Magnús B. Einarson læknir fæddist í Árósum í Danmörku 29. júní 1943. Hann lést 19. október 2024.

Foreldrar Magnúsar voru Birgir Einarson apótekari, f. 24. desember 1914, d. 30. nóvember 1994, og Anna Einarson, f. 28. október 1917, d. 21. maí 1995.

Systur Magnúsar eru Unnur Einarson, f. 7. janúar 1947 og Ingibjörg Ásta Hafstein, f. 19. apríl 1953.

Magnús giftist 13. júní 1970 Dóru Þórhallsdóttur, f. 6. september 1947. Foreldrar hennar voru hjónin Þórhallur Ásgeirsson, ráðuneytisstjóri í Reykjavík, f. 1. janúar 1919, d. 12 nóvember 2005, og Lilly Ásgeirsson, f. 2. júní 1919, d. 23. janúar 2016.

Börn Magnúsar og Dóru eru: 1) Þórhallur, f. 26. febrúar 1972, maki Ólöf Gerður Sigfúsdóttir, f. 13. desember 1975, fyrri sambýliskona Þórhalls er Birta Gunnhildardóttir, f. 17. apríl 1976, börn þeirra eru Mirra, f. 2004 og Loki, f. 2009, sonur Ólafar er Svanur Gabriele Monaco, f. 2004. 2) Birgir, f. 23. september 1973, maki Mikaela Granqvist, f. 21. ágúst 1973. Börn þeirra eru Björg, f. 2004 og Ásta, f. 2007. 3) Anna Lillý, f. 14. ágúst 1979, maki Haukur Sigurðsson, f. 8. maí 1979. Börn þeirra eru Magnús Þór, f. 2006, Bjarki Þór, f. 2010 og Dóra Rún, f. 2016. 4) Einar Björn, f. 16. febrúar 1981, maki Gunnhildur Sigurhansdóttir, f. 20. september 1981. Börn þeirra eru Úlfhildur, f. 2004, Grímur, f. 2006 og Steindór, f. 2010.

Magnús ólst upp í Árósum, Neskaupstað og Reykjavík. Hann gekk í Barnaskóla Neskaupstaðar, Melaskóla, Gagnfræðaskóla Vesturbæjar og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1963. Hann lauk kandídatsprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands 1970 og varð síðar sérfræðingur í orku- og endurhæfingarlækningum. Magnús stundaði sérfræðinám í Noregi og stærstan hluta starfsferils síns starfaði hann á Reykjalundi. Hann tók þátt í að setja á fót fyrstu hjartaendurhæfinguna á Íslandi á Reykjalundi 1982 og var fyrsti yfirlæknir á HL-stöðinni og starfaði þar í nokkur ár.

Magnús gegndi ýmsum félags- og trúnaðarstörfum, m.a. fyrir SÍBS, Íþróttasamband fatlaðra, Lionsklúbb Mosfellsbæjar og Medic Alert. Honum hlotnaðist margvíslegur heiður á sínum ferli, var sæmdur gullmerki ÍSÍ, Íþróttasambands fatlaðra og Hjartaheilla og fékk sérstakt heiðursmerki frá alþjóðaforseta Lions fyrir áralangt starf í þágu Medic Alert.

Útför Magnúsar fer fram frá Neskirkju í dag, 30. október 2024, klukkan 13.

Það var svakalegt áfall fyrir rúmu ári þegar pabbi greindist með briskrabbamein stuttu eftir áttræðisafmælið sitt. Hann sem var alltaf svo hress og sprækur, leit ekki út fyrir að vera árinu eldri en sjötugur og ætlaði sko að verða hundrað ára.

Pabbi var alveg einstakur, svo kátur og jákvæður og sá alltaf það góða við allt og alla og þegar við hittumst þá tók hann alltaf á móti manni með kossum og knúsum.

Hann var endalaust að, alltaf eitthvað að brasa og helst að gera nokkra hluti í einu, ýmist uppi í bústað með fjölskyldunni eða út um hvippinn og hvappinn með vinum og vandamönnum.

Krakkarnir elskuðu að koma í heimsókn til ömmu og afa, annaðhvort í Lund eða upp í Selkot og það sem hann gat brallað með þeim, úti í vatni, í heita pottinum, að spila, syngja eða lesa fyrir þau og nákvæmlega svona man ég eftir honum sem lítil stelpa, alltaf svo skemmtilegur.

Svo var svo gaman þegar hann og Bjarki spiluðu saman á hljóðfærin sín, Bjarki á píanó og pabbi á harmonikkuna og auðvitað að syngja með, alveg fram á það síðasta.

Pabbi var svo sterkur og þolinmóður í gegnum veikindin sín og kvartaði aldrei. Ég gleymi aldrei síðustu dögunum, hann var alveg með á nótunum fram á síðasta dag og með húmorinn í lagi. Svo var svo fallegt að sjá mömmu og pabba saman, alltaf svo hamingjusöm og að hafa fengið að kveðja heima í faðmi fjölskyldunnar, haldandi í hendurnar á mömmu og hlustandi á fallega tónlist gat ekki verið betra.

Elsku pabbi, takk fyrir allt sem þú gerðir fyrir mig og okkur fjölskylduna, þú varst besti pabbi sem hægt er að hugsa sér. Ég sakna þín svo mikið.

Þín

Anna Lillý.

Í dag kveðjum við ástkæran tengdaföður minn, Magnús B. Einarson.

Það var haustið 1999 sem ég fór ég að venja komur mínar í Hlyngerði til að heimsækja yngsta son þeirra Magga og Dóru og frá upphafi var mér tekið opnum örmum. Í minningunni var Maggi alltaf brosandi, alltaf í góðu skapi og alltaf önnum kafinn. Um helgar þeyttist hann um húsið með ryksugu og önnur verkfæri á lofti. Það þurfti að laga hitt og þetta á heimilinu, skrúfa eitthvað í sundur eða saman og þess á milli passaði hann að gefa smáfuglunum úti í garði. Á kvöldin fór hann svo á fundi hjá hinum og þessum samtökunum sem hann starfaði fyrir meðfram fullu starfi sem endurhæfingarlæknir á Reykjalundi.

Orkumeiri mann var erfitt að finna en Maggi gaf sér líka tíma til að spjalla við okkur unga fólkið og fljótt áttaði ég mig á því að Maggi var einstaklega hlýr og góðhjartaður maður. Það kom bersýnilega í ljós þegar við Einar eignuðumst börnin okkar þrjú og Maggi naut sín í botn í afahlutverkinu. Það voru forréttindi að fá að deila barnauppeldinu með Magga en hann kenndi börnunum óteljandi nytsamlega hluti á milli þess sem hann henti þeim á háhest og lék við þau. Á þessum 25 árum sem eru liðin frá því ég kynntist Magga hefur margt breyst en einhvern veginn var Maggi alltaf eins. Hann var alltaf svo unglegur og glaðlegur. Með árunum vék brasið í Hlyngerði fyrir brasi við Selvatn þar sem þau Dóra áttu sína paradís. Alltaf þurfti að moka skurði, leggja göngustíga, færa til grjót og gróðursetja og ekki mátti gleyma að gefa smáfuglunum.

Nú þegar Maggi hefur kvatt okkur rifjast upp ótal minningar um góðan mann en það sem stendur upp úr er tilfinningin sem hann vakti með samferðafólki sínu. Maggi var maður sem kom með jákvæða orku inn í allar aðstæður, hann var alltaf hvetjandi og styðjandi, hann hlustaði af athygli og sagði svo skemmtilega frá. Hann valdi alltaf að draga fram það jákvæða í öllum aðstæðum og það eru forréttindi að hafa fengið að vera hluti af fjölskyldu hans og Dóru.

Hvíldu í friði elsku Maggi, ég veit að þar sem þú ert núna eru smáfuglarnir saddir.

Gunnhildur Sigurhansdóttir.

Það er skrýtið að hugsa til þess að einhver sem hefur verið svo stór hluti af lífi manns sé ekki lengur til staðar. Afi Maggi var alltaf hress, hjálpsamur og iðinn. Hann gat alltaf fundið lausnir á öllu en gerði það oftast á óhefðbundinn hátt. Flestar eftirminnilegustu minningarnar með afa eru uppi í bústað við Selvatn. Afi og amma voru alltaf uppi í bústað og á sumrin fékk hann okkur í vinnu til sín. Hann var alltaf úti og fór áhættusömu leiðina að hlutunum á meðan amma beið inni með augun lokuð. Það var til dæmis eftirminnilegt síðasta sumar þegar afi ákvað að pússa þakið á bústaðnum. Það eru ekki margir áttræðir menn sem myndu standa og klifra uppi á húsþaki.

Afi var alltaf að kenna okkur ýmislegt, til dæmis hvað fuglarnir og fjöllin í kringum bústaðinn heita og hvernig ætti að hnýta góðan hestahnút. Það eru líklega ekki margir krakkar sem fá að læra að nota hosuklemmur. Afi var alltaf mikið fyrir útivist og hreyfingu. Það er ekki langt síðan hann fékk nýtt rafmagnshjól. Þá hjólaði hann í Kópavogslaug, fór fyrst í ræktina, síðan í sund og hjólaði loks aftur heim.

Við munum sakna afa mikið en á sama tíma erum við þakklátir fyrir þann góða tíma sem við áttum með honum. Hvíldu í friði, elsku afi.

Grímur, Magnús, Loki, Bjarki og Steindór.

Í dag kveðjum við okkar kæra mág og svila, Magga. Hann og Dóra kynntust við störf á Landspítalanum, læknakandídatinn og hjúkrunarfræðingurinn. Þau Dóra og Maggi voru mjög samheldin í gegnum lífið og oftast voru þau nefnd í sömu andránni, Dóra-og-Maggi.

Maggi var dáðadrengur og hvers manns hugljúfi, glaðvær og hjálpsamur, auk þess að vera mikill mannþekkjari sem gott var að leita til. Maggi var einstaklega gefandi maður, frjór í hugsun og lausnamiðaður. Hann var iðinn við að skapa eitthvað nýtt, búa til ný tækifæri fyrir sig og fjölskyldu sína. Ávallt var það þannig að aðrir nutu góðs af, ekki síst við og aðrir í nánustu fjölskyldunni. Við eigum honum mikið að þakka að hafa skipulagt ótal atburði og jafnframt skemmtilegar minningar.

Við Selvatn ofan við Geitháls hefur Maggi í yfir 50 ár ræktað land, gróðursett tré af mikilli elju og natni og byggt bústað fyrir fjölskyldu sína. Þar hélt hann upp á áttatíu ára afmælið sitt hjá sumarhúsinu í fyrra. Birtust barnabörnin þá keyrandi á „Vinnukagganum“, skreyttum rækilega með blómum og skráningarnúmerinu hafði verið skipt út fyrir nafnplötu: Maggi. Það dylst engum sem séð hefur samskipti afans við barnabörnin að umhyggjan og ástin fyllir hvern krók og kima og kærleikurinn virkar á báða bóga.

Áhugamálin voru óteljandi og hann var uppfinningasamur og sniðugur. Eitt af uppátækjum Magga var Selvatnssundið en upphafið af því var fæðing Önnu Lillýjar 1979. Margir gesta tóku röskan sundsprett í köldu vatninu. Upp frá því er reglulega efnt til Selvatnssunds til heiðurs nýjum fjölskyldumeðlimum.

En nú er komið að leiðarlokum, nokkru fyrr en búast hefði mátt við, því Maggi var allra manna sprækastur. En sumt er það sem enginn fær undan komist og Maggi háði baráttu við veikindi sín af æðruleysi og jafnlyndi. Í því stríði átti hann fjölmarga að sem studdu hann í hvívetna, systkini, börn og barnabörn. Og að sjálfsögðu var Dóra stöðugt við hlið hans í þessum erfiðleikum, rétt eins og verið hefur alla tíð. Þau leiddust saman í gegnum lífið, hönd í hönd allt til hinstu stundar.

Blessuð sé minning Magnúsar B. Einarson.

Sverrir og Inga, Ragna og Flosi, Sólveig og Gunnar.

Nú hefur elsku Maggi minn flogið af stað.

Hugurinn reikar til æsku minnar og yndislegar minningar skjóta upp kollinum, því Maggi fændi var alltaf nálægur. Alltaf glaður, alltaf skemmtilegur og alltaf góður. Hann var mikill fjölskyldumaður og meira en til í að taka litlu frænku sína með sér í alls konar ævintýri. Það var farið á skíði, skauta og hestbak og svo fylgdi hann litlu frænku á Tjarnarborg. Eitt sinn vildi ég alls ekki fara. Þá gerði Maggi við mig samning. Við fórum inn í Hljómskálagarð og þar lét Maggi mig klifra hátt upp í tré og fór að æfa sig með myndavélina, enda var hann með mikla myndavéladellu. Ég gleymdi mér alveg við þessa skemmtun. Þannig kom hann mér inn á Tjarnarborg með bros á vör.

Svo var það ein jólin að stórfjölskyldan kom saman á Víðimelnum. Það var komið að því að dansa í kringum jólatréð og Inga Ásta var á píanóinu. Ég var yngst allra og trúði auðvitað á jólasveininn. Þegar við vorum búin að syngja og dansa við nokkur lög var dyrabjöllunni hringt og fyrir utan stóð jólasveinninn. Jólasveinninn var að sjálfsögðu dreginn inn í stofu og við héldum áfram að dansa í kringum jólatréð. Ég fékk að leiða jólasveininn og allt í einu varð mér litið á stígvélin sem jólasveinninn var í. Hann var í stígvélunum hans Magga! Og hvar var Maggi? Ég komst að þeirri niðurstöðu að jólasveinninn væri Maggi, en því var stórfjölskyldan ekki sammála. Maggi hefði bara aðeins þurft að skreppa frá. En ég var ekki sannfærð. Þegar jólasveinninn fór ákvað ég að elta hann og fór út í glugga til að fylgjast með honum. En þegar ég sá hann fara inn í næsta hús sannfærðist ég um að þetta væri ekta jólasveinn.

Maggi frændi þurfti sem sagt að banka upp á hjá nágrannanum á sjálfan jóladag.

Heillaspor Magga var svo þegar hann hitti Dóru sína og stuttu seinna var hún komin inn í líf okkar allra. Dóra og Maggi hafa alltaf verið eins og eitt; svo vel smullu þau saman.

Þegar ég var orðin 12 ára fékk ég að vera í vist sumarlangt úti á Seltjarnarnesi að passa Þórhall, frumburð Magga og Dóru. En ég veit hreinlega ekki hvort ég var að passa Þórhall eða hvort Dóra var að passa mig. Ég man eftir mér í einhverjum göngutúrum með Þórhall í kerru og úti á róló en ég man meira eftir mér inni hjá Magga og Dóru.

Í hjarta mínu er ég svo þakklát fyrir hvað Maggi frændi var alltaf góður við mig, foreldra mína og systkini. Hann var duglegur að halda stórfjölskyldunni saman og áfram voru jólaboðin haldin á annan í jólum og alltaf mætti jólasveinninn. Þegar allt var sprungið vegna fjölda var jólaboðið flutt fram á sumar og komum við þá saman öll uppi í Dal, á Þingvöllum og á fleiri stöðum þar sem einhver var með sumarbústað.

Síðastliðin ár hef ég nokkrum sinnum hitt Dóru og Magga uppi í Kópavogssundlaug og alltaf hugsað eftir að hafa kvatt þau, hvað hann Maggi eltist bara ekki neitt. Hann var alltaf jafn unglegur og hress. Í vor hringdi Maggi í Ingu Ástu og sagði henni að hann vildi hitta Víðimelsgengið. Inga Ásta hringdi í mig og um það bil viku síðar vorum við komin saman heima hjá okkur Kobba. Við fengum Unni systur hans til að koma óvænt til landsins og það er svo falleg mynd sem ég á í huga mér þegar þau systkin sáu hvort annað og föðmuðust.

Ég bið algóðan Guð að blessa og vernda Dóru, börnin þeirra og fjölskyldur.

Elsku Maggi minn, takk fyrir allt og allt.

Þín

Anna Laufey (Anna Lau).

Fallinn er frá kær vinur og starfsfélagi eftir snarpa baráttu við krabbamein. Vinátta okkar nær langt aftur í tímann. Við höfum verið í sama vinahóp í rúm 40 ár sem tengist líkamsrækt eiginkvenna okkar. Við höfum verið fylgisveinar kvennahópsins og nutum þess að hittast reglulega og ferðast með þeim um víðan völl bæði innanlands og utan. Magnús var þar hinn besti félagi, jákvæður og greiðvikinn og alltaf til í sprell ef tækifæri gafst. Gegnum árin afskaplega ljúfur og notalegur vinur með mjög þægilega nærveru.

Magnús var alla tíð léttur í spori, léttur í lund, unglegur, jafnvel strákslegur. Má nefna að áður en hann útskrifaðist úr læknadeild HÍ 1970 vann hann tímabundið með lækninum í Borgarnesi. Það spurðist fljótt út að sérlega ungur maður væri kominn á staðinn og segja sögurnar að konur í plássinu hafi sérstaklega pantað tíma stundum af litlu tilefni til að skoða „barnið“ sem sestur var í stól læknisins. Magnús sótti framhaldsnám sitt í endurhæfingarlækningum í Noregi. Eftir heimkomuna hóf hann störf við endurhæfingu á Reykjalundi. Þar vann hann brautryðjandastarf við skipulagningu endurhæfingar hjartasjúklinga, starfsemi sem hann svo stjórnaði í 20 ár. Hann skipulagði vinnuna en oft voru peningar naumt skammtaðir til tækjakaupa. Oft tókst honum að bæta það upp með hugvitssamlegri notkun þeirra tækja og tóla sem til voru og eru til um það margar góðar sögur. Hann var í viðbót við sína góðu læknisfræði mjög tæknilega innstilltur, bjargaði sér þegar á þurfti að halda og var frumkvöðull í tölvuvinnslu sjúkragagna á Reykjalundi. Hann var líka frumkvöðull að stofnun Endurhæfingarstöðvar hjarta- og lungnasjúklinga í Reykjavík (HL-stöðvarinnar) og var yfirlæknir hennar fyrstu árin jafnframt vinnu sinni á Reykjalundi.

Árið 2003 ákvað Magnús að hætta sem yfirlæknir hjartaendurhæfingar á Reykjalundi og snúa sér að öðrum verkefnum. Undirritaður var þess heiðurs aðnjótandi að fá að taka við starfi hans. Þar tók ég við góðu búi. Starfsemin stóðst fyllilega samanburð við bestu hliðstæðar erlendar stofnanir og Magnús hafði verið vakinn og sofinn yfir starfseminni alla tíð. Það var ánægjulegt að fara á ráðstefnur erlendis um hjartaendurhæfingu og finna hvað starfsemin, sem Magnús hafði komið á fót og stjórnað, stóð vel. Eftir að nafni minn hætti á Reykjalundi var alltaf gott að leita í smiðju hans og fá frá honum hollráð.

Síðustu ár höfum við átt gjöful samskipti. Þau hafa mikið tengst samskiptum og ferðalögum vinahóps okkar, alltaf mjög jákvæð. Nafni minn hefur verið hvers manns hugljúfi og það hefur verið gaman upplifa hvað samband hans og Dóru hefur verið gott og hvað hann hefur verið mikill fjölskyldumaður. Dóra og fjölskyldan áttu hug hans allan.

Ég kveð með söknuði minn kæra vin og við Snúlla sendum Dóru og fjölskyldunni okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Magnús R. Jónasson.

Hann Magnús var góður granni í sumarhúsabyggðinni við Selvatn og þau Dóra bæði, hjálpfús og greiðasamur, glaðlyndur og skemmtilegur. Bauð okkur sérstaklega velkomin að vatninu þegar við fluttum húsið okkar upp eftir sumarið 1998. Hann átti vélar og tæki umfram aðra á þessum slóðum, gröfu, tröllafjórhjól, kerru, orf, fuglasjónauka og víst ýmislegt fleira. Nokkrum sinnum kom hann með gröfuna og liðsinnti okkur við vatnsveitu o.fl., en hann náði góðum tökum á græjunni. Við sátum saman í stjórn vegafélagsins okkar við vatnið í mörg ár. Ekki eru stjórnarstörfin þar íþyngjandi, en þau gáfu gott tilefni til að hittast, skrafa og gleðjast yfir rauðvínsglasi eða tveimur. Maggi kunni vel að skemmta sér, gekk þó hægt um gleðidyr, óvílinn og velviljaður. Ég þekki marga sem hann sinnti sem læknir á Reykjalundi og bera honum allir vel söguna, sögðu hann jafnan hafa verið hvetjandi og uppörvandi. Það er enda svo að öll glaðværð léttir mönnum lífið að vissu marki og það vissi hann. Magnús var drengskaparmaður sem birtist m.a. í því að hann keypti hús og land af rosknum nágranna okkar þegar bankar ætluðu að hirða það. Gamli maðurinn bjó síðan í öryggi þar til lokadægurs.

Síðast þegar við hittumst hafði sjúkdómurinn sett mark sitt á Magnús, en hann var eftir sem áður ræðinn og líkur sjálfum sér. Nú er hann allur og við söknum vinar í stað. Það er hlutskipti margra á hinum efri árum. Að leiðarlokum þökkum við Magnea fyrir afskaplega trausta og ánægjulega samfylgd og sendum Dóru og fjölskyldunni samúðarkveðjur.

Sölvi Sveinsson.