Þór frá Akureyri vann sinn fyrsta titil í körfuboltanum í hálfa öld þegar kvennalið félagsins vann Íslands- og bikarmeistara Keflavíkur, 86:82, í Meistarakeppni KKÍ í Keflavík á laugardaginn. Amandine Toi skoraði 31 stig fyrir Þór og Madison Sutton skoraði 21 stig og tók 28 fráköst.
Bikarmeistarar Keflavíkur unnu Íslandsmeistara Vals, 98:88, í Meistarakeppni karla í Keflavík á laugardagskvöldið. Wendell Green skoraði 26 stig fyrir Keflavík og Taiwo Badmus 24 stig fyrir Valsmenn.
Orri Steinn Óskarsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, sló í gegn með Real Sociedad þegar liðið mætti Valencia í spænsku 1. deildinni á laugardaginn. Hann kom inn á sem varamaður á 61. mínútu og skoraði tvö mörk fyrir Real Sociedad sem vann leikinn 3:0.
Sara Björk Gunnarsdóttir kom mikið við sögu þegar Al Qadisiya tapaði 2:1 fyrir Al Ittihad í fyrstu umferð sádiarabísku kvennadeildarinnar í fótbolta á laugardaginn. Hún lagði upp mark Al Qadisiya en mistókst að skora úr vítaspyrnu í leiknum.
Andri Lucas Guðjohnsen skoraði þriðja mark Gent í sigri á OH Leuven, 3:0, í belgísku A-deildinni í knattspyrnu í gær á 78. mínútu, tveimur mínútum eftir að hann kom inn á sem varamaður. Gent er í þriðja sæti deildarinnar, sex stigum á eftir toppliði Genk.
Martin Hermannsson átti stórleik með Alba Berlín í fyrstu umferð þýska körfuboltans á laugardaginn. Martin skoraði 20 stig og átti 11 stoðsendingar í stórsigri á Oldenburg, 105:70, en hann lék í 24 mínútur.
Hlín Eiríksdóttir er orðin þriðja markahæst í sænsku úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu. Hún skoraði sitt 11. mark í deildinni í ár þegar Kristianstad vann Brommapojkarna, 2:0, á laugardaginn. Hlín og Guðný Árnadóttir léku allan leikinn með Kristianstad.
Emilía Kiær Ásgeirsdóttir er markahæst í dönsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu eftir að hafa skorað annað marka Nordsjælland í gær þegar liðið vann AGF 2:0 á útivelli. Emilía hefur skorað sjö mörk í fyrstu sjö leikjunum og liðið er efst í deildinni með 18 stig.
Glódís Perla Viggósdóttir, fyrirliði Bayern München og landsliðsins, fékk sitt fyrsta rauða spjald á ferlinum í gær. Hún fékk sitt annað gula spjald á 51. mínútu þegar Bayern vann Werder Bremen, 4:0, á útivelli í þýsku 1. deildinni.
Willum Þór Willumsson skoraði eitt marka Birmingham þegar liðið komst á topp ensku C-deildarinnar í knattspyrnu á laugardaginn með sigri á Peterborough, 3:2. Birmingham er komið með 19 stig eftir sjö leiki.
Ísland tapaði fyrir Tékklandi, 26:21, í lokaleik alþjóðlegs kvennamóts í handknattleik í Cheb í Tékklandi á laugardaginn. Perla Ruth Albertsdóttir var markahæst í íslenska liðinu með 7 mörk, Elín Klara Þorkelsdóttir skoraði 4 og Andrea Jacobsen 3. Elín Jóna Þorsteinsdóttir varði 11 skot í marki Íslands.
Diljá Ýr Zomers skoraði eitt marka OH Leuven þegar liðið vann Waregem, 4:0, á útivelli í belgísku A-deildinni á laugardaginn. Leuven er efst í deildinni.
Cole Palmer átti stórbrotinn leik með Chelsea gegn Brighton í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á laugardaginn. Hann skoraði öll fjögur mörk liðsins í heimasigri, 4:2, þar sem öll sex mörk leiksins voru skoruð í fyrri hálfleik.
Mohamed Salah skoraði sigurmark Liverpool gegn Wolves á útivelli úr vítaspyrnu, 2:1, og Liverpool komst þar með á topp deildarinnar.
Anthony Gordon tryggði Newcastle stig gegn Manchester City, 1:1, þegar hann jafnaði metin úr vítaspyrnu sem hann krækti í sjálfur.
Leandro Trossard skoraði tvívegis fyrir Arsenal sem gerði tvö mörk í uppbótartíma gegn Leicester og vann þar með leikinn 4:2.
Tottenham lék Manchester United grátt á Old Trafford í gær og vann 3:0. Brennan Johnson, Dejan Kulusevski og Dominic Solanke skoruðu mörkin en Bruno Fernandes, fyrirliði United, var rekinn af velli fyrir brot á 42. mínútu þegar staðan var 1:0.