Kjaraviðræðum sem vísað hefur verið til ríkissáttasemjara til sáttameðferðar hefur fjölgað að undanförnu. Í byrjun vikunnar voru alls 17 óleyst mál á borði ríkissáttasemjara. Samkomulag hefur ekki náðst í kjaradeilu Læknafélags Íslands og…

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Kjaraviðræðum sem vísað hefur verið til ríkissáttasemjara til sáttameðferðar hefur fjölgað að undanförnu. Í byrjun vikunnar voru alls 17 óleyst mál á borði ríkissáttasemjara. Samkomulag hefur ekki náðst í kjaradeilu Læknafélags Íslands og samninganefndar ríkisins sem vísað var til ríkissáttasemjara fyrir rúmlega hálfu ári. Samkvæmt upplýsingum Steinunnar Þórðardóttur, formanns Læknafélags Íslands, eru viðræður þó í fullum gangi og fundað daglega. Hún staðfestir að læknahópurinn sé orðinn óþreyjufullur og því sé töluverð tímapressa til staðar.

Spurð að því hvort farið sé að ræða undirbúning aðgerða segir Steinunn að vonir standi til að línur fari að skýrast í síðasta lagi í næstu viku.

Fram að því sé ekki tímabært að ræða hvort stefni í verkfallsaðgerðir. Viðræður allra kennarafélaganna innan Kennarasambands Íslands við ríkið og sveitarfélögin eru komnar inn á borð ríkissáttasemjara sem fer með verkstjórn viðræðnanna. Öll aðildarfélög KÍ hafa myndað eina sameiginlega viðræðunefnd um jöfnun launa milli markaða, sem er forgangsmál kennara í viðræðunum.

23. september vísaði samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga kjaradeilunni við KÍ til ríkissáttasemjara. Í framhaldi af því vísuðu Félag framhaldsskólakennara og Félag stjórnenda í framhaldsskólum kjaradeilu sinni við ríkið til sáttasemjara.

Meðal annarra mála á borði sáttasemjara eru viðræður Félags prófessora og SNR, Eflingar og sveitarfélaganna, Sameykis og Félagsbústaða, tannlækna og Tannlæknafélags Íslands og VM og SA vegna fyrirtækja í laxeldi og tengdum greinum.