Tarik Ibrahimagic, miðjumaður Víkings úr Reykjavík, var besti leikmaður 24. umferðar Bestu deildar karla í knattspyrnu að mati Morgunblaðsins. Tarik átti mjög góðan leik fyrir Víkinga þegar liðið vann dramatískan sigur gegn Val, 3:2, í efri hluta deildarinnar og fékk tvö M fyrir frammistöðu sína í leiknum sem fram fór á Hlíðarenda sunnudaginn 29. september. 24. umferðin var leikin á sunnudaginn og lauk á mánudaginn með leik Stjörnunnar og ÍA í Garðabæ.
Daninn Tarik, sem er 23 ára gamall, jafnaði metin fyrir Víkinga í 2:2 á 69. mínútu með frábæru skoti utan teigs. Hann tryggði Víkingum svo sigurinn með marki í uppbótartíma, aftur með frábæru skoti, úr teignum en Víkingar endurheimtu toppsæti deildarinnar með sigrinum og eru með jafnmörg stig og Breiðablik.
Tarik gekk til liðs við Víkinga í byrjun ágústmánaðar frá Vestra og hefur leikið sjö leiki með liðinu í Bestu deildinni þar sem hann hefur skorað þrjú mörk. Hann lék alls 15 leiki með Vestra fyrri hluta tímabilsins en hann gekk til liðs við Vestramenn fyrir tímabilið frá danska B-deildarfélaginu Næstved.
Hann er uppalinn hjá OB í Danmörku og á að baki sjö leiki fyrir félagið í efstu deild. Þá á hann að baki þrjá landsleiki fyrir U19-ára landslið Danmerkur. Tarik er í liðinu í þriðja sinn í sumar, líkt og liðsfélagi hans Aron Elís Þrándarson.Stjörnumaðurinn Hilmar Árni Halldórsson er í úrvalsliðinu í fyrsta sinn.