Einhver afdrifaríkustu ríkisafskipti sögunnar hafa verið að líða undir lok síðastliðinn áratug eða svo þegar Kína hefur slakað á stefnunni um eitt barn á foreldra. Þessi ómanneskjulega stefna olli gríðarlegum fjölda ómældum sársauka en var réttlætt með því að ríkið yrði að grípa inn í vegna ört vaxandi íbúafjölgunar í Kína.
Hvergi í frjálsu samfélagi hefði þessi stefna getað viðgengist, en í ríki þar sem Kommúnistaflokkurinn einn ræður öllu er þess háttar mögulegt. Stefnan var tekin upp árið 1979 og rekin af mikilli hörku allt þar til slakað var á klónni um miðjan síðasta áratug þegar börnum á fjölskyldu var í skrefum fjölgað í tvö. Fyrir þremur árum var fjöldinn færður upp í þrjú börn og nýlega gerðist það svo að kynntar voru aðgerðir til að „bregðast við breytingum í mannfjöldaþróun í Kína“. Þessar aðgerðir munu eiga að fela í sér greiðslu til fjölskyldna fyrir að eignast meira en eitt barn.
Þar með má segja að stjórnvöld í Kína hafi endanlega viðurkennt mistökin sem þau gerðu með því að reyna að þvinga fram breytingar á mannfjöldaþróuninni í stærstu og skelfilegustu tilraun af því tagi til þessa. En ástæða þess að horfið hefur verið frá þessari stefnu er ekki mannúðarsjónarmið heldur harður efnahagslegur veruleiki. Kína hefur um nokkurt skeið staðið frammi fyrir því að aldurssamsetning mannfjöldans er að þróast á þann veg að efnahagslífið líður fyrir það. Of fáar hendur eru á vinnumarkaði og of margir aldraðir þurfa aðstoð sem of fáir eru til að veita.
Vonandi draga kínversk stjórnvöld og aðrir þann lærdóm af þessu að ríkisafskipti séu ekki alltaf svarið, en þau geti, líka þegar tilgangurinn þykir göfugur, valdið stórkostlegum vandræðum og þeim mun meiri sem inngripin eru stórtækari.