Helga Valdimarsdóttir fæddist 2. maí 1951 í Reykjavík. Hún var bráðkvödd á hjúkrunarheimilinu Móbergi á Selfossi 23. september 2024.
Foreldrar hennar voru Valdimar Guðmundsson skipstjóri, f. 18.11. 1913, d. 20.5. 1990, og Jóhanna Eyjólfsdóttir húsmóðir, f. 3.10. 1915, d. 9.12. 1984. Bræður Helgu eru Valdimar, f. 10.1. 1948, d. 27.3. 2001, og Eyjólfur, f. 23.12. 1949.
Helga giftist Óskari Alfreðssyni, f. 7.2 1944, þann 27. maí 1978, þau skildu 1998. Börn þeirra eru: 1) Jóhann Gunnar Óskarsson, f. 18.7. 1979, búsettur á Filippseyjum. 2) Lóa Björk Óskarsdóttir, f. 14.1. 1981. Eiginmaður hennar er Bjarni Ingvar Halldórsson, f. 15.8. 1977, þau eru búsett á Stokkseyri. Börn þeirra eru: a) Halldór Ingvar, f. 3.8. 2001, í sambúð með Natalíu Emblu Þórarinsdóttur, f. 7.7. 2003, þau eru búsett á Eyrarbakka, b) Vésteinn Haukur f. 31.8. 2006, c) Eyrún Arna, f. 26.11. 2008. 3) Anna Lilja Óskarsdóttir, f. 1.5. 1987, búsett í Reykjavík.
Helga ólst upp á Bárugötu 16 í Reykjavík og bar ávallt sterkar taugar til miðbæjarins. Hún var í Miðbæjarskólanum og útskrifaðist sem stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1971. Næstu ár á eftir var Helga dugleg að ferðast um landið með vinkonum sínum. Hún hafði yndi af ljósmyndun og tók mikið af myndum á þessum tíma. Helga fluttist upp á Kjalarnes með þáverandi eiginmanni og þremur ungum börnum árið 1987 eftir að hafa búið nokkur ár í Breiðholtinu. Þar tók Helga meðal annars þátt í starfi kirkjukórsins og lærði söng við Tónlistarskóla Mosfellsbæjar. Hún hafði alla tíð næmt auga fyrir listum. Hún var dugleg að sækja bæði tónleika og leiksýningar, sérstaklega í seinni tíð. Árið 1998 flutti Helga aftur á mölina og bjó á Dunhaga 13 í nágrenni æskuslóðanna allt þar til hún veiktist alvarlega sumarið 2022 og dvaldi hún síðustu 16 mánuðina á Hjúkrunarheimilinu Móbergi á Selfossi.
Helga verður jarðsungin frá Fríkirkjunni í Reykjavík í dag, 2. október 2024, og hefst athöfnin klukkan 13.
Leiðir okkar Helgu lágu fyrst saman haustið 1968 þegar við hófum nám í stærðfræðideild í MR. Hún bauð mér sæti við hliðina á sér og ég þáði það og þar hófst okkar vinátta.
Hún átti heima á Bárugötunni, stutt frá skólanum, svo utan skóla hittumst við oftast þar. Þar stóðum við í eldhúsinu kvöldið fyrir dimmisjón og smurðum brauð ásamt mömmu Helgu. Eldsnemma daginn eftir mætti bekkurinn okkar, 6-U, með drykkjarföng af ýmsu tagi, því nú skyldi skólinn okkar kvaddur, því var nauðsynlegt að eitthvað staðgott væri einnig í boði.
Á menntaskólaárunum greindist Helga með alvarlegan geðsjúkdóm, sem fylgdi henni alla tíð. Hún hóf háskólanám, en það átti ekki fyrir henni að liggja að ljúka því. Ég fór í líffræði ásamt sameiginlegri vinkonu okkar Helgu, Toggu (Þorgerði Árnadóttur).
Við vinkonurnar hittumst oft, fórum stundum saman í útilegur með ferðafélögum, oftast allar þrjár. Sérstaklega er minnisstæð ferð í Eldgjá og Landmannalaugar í hreint dýrðlegu veðri. Svo gistum við stundum í sumarbústað foreldra minna við Elliðavatn.
Ég veiktist fyrsta veturinn í líffræði af liðagigt, sem átti eftir að fylgja mér alla tíð eins og sjúkdómur Helgu. Hún sagði stundum að hún vildi óska að hún gæti talað um sinn sjúkdóm eins og ég gæti talað um minn. Það var erfitt að heyra.
Helga vann framan af við skrifstofustörf. Árið 1978 giftist hún fyrrverandi eiginmanni sínum, Óskari Alfreðssyni, og þau stofnuðu saman varahlutaverslunina ÓSAL. Svo fæddust börnin, eitt af öðru. Við vinkonurnar hittumst þó oft, þótt nóg væri að gera hjá öllum. Alltaf hittumst við í afmæliskaffi hver hjá annarri. Svo fórum við stundum saman á jólatónleika o.þ.h.
Gegnum tíðina háði heilsa Helgu henni oft, en þegar vel áraði var ýmislegt hægt að gera. Hún var alla tíð mikil handavinnukona. Hún saumaði, heklaði og prjónaði. Allir í kringum hana nutu góðs af. Hún heklaði til dæmis mjög fallegt sjal handa mér. Hún tók mikinn þátt í félagsstarfi eldri borgara og þar saumaði hún púða og fleira sem hún gaf svo á basar til góðgerðarsamtaka.
Það breyttist margt þegar Togga vinkona okkar veiktist og lést svo í febrúar 2020. Við Helga héldum þó uppteknum hætti og hittumst reglulega, allt þar til Helga greindist með krabbamein snemma árs 2022. Þótt tækist að fjarlægja krabbameinið tók þetta verulega á. Í u.þ.b. ár var hún flutt fram og aftur milli sjúkradeilda, svo manni þótti nóg um. Lengst var hún á Landakoti, sem hafði þó þann kost að hún sá kirkjuna út um gluggann hjá sér og bernskuheimilið á Bárugötunni var steinsnar frá. Svo gat hún loksins flutt á Móberg, þar sem loksins fór vel um hana, nálægt Lóu dóttur sinni og fjölskyldu hennar.
Heimsóknum mínum til hennar fækkaði nokkuð eftir að hún flutti á Selfoss, en við hjónin komum alltaf við á leiðinni úr sumarbústaðnum. Upp á síðkastið hef ég lítið getað verið á ferðinni, en við töluðum mjög oft saman í síma, sem var mjög notalegt.
En nú er komið að kveðjustund, bestu þakkir fyrir samfylgdina. Hvíl í friði elsku vinkona.
Birna Einarsdóttir.