Um það bil 6% Íslendinga reykja daglega og er þá átt við sígarettur og vindla. Er það afar lágt hlutfall á heimsvísu að sögn Tómasar Guðbjartssonar, prófessors og hjartalæknis, og hefur markmið um að komast undir 5% þótt hálfgerð útópía í áratugi.
„Mig dreymir um að geta farið á ameríska og evrópska hjartaskurðlæknaþingið og sagt að við Íslendingar höfum náð reykingatíðni undir 5%. Þá munu allir sperra eyrun. Við eigum að stefna þangað og erum að nálgast það,“ segir Tómas sem hefur látið útbúa bæklinginn Hættu nú alveg sem ætlaður er þeim sem vilja hætta að reykja.
Tómas bendir á að sem hjarta- og lungnaskurðlæknir hafi hann sinnt fólki með kransæðastíflu eða lungnakrabbamein sem dæmi. Tóbaksreykingar hafi gjarnan spilað þar inn í. Hann hafi því öðlast mikinn áhuga á forvörnum í stað þess að vera eingöngu í eins konar slökkvistarfi þegar vágestur hefur knúið dyra hjá fólki. Auk þess geti sparast tugir milljarða í heilbrigðiskerfinu ef frekari árangur næst. „Segja má að tekist hafi sérlega vel að ná niður tíðni reykinga hjá fullorðnum og nýjustu tölur eru um 6%. Líklega deilum við þar heimsmeti með Svíum. Í Svíþjóð er reyndar mikil notkun á munntóbaki og við erum því miður að sigla í sömu átt.“
Á þremur tungumálum
Tómas vann að bæklingnum ásamt Karli Andersen, prófessor í hjartalækningum, og Láru G. Sigurðardóttur, lækni hjá SÁÁ, en Birta Flygenring og Rán Flygenring myndskreyttu. Bæklingurinn verður þýddur á ensku og pólsku en Tómas segir tíðni reykinga hærri hjá nýbúum þar sem fræðsla í heimalandinu hafi ekki verið jafn mikil og hér. „Við þurfum að ná til þeirra. Ég held að það sé raunhæft og stéttarfélög og fyrirtæki hafa sýnt þessu mikinn áhuga enda vilja þau að vinnustaðir séu reyklausir.“
Veipreykingar hafa orðið áberandi á síðustu árum. Fjallað er um þær í bæklingnum en ekki er mælt með veipi eða nikótínpúðum fyrir þá sem vilja hætta reykingum, þótt skárra sé en tjaran í tóbakinu með tilliti til lungnakrabbameins. Hægt er að kynna sér málið á lungnakrabbamein.is. kris@mbl.is