Stefanía Sigrún Ólafsdóttir fæddist í Reykjavík 14. desember 1957. Hún lést í faðmi fjölskyldunnar á Landspítalanum í Reykjavík 12. október 2024.
Foreldrar hennar eru Ólafur Ágústsson, f. 26.2. 1935, d. 3.9. 2017, og Magnea Hjálmarsdóttir, f. 18.7. 1939. Systkini Stefaníu eru Jórunn Ólafsdóttir, f. 8.9. 1959, Kolbrún Ólafsdóttir, f. 28.4. 1963, Sigrún Ólafsdóttir, f. 16.9. 1965, og Jón Ágúst Ólafsson, f. 8.8. 1972.
Stefanía giftist 3.9. 1977 Kristni Jóni Kristinssyni, f. 18.2. 1953. Foreldrar hans eru Kristinn Kaj Ólafsson, f. 14.5. 1932, d. 12.8. 2021, og Súsanna María Kristinsdóttir, f. 13.7. 1935.
Börn þeirra Stefaníu og Kristins eru: 1) Kristinn Ólafur, f. 28.4. 1978, eiginkona Íris Björk Ásbjarnardóttir, f. 14.9. 1982, börn Mikael Andri, f. 7.2. 2005, Viktor Ágúst, f. 9.4. 2008, Kristinn Arnar, f. 5.9. 2010, og Tómas Fannar, f. 13.5. 2014. 2) Páll Ágúst, f. 23.12. 1981, d. 23.12. 1981. 3) Stefán Freyr, f. 28.12. 1982, eiginkona Imane Errajea, f. 12.11. 1992, barn Lilja Helena, f. 12.9. 2014. 4) Súsanna María, f. 28.8. 1989, barn Björgvin Elí, f. 25.9. 2014.
Stefanía bjó fyrstu tvö árin með foreldrum sínum á Bárugötu í Reykjavík og fluttu þau síðan á Tjarnarstíg 11 á Seltjarnarnesi þar sem hún ólst upp.
Hún hóf skólagöngu sína í Mýrarhúsaskóla og stundaði einnig nám í Sjúkraliðaskóla Íslands og Fjölbrautaskólanum í Breiðholti.
Stefanía starfaði sem sjúkraliði á Landakoti í 18 ár. Í framhaldi af því fór hún að vinna við heimahjúkrun á Seltjarnarnesi og vann einnig við verslunarstörf í Reykjavík um árabil. Hún stofnaði svo fyrirtæki sitt Nýjaland ehf. árið 2006, en þar rak hún m.a. heilunarskóla og verslun.
Útförin Stefaníu fer fram frá Seltjarnarneskirkju í dag, 30. október 2024, kl. 15.
Stefanía tengdadóttir mín var yndisleg manneskja og minningarnar um samveruna við hana eru dýrmætar í huga mínum þegar við verðum að kveðja hana. Stundirnar með henni, syni mínum og barnabörnunum eru ómetanlegar. Það er ekki alltaf sjálfgefið að hafa börnin sín og barnabörnin hjá sér á öllum tyllidögum og við höndina með sér í lífinu. Ég þakka innilega fyrir það af öllu mínu hjarta.
Ég þakka Stefaníu fyrir umburðarlyndið sem hún sýndi mér og þá óeigingirni að lofa mér að njóta þess að hafa elsku börnin þeirra alltaf þegar við Kristinn vildum fá að hafa þau.
Stefanía lærði höfuðbeina- og spjaldhryggjarmeðferð. Hún átti þá fallegu dyggð að hlusta og halda vel utan um þau sem hún sinnti. Það segir sína sögu að fólk kom til hennar aftur og aftur. Hún stofnaði glæsilegt fyrirtæki sem bar vitni um fegurðarskyn hennar og það hlýlega andrúmsloft sem hún skapaði. Súsanna María dóttir hennar starfaði með henni af mikilli prýði og tók á móti fólkinu með brosi og þægilegri þjónustulund.
Ég veit ekki hver orti þetta litla ljóð en mér finnst það eiga vel við Stefaníu:
Þú ert það sem þú öðrum miðlað hefur
og allar þínar gjafir lýsa þér
því líkt og sólin ljós og yl þú gefur
og lífið daprast ef sólin ekki skín.
Svo viðmót þitt á alla áhrif hefur
og undir því er komin gæfa þín.
Ég bið guð að blessa þig og þakka liðna tíð.
Súsanna M. Kristinsdóttir.
Margar minningar koma upp í hugann þegar við hugsum um elsku Stebbu en það sem stendur upp úr hjá okkur er hvað hún var ljúf, þægileg og hafði góða nærveru.
Hún hugsaði vel um sitt fólk en talaði ekki hátt um það. Stebba var hlý sál og var ekki hrædd við að segja sína skoðun og stóð föst á sínu.
Stebba kom inn í vinkonuhópinn á unglingsárum okkar, hún var árinu yngri en við hinar en féll strax vel í hópinn. Ýmislegt tókum við okkur fyrir hendur svo sem að reyna að komast á böll sem við höfðum ekki aldur til. Sveitaballaferðirnar voru vinsælar sem og sumarbústaðaferðir og ýmist annað skrall. Hópurinn hefur haldið saman og hist reglulega, þótt skröllunum hafi fækkað.
Stebba var svo heppin að hitta hann Kidda sinn þegar hún var sautján ára gömul. Það var mikil gæfa fyrir þau bæði. Stebba elskaði börnin sín, Kidda sinn og barnabörnin sín meira en allt.
Stebbu verður svo sannarlega saknað af okkur öllum en minning um hana lifir á meðan við tölum um hana.
Samúðarkveðjur til allra hennar ástvina.
Auður (Ausa), Lilja, Margrét (Gréta), Ragnhildur (Hilda) og Vigdís (Dísa).
Elsku Stebba.
Nú ert þú komin yfir í sumarlandið þar sem ljósið mun ríkja. Ég er svo þakklát fyrir vináttu okkar. Þú hafðir einstaklega góða nærveru og þú varst svo sönn og heilsteypt manneskja.
Vinátta okkar hófst þegar þú varst þriggja ára og ég fjögurra. Minningin er mér ljóslifandi, ég var nýflutt í hverfið. Ég kíkti gegnum grindverk og sá þig sitja í sandkassa og moka í fötu. Mamma þín var í glugganum og sagði að ég þyrfti að fara norður fyrir húsið til að komast inn í garðinn. Upp frá því urðum við perluvinkonur og segja má óaðskiljanlegar í mörg ár. Ég var árinu eldri og fékk að ráðskast dálítið með þig þegar við vorum yngri, t.d. taldi ég þig á að koma með mér í sund þegar ég var fimm ára en þú aðeins fjögurra og stuttu síðar fór ég með þig í strætó til ömmu minnar. Svo faldi ég þig milli tvöföldu hurðanna á svölunum og færði þér samloku. Þessi uppátæki mín voru afar illa séð af fullorðna fólkinu enda fjölskylda þín orðin dauðhrædd. Ég var bara svo ákveðin í að vilja hafa þig nálægt mér.
Margt brölluðum við saman vinkonurnar en uppáhaldsleikvöllurinn var fjaran þar sem við dvöldum löngum stundum. Minningin er sterk þegar við stóðum uppi á klettunum og sungum sjómannasöngva á móti vindinum út á hafið, þar vorum við í essinu okkar enda báðar mikil náttúrubörn. Svo stofnuðum við líka dansklúbb og létum mæður okkar sauma sams konar köflótta skokka á okkur. Þú varst ótrúlega dugleg alla tíð. Ég man hvað hún mamma dáðist að þér þegar hún sá þig stinga upp stóra kartöflugarðinn á Tjarnarstígnum, hjálparlaust. Amma mín, sem ekki var allra, bar líka mikla virðingu fyrir þér og ljómaði þegar minnst var á þig.
Þú trúlofaðist honum Kidda þínum ung að árum og samband ykkar var fallegt og gott. Ég fylgdist með þegar þið kynntust og hvað það kom til á skemmtilegan hátt. Þið studduð hvort annað í blíðu og stríðu og eignuðust fjögur yndisleg börn, en drengurinn ykkar sem dó í fæðingu var alltaf hluti af ykkar fjölskyldu. Í þínum huga lék enginn vafi á að fjölskyldan var í fyrsta sæti. Þú gafst þeim alla þína umhyggju og ást.
Tengsl okkar voru sterk. Þú varst mér ómetanlegur vinur á erfiðustu stundum ævi minnar. Fyrir það er ég óendanlega þakklát, þú hafðir svo mikið að gefa. Það var mér líka dýmætt þegar þú tókst að þér að vera guðmóðir barnanna minna.
Þú fylgdir ávallt hjartanu og eltir drauma þína. Það var ekki tilviljun að þú skyldir læra heilun og höfuðbeina- og spjaldhryggjarmeðferð. Þú hafðir einstaka andlega hæfileika og hjálpaðir svo ótal mörgum á lífsleiðinni.
Styrkur þinn og æðruleysi kom skýrt fram þegar þú fékkst heilablóðfall fyrir þremur árum. Þú lagðir ekki árar í bát heldur hélst áfram af þínum framúrskarandi dugnaði og yfirvegun.
Elsku Maddý, Kiddi, Kristinn Óli, Stefán og Súsanna og fjölskyldan öll, ykkar sorg er mikil en minningarnar um einstaka manneskju munu lýsa ykkur og ylja um alla tíð.
Elsku Stebba, þín styrka og blíða sál mun alltaf vera með okkur.
Þín
Sigríður Hrafnkelsdóttir (Sista).