanum gamla og hittust svo reglulega næstu 60 árin og rúmlega það. Við vissum að af öllum vinum mömmu höfðu þær Hildur og Þóra sérstöðu og í engum selskap var hún sannari, einlægari og hispurslausari. Enda var alltaf gaman þegar maður fékk að hitta þær allar þrjár. Þótt áratugum fjölgaði á almanakinu voru þær samt bara alltaf sömu kvennaskólastelpurnar, skynugar og kátar.

Nú er Þóra horfin á braut, rétt eins og mamma. Hún var einstaklega góð og skemmtileg manneskja eins og ég kynntist henni, kurteis og fáguð svo að af bar en líka kankvís og fyndin á svo fallegan hátt. Það var einhvern veginn allt svo fallegt við hana Þóru, heimsborgarabragurinn jafnt og djúp áhugasemin sem hún sýndi stóru sem smáu. Ég vissi að mömmu þótti vænna um fáa en hana Þóru og það var líka svo auðvelt að skilja.

Ég votta Sveini, Ástu Kristjönu, litlu nöfnu Þóru og öðrum ástvinum hennar innilega samúð mína og minna, og þakka henni innilega alla vináttuna við hana mömmu.

Illugi Jökulsson.

Á kveðjustund er hjarta okkar fullt þakklætis fyrir að hafa átt slíka mannkostakonu og öðling eins og elsku Þóru sem vinkonu og okkar nánasta samstarfsfélaga á sviði listarinnar í Hallgrímskirkju um langt árabil.

Upp í hugann koma ótal dýrmætar minningar frá öllum glæsilegu viðburðunum sem fram fóru á vegum Listvinafélags Hallgrímskirkju þar sem Þóra sat í stjórn og var formaður um 10 ára skeið og eru þær minningar allar bjartar og umvafðar gleði og hamingju. Þóra var einnig formaður stjórnar Kirkjulistahátíðar sem haldin var annað hvert ár og hafði mikinn metnað fyrir hönd félagsins og studdi Hörð kantor og listrænan stjórnanda 100% varðandi hugmyndir hans og listræna sýn.

Þóra var mjög víðsýn og vel að sér á öllum sviðum listanna og vönduð í öllum vinnubrögðum sinum og var það okkar mikla gæfa og gleði að hún skyldi heillast af því listastarfi sem Listvinafélagið stóð fyrir í Hallgrímskirkju og vera tilbúin að gefa því svo mikið af fagþekkingu sinni, reynslu, stórhug og hugmyndaauðgi.

Við sjáum hana fyrir okkur káta og brosandi að taka á móti gestum og opna metnaðarfullar listsýningar og bjóða upp á listrænt frambornar veitingar í suðursalnum í messukaffinu þegar sýningarnar voru opnaðar við messulok í Hallgrímskirkju. Með fagþekkingu sinni og mikla sjarma tókst henni að fá landslið íslenskra myndlistarmanna til að sýna í kirkjunni í samvinnu við aðra myndlistarfulltrúa stjórnarinnar. Við sjáum þau Svein fyrir okkur með sína töfrandi útgeislun í kirkjuskipinu á óteljandi tónleikum og viðburðum sem þau sóttu á vegum Listvinafélagsins og Kirkjulistahátíðar, þ.e. nærvera þeirra var okkur einstaklega dýrmæt en þau voru einlægir stuðningsmenn okkar Harðar, Mótettukórsins og Schola cantorum alla tíð. Við minnumst hennar á öllum stjórnarfundunum þar sem hún gaf svo fallega af sér með hlýju sinni, ljúfmennsku og gáfum.

Við minnumst hennar eins og drottningar á fallega listræna heimilinu þeirra við Tjarnargötu, þar sem við nutum gestrisni þeirra hjóna svo oft bæði persónulega og í hópi listamanna og vina úr stjórn Listvinafélagsins og Kirkjulistahátíðar.

Upp í hugann koma líka myndir af henni geislandi með Sveini á fjölmörgum menningarviðburðum í Reykjavík, á listsýningum, leikhúsi, óperusýningum og ekki síst á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Kammersveitar Reykjavíkur þar sem ég kom fram sem sellóleikari og alltaf var svo ánægjulegt að vita af þeim í hópi áheyrenda.

Við kveðjum elsku Þóru með þessum fallega reisusálmi Hallgríms Péturssonar, sem Mótettukórinn og Schola cantorum sungu svo oft undir stjórn Harðar að Þóru viðstaddri.

Ég byrja reisu mín,

Jesú í nafni þín,

höndin þín helg mig leiði,

úr hættu allri greiði.

Jesús mér fylgi' í friði

með fögru englaliði.

(HP)

Í þakklæti fyrir allt sem hún gaf okkur og var okkur. Minningin um einstaka konu lifir.

Guð blessi minningu elsku Þóru og ástvini hennar alla.

Inga Rós Ingólfsdóttir og Hörður Áskelsson.

Góður vinur hefur kvatt. Óteljandi samverustundir í gegnum áratugina koma upp í hugann, samvistir hér heima og erlendis, Þóra með Sveini og án Sveins. En oftast með Sveini og stundum líka Ástu dóttur þeirra. Við minnumst Þóru fyrst þegar Sveinn var leikhússtjóri Leikfélags Reykjavíkur og skólastjóri Leiklistarskóla LR, þá birtist þessi glæsilega stúlka með honum, litlu eldri en nemendurnir. Vináttan er löng og böndin sterk. Þau Sveinn og Þóra mættu á allar leiksýningar, við hittum þau erlendis, þau komu líka í heimsókn í sumarbústaðinn og svo skiptumst við á skemmtilegum matarboðum með góðu fólki og góðum mat. Þóra var einstakur fagurkeri og alltaf gaman að spjalla við hana um allt milli himins og jarðar. Og ekki síst um leikhús. Hún hafði ákveðnar skoðanir, hláturmild og áhugasöm, með einstaka innsýn í listir og menningu. Störf hennar í gegnum áratugina geta aðrir rakið betur, en sannarlega færði hún samfélaginu einstaka innsýn í listasögu, ekki síst hvað varðar kirkjulist.

Árin í Tjarnargötunni tóku enda fyrir nokkru, Þóra veiktist og hefur síðustu árin dvalist á heilsustofnun og Sveinn flutti í íbúð hinum megin við götuna. Umhyggja hans var einstök, en því miður urðu samvistirnar við Þóru ekki miklar upp á síðkastið. Þannig er með suma sjúkdóma, þeir færa fólk í burtu frá vinum og ástvinum löngu áður en tímabært getur talist. Við kveðjum góðan og tryggan vin, einstaka manneskju sem færði samfélagi sínu umtalsverða innsýn og þekkingu í störfum sínum. Sveini, Ástu og öðrum ástvinum færum við innilegar samúðarkveðjur með þakklæti fyrir öll árin.

Stefán og Þórunn.

Þegar orðin voru ekki lengur tiltæk komu myndirnar sér vel. Undir lokin skoðuðum við albúmin aftur og aftur og rifjuðum upp góða og glaða daga.

Mynd af Þóru í Stokkhólmi í pels og á blæjubíl.

Myndir af veislum hjá Þóru og Sveini á Fjölnisvegi og í Tjarnargötu. Þá var himininn heiður og blár og sól skein sunnan. Ómur að utan af þrastasöng og andagaggi.

Myndir úr ferðalögum með vinahópnum austur í Fell til að klæða landið skógi.

Myndir af óskabarninu, Ástu Kristjönu, með stoltum foreldrum og svo konunni hennar, Dore, og dóttur þeirra, Þóru Djunu.

Mynd af Þóru með meistaraverkið hennar, Mynd á þili.

En sumar myndir vantar og sumar voru aldrei teknar.

Til dæmis af Þóru í heimsókn hjá okkur í Einarsnesinu sem teygðist stundum svo úr að Sveinn var búinn að hringja nokkrum sinnum til að benda á að minna mætti gagn gera.

Löngu símtölin, löngu samræðurnar … Þær þykir okkur vænst um.

Með þakklæti fyrir allt hið liðna vottum við ástvinum hennar einlæga samúð.

Hólmfríður og Haraldur.

Með fáum orðum kveð ég kæra samstarfskonu Þóru Kristjánsdóttur listfræðing. Ég man fyrst eftir Þóru sem litríkri safnakonu, listráðunaut og sérfræðingi í íslenskri myndlistarsögu. Síðar kynntist ég henni vel er ég tók við embætti þjóðminjavarðar og við urðum samstarfskonur á umbreytingatíma Þjóðminjasafns Íslands í upphafi nýrrar aldar. Þóra var fagmanneskja fram í fingurgóma. Fræðilegt framlag hennar og listræn sýn var mikilsverð við mótun og enduropnun Þjóðminjasafns Íslands árið 2004. Fáum hef ég kynnst með viðlíka eldmóð fyrir sínum hugðarefnum. Hún miðlaði sinni þekkingu með fræðilegum skrifum, í sýningum og miðlun hvers konar, en ekki síður í daglegu starfi og samtölum við samstarfsfólk. Þóra var tilfinningarík og hlý manneskja, góður vinur. Ósjaldan áttum við stund þar sem við ræddum lífið og tilveruna, fræðin og listræna fegurð almennt.

Þóra ritaði fræðilegar greinar sem birtust víða, m.a. í ritröðinni Kirkjur Íslands og sýningarritum. Bók hennar, Mynd á þili. Íslenskir myndlistarmenn á 16., 17. og 18. öld, sem kom út árið 2005 er meðal grundvallarrita íslenskrar menningarsögu. Samnefnd sýning var opnuð í tilefni útgáfu bókarinnar í Bogasal Þjóðminjasafns árið 2005 sem vakti athygli á menningarsögulegum fjársjóði þjóðarinnar. Þóra auðgaði fræðasvið sitt með nýrri þekkingu og skilningi sem breytti sýn okkar á listasöguna.

Þóru Kristjánsdóttur var annt um menningararf þjóðarinnar og listrænt gildi hans. Í tilefni 150 ára afmælis Þjóðminjasafns Íslands 2013 færði hún Þjóðminjasafni Íslands að gjöf merkan kaleik og patínu frá Myrká sem smíðaður var á 18. öld. Fleira mætti nefna sem var til marks um velvilja hennar og hlýhug í garð höfuðsafnsins ekki síður en fræðilegan árangur. Hún var sæmd Hinni íslensku fálkaorðu árið 2006 fyrir ómetanlegt framlag til hins listræna menningararfs. Í þakklætisskyni fyrir hennar merka starf stóðu Þjóðminjasafn Íslands og Listfræðifélag Íslands árið 2021 fyrir málþingi til heiðurs Þóru.

Það hefur verið heiður að kynnast þeim heiðurshjónum Þóru Kristjánsdóttur og Sveini Einarssyni, dóttur þeirra Ástu, Dore og Þóru yngri, augasteini þeirra allra. Man ég vel þegar Þóra sýndi mér tárvot mynd af nýfæddri nöfnu sinni. Nú kveður Sveinn sína kæru eiginkonu fáum dögum eftir að við samglöddumst honum níræðum. Það var einstakt að fylgjast með þeirra hlýja sambandi og ekki síst á liðnum árum þegar Sveinn hlúði að Þóru í veikindunum af einstakri reisn, hlýju og alúð.

Þóra var einstök manneskja sem ég þakklát fyrir að hafa kynnst. Ég votta hennar ástkæru fjölskyldu mína innilegustu samúð. Heiðruð sé minning Þóru Kristjánsdóttur listfræðings.

Með vinarkveðju,

Margrét Hallgrímsdóttir, fyrrverandi þjóðminjavörður.

Samstarfskona í Þjóðminjasafni Íslands er gengin.Við leiðarlok verða hér dregnar upp fáeinar myndir úr ríflega þriggja áratuga samfylgd árin 1987 til 2010.

Fyrstu minningar mínar um Þóru eru tengdar þýðri rödd hennar í útvarpi allra landsmanna kringum 1970.

Fyrstu beinu samskipti okkar voru þegar Þóra, listráðunautur Kjarvalsstaða, gerði skrá um verk meistara Kjarvals. Þá var eins gott að standa pliktina og drífa fram myndverk Kjarvals úr fylgsnum Þjóðminjasafns. Árið 1987 bættist Þóra í starfsmannahópinn í safninu. Hún skyldi taka til við að skoða kirkjulist. Á þeim tíma lék safnmaðurinn mörgum skjöldum og Þóra tók virkan þátt í daglegum störfum safnsins hver sem þau voru.

Í tiltekt í safninu rákumst við á altarismynd frá síðari hluta 16. aldar með skornum og máluðum myndum. Þóra varð frá sér numin og linnti ekki látum fyrr en henni hafði tekist að slá hring um aðgengilegar upplýsingar. Síðar átti hún eftir að bæta enn frekar í púsluspilið um töfluna og má lesa það í bók Þóru Mynd á þili frá 2005. Skerfur hennar til íslenskrar kirkjulistasögu er stór. Í því verki reis ferill hennar hæst með sýningu í Bogasal og samnefndri bók en í gögnum hennar í skjalasafni Þjóðminjasafns er meiri fróðleik að finna sem ekki rúmaðist í bókinni.

Í aðdraganda útgáfu ritraðarinnar Kirkjur Íslands vann Þóra skýrslu um hvernig fjallað yrði um kirkjugripina í bókunum.

Þóra var viljug til verka og naut þess að taka til hendinni og skulu hér nefnd þrjú mikilvæg sérsýningarverkefni sem hún átti ríkan þátt í að urðu að veruleika. Það var vinnsla sýningarinnar Víkingar í Jórvík og vesturvegi 1989 sem var unnin í samstarfi Norræna hússins, Jórvíkursafns og Þjóðminjasafns. Sýningin var í tveimur hlutum, í Norræna húsinu og Bogasal. Fræðimenn komu frá útlöndum og héldu fyrirlestra um sýningarefnið. Úr þessu varð hin mesta hátíð.

Í aðdraganda hátíðahalda vegna 50 ára afmælis lýðveldisins árið 1994 efndu Þjóðminjasafn og Þjóðskjalasafn til samstarfs um gerð sýningar sem fundinn var staður fyrir í Morgunblaðshúsinu við Aðalstræti. Ávinningur varð af víðtæku samstarfi systrastofnanna og í því verki var þáttur Þóru mikilvægur.

Árið 1994 sýndu Norðmenn okkur rausnarskap með því að stofna digran sjóð til þess að efla og styrkja menningarsamstarf landanna. Úr varð sýning og rit undir heitinu Kirkja og kirkjuskrúð. Verkefnið var niðurstaða frjórra samtala og samskipta sem Þóra auðgaði. Sýningin var haldin í Þjóðminjasafninu og þremur norskum borgum.

Þá eru ótalin hugarflug með henni við undirbúning grunnsýningarinnar Þjóð verður til þar sem fjöldi fólks lagði hönd á plóg.

Þóra var virk í safnmannafélögunum og lagði ætíð rækt við að tengjast starfsfólki safna heima og heiman.

Hún var áhugasöm, ástríðufull, fróðleiksfús, styðjandi, hvetjandi, gestrisinn höfðingi með síkvikan áhuga á málefnum liðinna alda og samtímans. Hún naut sín vel í leiðsögnum um sýningar og við fyrirlestrahald. Henni lét vel að fræða fólk um viðfangsefni sín sem er aðalsmerki góðs safnmanns.

Vertu kært kvödd.

Lilja.

Það þykir alltaf dálítið hallærislegt að minnast látinna kvenna þannig að þær hafi búið manni sínum gott heimili. En ég verð að viðurkenna að það fyrsta mér mér kom í hug þegar ég settist við tölvuna var heimili Sveins og Þóru, ævintýraheimur, hlýja, listaverk, bækur, gamlir munir í bland við nýja. Þannig fengu listrænar gáfur húsráðenda skemmtilega útrás.

En margra ára vináttutengsl okkar Þóru hófust þegar hún kom að norðan, settist í fimmta bekk, sogaðist inn í Herranótt, sem sló í gegn þetta árið með Vængstýfðum englum. Sýningin gekk svo vel að hún greiddi upp gamlar skuldir og gerði leikfélaginu kleift að setja upp Shakespeare næsta ár. Í Englunum var hún unga saklausa stúlkan, sem Sveinn þáverandi leiklistargagnrýnandi fór um fögrum orðum.

En síðan tók við saumaklúbburinn, sem með árunum breyttist í „áríðandi fund“ og var haldinn nánast vikulega í hádeginu á einhverjum matsölustað. Fastir fundarmenn: ég, Jóhanna Kristjóns og Þóra. Ósjaldan komu aðrir gestir, fundirnir alltaf skemmtilegir og málin brotin til mergjar.

Þessum kafla er lokið, eins og svo mörgum, ég þakka fyrir góðar minningar og vináttu við elskulegt fólk.

Hildur Bjarnadóttir.

Listfræðingurinn Þóra Kristjánsdóttir kom víða við á langri og merkri starfsævi. Við urðum kunnugar á því árabili sem eiginmaður hennar Sveinn Einarsson var þjóðleikhússtjóri. Hún sá flestar sýningar Þjóðleikhússins og hitti starfsfólk þess og leikara. Ég var ein í þeim hópi. Og á þessum tíma þreytti ég frumraun mína sem leikskáld. Löngu síðar tók Þóra upp símann og hringdi í undirritaða sem þá var stödd úti á landi að setja upp leiksýningu með áhugafólki. Þóra var um þær mundir formaður í Listvinafélagi Hallgrímskirkju og erindið var að fá mig til að skrifa og setja upp nýtt leikrit um Guðríði Símonardóttur, eiginkonu Hallgríms Péturssonar, sem sýna skyldi í kirkjunni á Kirkjulistahátíð vorið 1995. Eftir stutta umhugsun ákvað ég að taka þessari áskorun. Á sköpunartímanum naut ég bæði trausts og góðrar ráðgjafar Þóru, sem vissi ekki, frekar en ég sjálf, hvaða ferli hún hafði þarna hrint af stað. Hvorug okkar sá fyrir að símtalið haustið 1994 myndi valda straumhvörfum í lífi mínu og vekja óslökkvandi áhuga á sögu umræddra hjóna frá 17. öld.

Árið 2005 kom út bók Þóru Kristjánsdóttur Mynd á þili. Íslenskir myndlistarmenn á 16., 17. og 18. öld. Hún hafði fyrst listfræðinga verið ráðin til Þjóðminjasafnsins og þá hafið sínar mikilvægu rannsóknir á listum fyrri alda. Þjóðminjasafnið geymdi fjölda listmuna án þess vitað væri með vissu hverjir væru höfundar þeirra og það varð ástríða og verkefni Þóru að grafa upp og bera saman heimildir í þeim tilgangi að rekja verkin til líklegra höfunda. Í leiðinni segir hún hluta kirkjusögunnar þar sem kirkjan var eina stofnunin á Íslandi sem hafði bolmagn til að ráða listamenn í þjónustu sína um lengri eða skemmri tíma.

Þegar Mynd á þili kom út var ég enn á kafi í verkefninu sem Þóra hafði att mér út í áratug fyrr. Leikritið Heimur Guðríðar, sem ég skrifaði fyrir Hallgrímskirkju að hennar beiðni, hafði spurst þannig út að ég og leikhópurinn ferðuðumst með það milli kirkna um árabil. Ég hafði næst skrifað stóra skáldsögu, Reisubók Guðríðar Símonardóttur, en þarna var ég að fást við Hallgrím Pétursson sem barn og ungling, uppvaxtarsögu verðandi skálds norður í Skagafirði. Sum listaverkin sem Þóra lýsti í Mynd á þili hafði þessi strákur haft fyrir augunum árin sín á Hólum í Hjaltadal. Hann hafði jafnvel haft persónuleg kynni af einhverjum listamannanna. Guðbrandur Þorláksson biskup, frændi Hallgríms, skipti þar sköpum, ýmist sem útskurðarmeistari og bókahönnuður eða vörslumaður helgigripa frá tíma Jóns Arasonar. Að auki helsta fyrirsæta landsins, því enginn Íslendingur á 17. öld var málaður jafn oft og Guðbrandur. Þjóðminjasafnið mun eiga af honum sjö eða átta myndir.

Mynd á þili eftir Þóru Kristjánsdóttur varð mér bæði innblástur og uppfræðslurit við vinnslu bókarinnar um Hallgrím, Heimanfylgju. Snertingin við myndlistina í kirkjunni og bókunum á Hólum fylgdi honum ævina á enda.

Ég kveð Þóru Kristjánsdóttur með virðingu og djúpu þakklæti og votta Sveini, afkomendum þeirra og ættmennum einlæga samúð mína.

Steinunn Jóhannesdóttir.

Þóra Kristjánsdóttir listfræðingur gegndi þýðingarmiklu hlutverki í Hallgrímskirkju eins og hún gerði á mörgum öðrum sviðum. Hún var í stjórn Listvinafélags Hallgrímskirkju og var formaður þess í hartnær áratug. Árið 1995 var Listasafn Hallgrímskirkju stofnað og var hún kjörin fyrsti stjórnarformaður þess. Verkefni þess var að skrásetja listaverk kirkjunnar, huga að ástandi þeirra og móta framtíðarstefnu.

Þóra hafði frumkvæði að mörgum listviðburðum sem urðu að veruleika í kirkjunni og allt sem hún snerti á einkenndist af því hve vandað og vel unnið það var. Kunnátta hennar á sviði kirkjulista og kirkjugripa kom sér vel og var vel metin í samstarfi við meðal annars Hörð Áskelsson, organista og kantor, og séra Karl Sigurbjörnsson, sem báðir voru einstakir fagurkerar og kirkjulistamenn.

Hin glæsilega bók hennar, Mynd á þili, sem út kom 2005 hjá JPV forlagi í samvinnu við Þjóðminjasafnið, átti sinn þátt í vakningu fyrir gildi muna og myndlistar í kirkjum landsins og gildi safneignarinnar á þessu sviði. Tilgangur Þóru var ekki síst að leiða fram á sjónarsviðið listamenn sem störfuðu á Íslandi frá siðaskiptum fram að lokum 18. aldar og gera þá að almenningseign. Hún dró fram auðlegð í kirkjulistmunum þjóðarinnar frá þessum tíma og gerði það á tímafrekan en spennandi hátt með því að leita uppi listafólkið sem málaði þá eða skar út. Hún færði okkur ekki aðeins vitneskju um fagra muni heldur gaf okkur vissu um nöfn á listamönnum fyrri alda.

Hallgrímskirkja þakkar óeigingjarnt starf Þóru Kristjánsdóttur í þágu kirkju og þjóðar.

Irma Sjöfn Óskarsdóttir sóknarprestur og
Einar Karl Haraldsson, formaður sóknarnefndar.

Æviverk Þóru Kristjánsdóttur listfræðings er stórt og framlag hennar með starfi sínu, rannsóknum, greinarskrifum og bókinni Mynd á þili er ómetanlegt fyrir list og menningu þjóðarinnar.

En auk starfa sinna var Þóra ötul liðskona þeirra sem vinna að menningarmálum án endurgjalds. Þóra var dyggur félagi í Listvinafélaginu sem starfaði í Hallgrímskirkju á árunum 1982-2021, og veitti félaginu forstöðu í tæpan áratug. Hún vann sérstaklega að myndlistarstarfi Listvinafélagsins og kom á tengingu við glæsilega og áhugaverða myndlistarmenn sem sýndu verk sín í kirkjunni. Þóra skipulagði af sinni einstöku fagmennsku fjölmargar myndlistarsýningar sem haldnar voru á Kirkjulistahátíð annað hvert ár, og hún lét sér annt um allt starf félagsins svo lengi sem heilsa hennar leyfði.

Þóra var gerð að heiðursfélaga Listvinafélagsins árið 2009 og varð næst á eftir Vigdísi Finnbogadóttur til þess að hljóta þann heiður. Þóra og Sveinn voru einlægir aðdáendur góðra lista og sóttu alla viðburði Listvinafélagins sem þeim var mögulegt. Heimili þeirra var líka opinn faðmur fyrir listamenn á vegum félagsins og alltaf velkomið að halda þar fundi ef á þurfti að halda.

Listvinafélagið þakkar af alhug fyrir alla vinnu og elskusemi Þóru og sendir Sveini og fjölskyldunni einlægar samúðarkveðjur.

Fyrir hönd Listvinafélagsins i Reykjavik,

Ágúst Ingi Ágústsson, formaður.