Guðrún Marsibil Jónasdóttir fæddist í Reykjavík 5. maí 1939. Hún lést á líknardeild Landspítalans 17. október 2024.

Foreldrar hennar voru Jónas Sveinsson framkvæmdastjóri, f. 30. júní 1903, d. 8. október 1967, og Guðrún Jónsdóttir húsmóðir, f. 30. mars 1903, d. 12. nóvember 1985.

Guðrún var yngst fimm systkina, systkini hennar voru Sveinn, f. 15. júní 1925, d. 28. janúar 1974; Jón Aðalsteinn, f. 18. nóvember 1926, d. 25. nóvember 2011; Kristín Sigurrós, f. 3. maí 1930, d. 22. október 2024; Guðmundur Helgi, f. 15. júlí 1933, d. 2. mars 2006; Erling Garðar, f. 24. júní 1935, d. 30. ágúst 2018.

Guðrún giftist Gísla Sumarliðasyni 19. nóvember 1960. Börn þeirra fjögur eru: 1) Sigrún Erla, f. 29. apríl 1960, gift Þorvaldi Svavarssyni og börn þeirra eru Sonja Marsibil, Katrína Hildur, Benedikt Arnar og Birta Ísabella. 2) Jón Ari, f. 2. maí 1964, sonur hans er Gísli Mikael. 3) Guðrún, f. 13. nóvember 1966, d. 17. júní 2006. 4) Arnar, f. 1. júní 1973, giftur Björk Arnbjörnsdóttir og börn þeirra eru Thelma Karen og Arnar Freyr. Barnabarnabörnin eru níu talsins.

Guðrún ólst upp og bjó alla sína ævi í Hafnarfirði. Hún lærði snyrtifræði og vann við það lengi vel með Rósu systur sinni og rak einnig snyrtivöruverslun með Völu mágkonu sinni. Síðustu ár starfsævinnar vann hún sem móttökuritari á Sólvangi. Hún hafði mjög gaman af ýmiss konar hannyrðum og var sjálf mjög handlagin.

Útför hennar fer fram frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði í dag, 30. október 2024, klukkan 15.

Elsku fallega móðir okkar og tengdamóðir er fallin frá eftir harða baráttu við erfiðan sjúkdóm. Það er þyngra en tárum taki að þú sért ekki lengur hjá okkur. Þú hefur alla tíð verið okkar stoð og stytta og umvafið okkur ást og umhyggju og okkar velferð var þér svo mikið hjartans mál. Það er erfitt að geta ekki lengur talað við þig og fengið ráð og hughreystingu. Þú kenndir okkur svo margt, elsku mamma, með þinni einstöku sýn á lífið. Náungakærleikurinn, alúðin og umhyggjusemin voru þitt aðalsmerki alla tíð. Dugnaður og kraftur einkenndu þig og þinn persónuleika, hjartahlý og ávallt stutt í bros og kímnina.

Alltaf svo flott og glæsileg kona með fallega útgeislun og góða nærveru, og ekki minnkaði ástúð þín og umhyggja þegar barnabörnin og barnabarnabörnin fóru að koma í heiminn. Þú varst svo ánægð, stolt og þakklát enda sóttu þau mikið til þín og nutu nærveru þinnar, og pönnukökurnar voru í miklu uppáhaldi hjá þeim. Og svo allar skemmtilegu sumarbústaðarferðirnar, jólaboðin og samverustundirnar sem eru ómetanlegar minningar sem við munum ávallt geyma í hjörtum okkar.

Við munum passa vel upp á pabba fyrir þig sem nú hefur misst sinn besta vin og lífsförunaut. Þið voruð svo samrýnd og mikil ást og kærleikur á milli ykkar. Tómarúmið er svo mikið og söknuðurinn svo sár.

Núna er hún komin til Guðrúnar systur okkar í Sumarlandinu sem lést langt fyrir aldur fram eftir erfið og skammvinn veikindi.

Takk fyrir allt elsku mamma. Guð geymi þig og varðveiti.

Þegar raunir þjaka mig

þróttur andans dvínar

þegar ég á aðeins þig

einn með sorgir mínar.

Gef mér kærleik, gef mér trú,

gef mér skilning hér og nú.

Ljúfi drottinn lýstu mér,

svo lífsins veg ég finni

láttu ætíð ljós frá þér

ljóma í sálu minni.

(Ómar Ragnarsson/
Gísli á Uppsölum)

Sigrún, Jón Ari,
Arnar og tengdabörn.

Þegar við hugsum til ömmu Maju er það fyrsta sem kemur upp í hugann hjá okkur öllum öll góðmennskan, hugulsemin, þolinmæðin og endalausa ástin sem hún sýndi okkur alla tíð. Bláu augun hennar, sem skinu alltaf svo skært af einskærri góðmennsku, fallega brosið hennar, hláturinn og léttleikinn. Hún átti alltaf til hvatningarorð, hughreystingu og góð ráð þegar við þurftum á að halda, en auk þess gaf hún sér alltaf tíma til að sinna okkur, tala við okkur og var forvitin um það sem var í gangi í okkar lífi. Það er ótrúlegt hvað nærveran við hana og áhugi hennar á öllu sem okkur kom við gaf okkur mikið. Hún var sjálfstæð, trygg, áreiðanleg og heiðarleg og alltaf með allt sitt alveg á hreinu. Hvorki rykkorn á heimilinu né ógreiddur reikningur, alltaf allt tipptopp. Hún var fyrirmynd okkar allra að svo miklu leyti.

Amma gerði bestu pönnukökurnar og eigum við fullt af minningum af þessum ljúffengu veitingum heima hjá henni en auðvitað mundi hún alltaf eftir að gera líka vöfflur fyrir eitt af okkur barnabörnunum sem þóttu þær betri en pönnukökur, amma klikkaði aldrei á að taka tillit til og muna eftir þörfum allra. Við eigum líka öll yndislegar minningar af því þegar við vorum í pössun hjá ömmu og afa og fengum að gista í hlýju holunni á milli þeirra og hvað sá staður lét okkur líða öruggum, við sváfum sjaldan betur en akkúrat þar. Þá eigum við líka fullt af dýrmætum minningum af sumarbústaðarferðum með þeim.

Amma var einstaklega tæknivædd en átti þó stundum í einstaka tæknivandræðum sem stundum var þrautin þyngri að útskýra í gegnum símann hvernig átti að leysa úr. Það var samt alltaf hægt að hlæja að því og gerði hún óspart grín að sjálfri sér þegar við vorum að reyna að hjálpa henni enda alltaf stutt í hlátur og grín hjá henni.

Þegar við barnabörnin fórum að fjölga okkur var amma ekki lengi að taka upp prjónana eins og henni var einni lagið og prjónaði hún og heklaði af sinni einstöku snilld peysur, kjóla, húfur, vettlinga, teppi og smekki eins og vindurinn. Handverkið var óaðfinnanlegt, allt svo fallegt og vel gert. Barnabarnabörnin minnast hennar með mikilli hlýju. Þegar þau eru spurð út í ömmu Maju tala þau um það sama og við barnabörnin, hlý og góð, skemmtileg og fyndin, og svo átti hún alltaf til eitthvert gotterí sem hún laumaði að þeim. Þvílíka lukkan fyrir þau að hafa fengið að kynnast langömmu sinni, fundið fyrir allri ástinni og góðmennskunni. Þau munu búa að þessum kynnum alla tíð.

Amma gaf bestu knúsin og erum við öll alveg sammála um það. Hlýr og þéttur faðmur, ömmulykt og hughreystandi orð, þetta var allt sem þurfti til að gera daginn betri. Hún var alltaf svo dugleg að minna okkur á hvað hún elskaði okkur mikið og hvað hún var stolt af okkur. Það er okkur svo ofboðslega dýrmætt að hafa alltaf átt hana að á hliðarlínunni, alveg sama hverjar áskoranirnar voru. Við munum sakna þessara knúsa um alla eilífð en yljum okkur við minningar um yndislega ömmu og vitum að hennar hlýi faðmur bíður okkar í Sumarlandinu.

Þín barnabörn,

Gísli Mikael, Sonja Marsibil, Katrína Hildur, Benedikt Arnar, Thelma Karen, Birta Ísabella, Arnar Freyr og barnabarnabörn.