Margrét Þóra Þórsdóttir
Akureyri
Björn Mikaelsson, fyrrverandi lögreglumaður á Sauðárkróki, hnýtir flugur af miklu kappi í bílskúr við heimili sitt á Sauðárkróki og veit fátt betra og skemmtilegra. Hann hannaði og hnýtir bleika flugu sem er til sölu og rennur allur ágóði til Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis, KAON. Hugmyndina fékk Hrönn Arnheiður dóttir hans og var Björn ekki lengi að bregðast við.
Hugmyndin kviknaði í tengslum við bleika slaufu sem er áberandi skraut á ljósastaurum á Akureyri og nágrannasveitum í október. Andvirði af sölu slaufunnar rennur til KAON. Hrönn segir það verkefni vel heppnað, það setji svip sinn á bleikan október og sig hafi langað að hrinda af stað verkefni í takt við það.
Björn ver ófáum stundum í bílskúrnum þar sem hann hefur komið sér upp góðri aðstöðu og tók hann strax vel í að hanna og hnýta bleika slaufu. Þetta er fjórða árið sem þau feðgin standa sameiginlega að verkefninu um bleiku fluguna. „Ég hef virkilega gaman af því að hnýta flugur, mér líður vel í bílskúrnum þegar ég er að dunda mér við fluguhnýtingar. Það er mikil ró og friður yfir,“ segir hann. Með honum er jafnan hundur hans, Grímur, sem veitir honum góðan félagsskap.
Góðar stundir
Björn veiddi talsvert á árum áður en kveðst of gamall til þess. Þá var hann ötull leiðbeinandi á námskeiðum í fluguhnýtingum víða um land og segir það hafa verið skemmtilegt og gefandi verkefni. „Nú held ég mig bara í bílskúrnum og hnýti flugur og það nægir mér vel. Þar á ég góðar stundir,“ segir hann og bætir við að ekki skemmi fyrir að fólk líti gjarnan inn og taki spjall um daginn og veginn. Björn starfaði sem lögreglumaður á Akureyri og Sauðárkróki á fyrri tíð og segir marga gamla vinnufélaga koma í heimsókn og þá sé yfirleitt glatt á hjalla.
Bleikfluga Björns kostar 1.000 krónur og rennur andvirðið óskipt til krabbameinsfélagsins, hann reiknar sér ekki efniskostnað og kveðst vilja leggja góðu málefni lið. Björn og Hrönn, sem sér um söluna, eru ánægð með viðtökur en segjast hafa verið frekar sein í gang að þessu sinni. „Það kemur vonandi ekki að sök, enn er talsvert eftir af október,“ segir hún. Þau ætla svo að halda ótrauð áfram næstu ár og er Björn þegar farinn að máta í huganum hugmyndir að annarri útfærslu þar sem flugan verði enn bleikari en sú sem nú er í boði. „Ég hugsa að ég hafi hausinn og búkinn bleikan næst,“ segir hann.