Volodimír Selenskí forseti Úkraínu kom til Íslands í gær til að ræða við leiðtoga Norðurlandanna og leita Úkraínumönnum stuðnings gegn innrás Rússa í febrúar 2022.
Stríðið í Úkraínu hefur staðið allt of lengi og það er hryggilegt að horfa upp á mannfallið og eyðilegginguna sem hefur átt sér stað í landinu. Innrásin var glórulaus og framganga Rússa óréttlætanleg með öllu.
Í gær birtust myndir frá bænum Vovtsjansk í Úkraínu, sem er nokkra kílómetra frá rússnesku landamærunum. Bærinn hefur nánast verið jafnaður við jörðu. Uppi standa rústir, nánast eins og beinagrindur húsa, ömurlegur vitnisburður um glópsku og grimmd Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta.
Selenskí kemur hingað til lands þegar farið er að gæta þreytu vegna stríðsins í Úkraínu. Það er ekki jafn áberandi í fréttum og áður. Stuðningurinn við Úkraínu er ef til vill jafn afdráttarlaus í orði og áður, en buddurnar eru ekki jafn opnar.
Pútín ætlar ekki að nema staðar í Úkraínu. Hann seilist til áhrifa hvar sem hann getur, nú síðast í kosningunum í Georgíu um helgina. Honum stendur á sama um velferð almennings, hvort sem það er í Rússlandi eða Úkraínu. Hann hugsar aðeins um völd og áhrifasvæði.
Selenskí var í gær spurður hvers hann óskaði Íslendingum. „Hvaða skilaboð get ég gefið?“ spurði hann á móti. „Ég óska ykkur friðar. Ég held að stærsta gildi sem fólk getur haft sé friður. Auðvitað líka lýðræði og frelsi. Frelsi er gífurlega mikilvægt. Það er það sem ég óska ykkur.“
Þetta eru þær óskir sem eiga að fylgja Selenskí héðan til Úkraínu og úkraínsku þjóðarinnar. Norðurlöndunum ber skylda til að styðja við Úkraínu af öllum mætti. Vissulega þarf meira til, en Norðurlöndin geta slegið réttan tón og vísað veginn þannig að Pútín verði ekki kápan úr því klæðinu að ráðast inn í grannríki sín með morðum og yfirgangi.