Kristján Friðrik Guðni Friðriksson fæddist á Eyrarbakka 26. október 1945. Hann lést 18. október 2024.

Kristján var sonur þeirra Friðriks Jóns Ásgeirssonar Jóhannssonar og Sólveigar Þorgilsdóttur og eignuðust þau saman níu börn: Guðmund Jóhann, f. 27.11. 1934, d. 21.3. 1986, Distu, f. 14.11. 1936, d. 16.12. 1937, Annie Bjargfeld, f. 30.3. 1939, d. 5.4. 1985, Hrafn Vestfjörð, f. 9.5. 1940, Bjarneyju Jónínu, f. 26.8. 1948, Jóhönnu Björk, f. 2.1. 1951, Gils, f. 6.1. 1953, Bjarna Ásgeir, f. 29.5. 1956 og Guðmundu, f. 23.1. 1958, d. 26.1. 1958. Einnig átti Kristján bróður samfeðra, Allan Heiðar Sveinbjörnsson Friðriksson, f. 24.4. 1937, d. 22.2. 2024.

Kristján sleit barnsskónum í Vogahverfi Reykjavíkur en fluttist ungur til Siglufjarðar þar sem hann lauk landsprófi. Þaðan fór hann til Reykjavíkur og hóf nám í Menntaskólanum í Reykjavík. Kristján stundaði sjómennsku ásamt því að starfa í Gistiskýlinu en lengst af starfaði hann sem malari og verksmiðjustjóri hjá Kornax.

Árið 1970 gekk Kristján í hjónaband með lífsförunaut sínum, Björk Bjarkadóttur, f. 11.4. 1950. Börn þeirra eru: 1) Kristín Sólveig Kristjánsdóttir, f. 27.9. 1972, læknir. Hún var gift Bergsveini Jóhannessyni, f. 5.9. 1971. Börn þeirra eru Jóhannes Tumi, f. 6.11. 1999 og Auður Agla, f. 26.10. 1992, maki hennar er Oliver Storgaard, f. 8.3. 1993, börn þeirra eru Kristján Noah, f. 7.7. 2018 og Ronja Björk, f. 25.3. 2021. 2) Bjarki Elías Kristjánsson, f. 18.9. 1974, framkvæmdastjóri. Eiginkona hans er Helena Katrín Hjaltadóttir, f. 28.6. 1977. Börn þeirra eru Andri, f. 8.12. 1997, Matthildur Birta, f. 13.10. 2001, Lea Björk, f. 18.8. 2006 og Ari Kristján, f. 2.1. 2009. Einnig átti Kristján Sesselju Kristjánsdóttur, óperusöngkonu og tónlistarkennara, f. 4.6. 1970. Hún var gift Ólafi Hjálmarssyni, f. 16.2. 1963. Börn þeirra eru Kolbeinn, f. 4.11. 2001 og Nanna Rut, f. 27.9. 2007.

Útförin fer fram frá Háteigskirkju í dag, 30. október 2024, kl. 15.

Heilt líf í nokkrum línum. Það er í raun vonlaust verk en ég reyni.

Elsku pabbi er farinn af þessari bláu kúlu okkar. Hann er líklega að ferðast um alla Vetrarbrautina núna, alltaf áhugasamur og fróðleiksfús. Hugurinn var skarpur og skýr fram á síðustu stundu en krabbinn át upp kroppinn síðastliðnar vikur. Pabbi hélt sinni reisn og sat við stjórnvölinn fram á síðasta augnablik. Fékk að kveðja eins og hann vildi; í sínu húsi, í sínu rúmi umvafinn sínu fólki. Okkar allra besti tröllapabbi sem alltaf bar okkur öll á höndum sér. Svo hár og herðabreiður að það þurfti sérsmíðaða kistu utan um hann, enn stærri var þó hlýjan, ástin og kímnigáfan, það er ekkert box sem rúmar það magn.

Pabbi var bókaormur sem alltaf var með skrítnustu staflana á náttborðinu, skáldsögur, sagnfræði, ævisögur, árbækur Ferðafélagsins, náttúruvísindi og svo slæddist Ástríkur eða aðrar teiknimyndasögur auðvitað með. Hann var afburða vel lesinn, okkar eigin alfræðibók fyrir tíma alnetsins. Mamma og pabbi eru klárlega vinningur í foreldrabingói þessa heims. Hvort um sig ólík sem dagur og nótt en saman heild sem rúmar allt; í takt með fjölskylduna í fyrsta sæti alla tíð. Heimilið okkar í Mosó var eins og alþjóðleg lestarstöð, alltaf pláss fyrir vini og fjölskyldu til lengri og skemmri tíma. Tuttugu manns í mat með engum fyrirvara, hjartarými og húsrúm. Óformleg félagsmiðstöð fyrir vini okkar Bjarka bróður. Morgunhressleiki pabba var auðvitað óþolandi á unglingsárunum; hann vaknaður og búinn að gera heitt kakó og klár á skíði ókristilega snemma á veturna, búin að pakka sunddóti og ná í rúnnstykki á sumrin, útilegugræjur klárar til að þvælast upp í Landmannalaugar, hringinn um landið eða hvert sem hugurinn stefndi.

Mikið er ég þakklát að hafa átt pabba sem vildi vera með okkur og var til í að koma út að leika árið um kring, út um allan heim. Hann átti frábæra æskuvini sem hann fór með á veiðar alla tíð og spilaði bridge við og elskaði þá samveru. Einnig átti hann sérstaklega samheldinn og stóran systkinahóp sem er ómetanlegur á ferðalaginu gegnum lífið.

Það er oft sagt að börn læri það sem fyrir þeim er haft. Þegar ég var krakki vann pabbi í Gistiskýlinu, það var þá eina athvarf útigangsmanna í Reykjavík, stundum fékk ég að koma með niður eftir, það var alltaf uppraðað skákborð hjá pabba og kaffi á könnu, alltaf opin hurð. Þeir menn sem komu og þáðu þjónustuna komu við, tóku eina skák, það var spjallað, nær allir höfðu verið á sjó. Ég hélt lengi að allir karlarnir væru líka að vinna þarna, þeir voru allir svo skemmtilegir við mig og líka góð kleinulykt af þeim. Það var augljóst að þeim var hlýtt til pabba og honum til þeirra. Þetta voru menn sem þá voru kallaðir „rónar og ógæfumenn, heimilislausir umrenningar“. Pabbi sagði einfaldlega að þetta væru góðir og venjulegir menn sem hefðu lent í hræðilegum hlutum, oft skipskaða og þyrftu hjálp, það væri lágmark að koma vel fram við alla. Hann sagði líka að ef ég væri nógu heppin til að vera hraust og þokkalega skýr í kollinum þá væri gott að nota það til að hjálpa til í heiminum. Það er mitt verkefni fyrir lífstíð. Hann var mín mesta og besta klappstýra í öllu; hjálparsveitar- og fjallabrasi, íþróttum, námi og við að ala upp þessa grislinga mína. Þakklætið er endalaust. Pabbi er farinn, við hin í tröllafjölskyldunni höldum áfram því sem hann gerði; að hjálpa til, hugsa vel hvert um annað, finna húmorinn í kaosi hversdagsleikans og muna að gá til veðurs svo allir séu rétt búnir út í daginn. Þín elskandi dóttir,

Kristín Sólveig
Kristjánsdóttir (Stína).

Nú erum við að kveðja kæran vin sem hefur verið með okkur á þessu lífsferðalagi í 65 ár. Þakklæti og margar dýrmætar minningar koma upp í hugann þegar við hugsum um Stjána. Við kynntumst í Vogahverfinu þar sem við ólumst upp. Gengum í gegnum unglingsárin með ýmsum uppátækjum, lærdómi og skemmtilegheitum. Það var sko engin lognmolla í kringum Stjána, hann var endalaust hress og skemmtilegur og mætti alltaf með fjörið. Alltaf var hægt að treysta á Stjána og tókst hann á við þau verkefni sem hann stóð frammi fyrir, hversu flókin sem þau voru.

Við gætum skrifað margar bækur um allt sem við höfum upplifað saman og gengið í gegnum. Eins og gullaldartímabil Glaumbæjar sem var með öllu því fjöri sem hægt er að hugsa sér. Einnig minnumst við þess þegar farið var á skytterí, þar sem við gistum á Ásmundarstöðum og vöktum langt fram á nótt. Lesið var úr gæðabrandarabókum með magakrampa og tárin í augunum af hlátri. Allir stofnuðum við okkar fjölskyldur og ávallt hélst vinskapurinn.

Nú ertu horfinn á braut og skilur eftir mikið tómarúm en minningarnar munu lifa lengi.

Þú varst sterkur og fylginn þér allt til enda og munum við sakna þín ú r okkar vinahóp.

Takk fyrir ferðalagið, kæri ottum Lóló og fjölskyldu okkar dýpstu samúð.

Kristján (Stjáni), Óskar (Skari), Sigurður Garðar (Gæi), Einar og
fjölskyldur.