— Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Ómar Friðriksson omfr@mbl.is

Sviðsljós

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Búast má við að Hæstiréttur kveði upp dóm í næsta mánuði í langvinnu deilumáli á milli Reykjavíkurborgar og ríkisins um úthlutun framlaga úr jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Málið á sér langa sögu og er um háar fjárhæðir að tefla, sem borgin telur að ríkinu beri að greiða.

Hefur ágreiningurinn snúist um það hvort fullnægjandi lagastoð hafi verið fyrir því að útiloka Reykjavíkurborg frá úthlutun almenns jöfnunarframlags úr jöfnunarsjóði vegna reksturs grunnskólans og framlags vegna nemenda með íslensku sem annað tungumál.

Borgin gerði kröfu um að fá greiddan tæplega hálfan sjötta milljarð kr. ásamt vöxtum. Dæmdi Héraðsdómur Reykjavíkur borginni í vil í desember á seinasta ári og var ríkinu gert að greiða Reykjavíkurborg 3,3 milljarða kr. ásamt vöxtum.

Málinu var þó ekki þar með lokið. Eins og greint var frá fyrr á þessu ári samþykkti Hæstiréttur að héraðsdómi yrði áfrýjað beint til Hæstaréttar án viðkomu í Landsrétti þar sem skilyrði voru uppfyllt um að hægt væri að áfrýja beint til réttarins.

Niðurstaða héraðsdóms var reist á því að ráðherra hefði ekki heimild í lögum til að fella niður framlög til Reykjavíkurborgar með reglugerð. Af þeim sökum voru ákvæði reglugerðar, sem útilokuðu framlög til borgarinnar, dæmd ólögmæt og talin fara í bága við lagaáskilnaðarreglu stjórnarskrárinnar.

Rökin fyrir því að Hæstiréttur féllst á að taka málið fyrir beint af neðsta dómstigi voru þau að það hefði fordæmisgildi, almenna þýðingu fyrir beitingu réttarreglna og verulega samfélagslega þýðingu að öðru leyti.

Samkvæmt upplýsingum Fanneyjar Rósar Þorsteinsdóttur ríkislögmanns og Ebbu Schram borgarlögmanns var málið flutt fyrir Hæstarétti síðastliðinn miðvikudag og er nú beðið dóms í því. Hefur Hæstiréttur fjórar vikur til að kveða upp dóm. Staðið hefur til að gera breytingar á lögum og reglum um jöfnunarsjóðinn en Fanney segir spurð um þetta að líkt og fram kom í málflutningi séu fyrirhugaðar breytingar í biðstöðu á meðan beðið er dóms.

Rætur þessa ágreinings teygja sig aftur um þrjá áratugi þegar unnið var að undirbúningi að flutningi grunnskólans til sveitarfélaganna sem átti sér stað árið 1996 og hvernig staðið var að tekjutilfærslum vegna flutningsins skv. samkomulagi sem gert var á þeim tíma, m.a. um skiptingu útsvarstekna milli sveitarfélaga og Jöfnunarsjóðs. Í framhaldi af setningu laga um færslu grunnskólans hafa svo verið settar reglugerðir um jöfnunarframlög úr sjóðnum til reksturs grunnskóla í sveitarfélögum.

Reykjavíkurborg hefur m.a. haldið á lofti í málinu dómi sem Hæstiréttur kvað upp árið 2019, þar sem fallist var á kröfu Grímsness- og Grafningshrepps á hendur ríkinu um greiðslu vangreiddra framlaga úr jöfnunarsjóði. Gerð hafði verið sú breyting á lögum um tekjustofna sveitarfélaga að heimilt væri að ákveða í reglugerð að sveitarfélög sem hefðu heildarskatttekjur af útsvari og fasteignaskatti sem teldist verulega umfram landsmeðaltal skyldu ekki njóta tiltekinna framlaga úr jöfnunarsjóði. Hæstiréttur komst hins vegar að þeirri niðurstöðu í máli Grímsness- og Grafningshrepps að ekki væri heimilt að fella niður tekjustofna sveitarfélaga nema með lögum og dæmdi sveitarfélaginu í vil.

Borgin vísaði m.a. til þessarar niðurstöðu Hæstaréttar í desember 2019 þegar hún krafði ríkið um greiðslur framlaga úr jöfnunarsjóði sem borgin hafði verið útilokuð frá eitt sveitarfélaga á árunum 2015-2019. Um væri að ræða lögbundinn tekjustofn sveitarfélaga sem borgin hefði átt rétt á. Í lok árs 2020 höfðaði borgin svo mál á hendur ríkinu.

Ríkið hefur hafnað kröfum borgarinnar og benti m.a. á fyrir héraðsdómi að ákvæði um að borgin skyldi ekki njóta þessara framlaga úr jöfnunarsjóði væru í fullu samræmi við það lögbundna hlutverk sjóðsins að jafna aðstöðumun sveitarfélaga úr frá mismunandi útgjaldaþörf og skatttekjum. Sjóðnum væri ekki ætlað að greiða öllum sveitarfélögum jafnhá framlög heldur væri hlutverk hans að jafna stöðu þeirra út frá heildaraðstæðum hvers og eins og þau nytu því mismikilla framlaga eftir landfræðilegum, félagslegum og tekjulegum þáttum.

Í niðurstöðu héraðsdóms segir að hlutverk jöfnunarsjóðs sé að jafna mismunandi útgjaldaþörf og skatttekjur sveitarfélaga með framlögum. Sveitarfélög eigi því ekki rétt á jöfnum framlögum úr sjóðnum. Dómurinn féllst á að úthlutunarreglurnar, þ.m.t. sá hluti þeirra sem kom í veg fyrir að borgin fengi jöfnunarframlag, væru byggðar á málefnalegum og lögmætum sjónarmiðum. Ákvæði í reglugerð sem útiloka framlög til borgarinnar séu hins vegar ólögmæt þar sem þau hafi farið í bága við lagaáskilnaðarreglu stjórnarskrárinnar. Borgin hafi því átt rétt á framlögum.