— Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ólafur Pálsson olafur@mbl.is

Ólafur Pálsson

olafur@mbl.is

„Við erum með 12 rúm í húsinu en það er mjög misjafnt hversu margar konur dvelja hjá okkur. Mest höfum við hýst 19 konur en nýting er mjög sveiflukennd. Við neitum engri konu um aðgang.“

Þetta segir Halldóra R. Guðmundsdóttir, forstöðukona Konukots, neyðarskýlis fyrir heimilislausar konur. Konukot þjónustar konur með miklar og flóknar þjónustuþarfir og hefur verið rekið síðan haustið 2020 af Rótinni, félagasamtökum sem hafa að markmiði að vera málsvari kvenna og kvára, sem eiga sér áfallasögu og/eða sögu um vímuefnavanda, og beita sér fyrir mannréttindum og velferð þeirra. Blaðamaður og ljósmyndari fóru í vettvangsferð í Konukot.

Passa að engin verði úti

Halldóra segir hlutverk Konukots fyrst og fremst að hýsa konurnar og passa að engin verði úti. „Ef á þarf að halda er sofið á sófum og í hægindastólum og ef aðsókn er mjög mikil finnum við lausnir svo allar sem þurfa fái húsaskjól.“ Konukot kemur ekki að því að útvega búsetuúrræði heldur er aðeins skýli fyrir konurnar á meðan annað úrræði er ekki í boði fyrir þær.

Opið er í Konukoti frá fimm síðdegis og til tíu á morgnana alla daga allan ársins hring. 15 konur starfa þar í 10 stöðugildum og unnið er eftir þjónandi leiðsögn og áfallamiðaðri nálgun. Boðið er upp á heita kvöldmáltíð og léttan morgunverð og þá geta konurnar þvegið af sér fatnað og notað hreinlætisaðstöðu í húsinu. Einnig er þeim útvegaður fatnaður eftir þörfum.

Húsnæðið í slæmu ástandi

Rótin rekur Konukot samkvæmt þjónustusamningi við Reykjavíkurborg og á borgin húsnæðið og ber ábyrgð á að hýsa starfsemina sem í dag er í steinsteyptu tvílyftu húsi með niðurgröfnum kjallara.

Húsið var byggt seint á 19. öld og segir Halldóra það í slæmu ástandi. Húsið lítur verr út að utan en innan þó augljóst sé að megi lappa upp á ýmislegt innan dyra. Spurð hvort það hafi greinst mygla eða annar vágestur í húsinu segir Halldóra að svo sé ekki. Það hafi verið kannað margsinnis en aldrei greinst. „Við erum að bíða eftir nýju húsnæði og höfum óskað eftir því lengi, það er í vinnslu og við erum bjartsýnar,“ segir hún en bætir því við að í húsinu sé þó snyrtilegt engu að síður. Húsið er þrifið í tvær klukkustundir á degi hverjum og þá er garðurinn við húsið einnig hreinsaður daglega.

Aðbúnaður í Konukoti er með ágætum, rúmin góð og dýnurnar stífar og góðar. Tvö svefnherbergi eru á annarri hæð hússins, bæði með fjórum rúmum og önnur tvö herbergi eru í kjallaranum, annað með tveimur rúmum og hitt með einu rúmi og einni dýnu. Þá er að auki eitt sjúkrarúm í stofunni á jarðhæðinni. Eldhúsið og stofan er á jarðhæðinni og í kjallaranum er, auk svefnherbergjanna tveggja, þvottahús, sturta og sérstakt öryggisrými.

„Við erum skaðaminnkandi úrræði og í öryggisrýminu niðri fá þær að nota vímuefni. Við erum með verkferla hvað það varðar, skráum inn, fylgjumst með og erum með ofskömmtunarúða. Öll vímuefnaneysla fer fram í rýminu og er vímuefnaneysla ekki heimil í húsinu utan rýmisins,“ segir Halldóra. Þá má hvorki reykja né drekka áfengi inni í húsinu enda fellur slíkt ekki undir skaðaminnkun. „Að sjálfsögðu kemur fyrir að þessum reglum er ekki fylgt, við reynum að vinna með gestum hússins í að framfylgja þessu enda er það allra hagur.“

Hver dagur nýr dagur

Í Konukoti eru í gildi siðareglur sem snúa að samábyrgð fólks til að tryggja öryggi í húsinu. „Gestir og starfskonur þurfa að vinna í sameiningu til að viðvera í húsi sé sem bærilegust en á sama tíma er hver dagur nýr dagur og hugmyndafræðin sem við vinnum eftir hafnar allri refsihyggju. Við viljum lágmarka frávísanir og ef við þurfum að vísa konu frá til að tryggja öryggi í húsi þá er hún velkomin aftur þegar hún treystir sér inn og aðstæður hafa róast. Þótt það sé eftir 5 mínútur.“

Halldóra segir að leitast sé við að hafa svefnfrið á næturnar en ekki sé hægt að tryggja að svo sé. „Það koma konur hingað um miðja nótt úr alls konar aðstæðum og í misgóðu ástandi. Það er ekki krafa að sofa á nóttunni. Það væri óskandi að það væri alltaf svefnfriður en þjónustan er þess eðlis að það er ekki raunhæft.“

Leggja mikið á sig

Hún bendir á að Konukot þjónusti konur sem glíma við heimilisleysi og eru með miklar og flóknar þjónustuþarfir. Þær eigi það flestar sameiginlegt að hafa orðið fyrir ítrekuðum áföllum oft frá blautu barnsbeini. „Konur sem glíma við heimilisleysi eru útsettar fyrir ofbeldi og koma oft í Konukot úr slæmum aðstæðum. Húsnæðið er þröngt, ómögulegt er að fá næði og það koma upp aðstæður sem eru ekki ákjósanlegar.“ Segir hún konum ekki vísað frá fyrir að líða illa eða vera með læti, það væri brot gegn frumskyldu Konukots, sem er að hýsa heimilislausar konur. „Stundum þarf að fórna rónni til að sjá til þess að fólk sofi ekki úti, það á ekki að koma neinum á óvart.“

Spurð hvort hafi komið upp leiðindamál í Konukoti á borð við slagsmál og önnur ofbeldismál, segir Halldóra það vissulega hafa gerst. Þá reyni starfsfólk að stöðva atburðarásina eða stilla til friðar. „Starfskonur Konukots vinna sína vinnu af heilindum og leggja mikið á sig til að fyrirbyggja uppákomur og tryggja öryggi gesta í húsi, sem er ekki auðvelt í þessum aðstæðum.“

Hvað með þjófnað og hnupl í húsinu?

„Þjófnaður og hnupl eru hluti af þessum heimi. Ein myndavél er í húsinu sem myndar helming borðstofunnar. Óheimilt er að hafa myndavélar í svefnaðstöðu og allt húsið er svefnaðstaða. Ef þjófnaður, hnupl eða innbrot í skápa koma upp er erfitt fyrir okkur að taka afstöðu. Við vitum aldrei alla söguna og stöndum ekki með einum gesti gegn öðrum. Það er ekki hluti af okkar starfi.“

Þetta er ekki einfalt

Aðspurð segir Halldóra að erfitt sé að hafa stjórn á því sem gerist fyrir utan húsið. Starfskonur fylgist með garðinum og nærumhverfi og óski eftir aðstoð lögreglu ef þörf er á. Karlmenn leiti í Konukot og eigi það til að dvelja fyrir utan húsið.

„Það getur verið vandamál og óþægilegt fyrir konurnar. Við viljum ekki að þeir séu fyrir utan húsið en þetta er ekki einfalt því við gefum mat út til þeirra sem leita til okkar þótt viðkomandi dvelji ekki í Konukoti, það á líka við um karlmenn. Okkur finnst það sjálfsagt þegar við eigum nóg af mat. Ef við getum það þá sé ég ekki af hverju við ættum ekki að gera það.“

Höf.: Ólafur Pálsson