Hreinn Bergsveinsson fæddist 6. júlí 1934 í Ólafsvík. Hann lést á heimili sínu í Kópavogi 17. október 2024.
Foreldrar hans voru Bergsveinn Haraldsson, kennari í Ólafsvík, f. 4. september 1895, d. 6. október 1945, og Magdalena Ásgeirsdóttir frá Fróðá, f. 13. nóvember 1903, d. 14. október 1992. Systkini hans eru Knútur f. 1925, d. 2011, Auður Ólína, f. 1927, d. 1928, Auðunn, f. 1929, d. 2016, Ragnhildur Guðrún, f. 1931, d. 2017, Auður Jóhanna, f. 1936, d. 2014, og Bergljót, f. 1942.
Hreinn lauk landsprófi frá Gagnfræðaskóla Vesturbæjar í Reykjavík 1952 og hóf nám við Menntaskólann í Reykjavík sem hann lauk ekki. Hann sótti margháttuð námskeið í tryggingarfræðum, sölutækni og fleira frá 1963. Hreinn var afgreiðslumaður í Kiddabúð í Reykjavík 1953-1955 og verslunarstjóri KRON á Bræðraborgarstíg 1955-1958 og útibússtjóri Kaupfélags Árnesinga í Þorlákshöfn 1958-1963. Hreinn var starfsmaður Samvinnutrygginga í Reykjavík frá 1963, tjónaeftirlitsmaður 1963-1964, fulltrúi í tjónadeild 1964-1967, fulltrúi í söludeild og umsjónarmaður með umboðum félagsins 1967-1974, fulltrúi í fjármáladeild og starfsmannastjóri frá október 1974. Þá var hann deildarstjóri bifreiðadeildar og síðast deildarstjóri fjármáladeildar VÍS.
Hreinn sat í stjórn slysavarnardeildar í Þorlákshöfn frá stofnun hennar. Hreinn var formaður félags starfsmanna Samvinnutrygginga og Andvöku 1969, sat í stjórn launþegadeildar starfsmanna VR 1969-1974 og í trúnaðarmannaráði, samninganefnd og kjararáði VR 1969-1974. Hann sat í stjórn VR 1974-1975 og í fulltrúaráõi Vinnumálasambands samvinnufélaganna frá 1980. Hann var í Rótarýklúbbi Kópavogs, þar af forseti árin 2004-2005. Hann var virkur stjórnandi og þátttakandi í púttklúbbi Ness og í Leikfimihópi Breiðabliks og var sæmdur heiðursnafnbótinni Gullbliki árið 2005.
Hreinn kvæntist Valgerði Pálsdóttur, f. 2. nóvember 1936, þann 2. nóvember 1954. Foreldrar hennar voru Páll Guðmundur Þorleifsson frá Siglunesi, f. 20. desember 1910, d. 8. maí 1977, og Elka Guðbjörg Þorláksdóttir, f. 23. janúar 1915, d. 15. maí 1992.
Börn þeirra eru 1) Páll, f. 5. september 1957. 2) Bryndís, f. 2. ágúst 1959, gift Hilmari Sighvatssyni, f. 1959, börn þeirra eru Árni Hjörvar, Torfi Geir og Diljá. 3) Nanna, f. 30. desember 1961, gift Gísla Björgvinssyni, f. 1959, börn þeirra eru Bryndís og Andri. 4) Bergljót, f. 19. ágúst 1965, gift Magnúsi Möller, f. 1963, börn þeirra eru Björn Valgeir, Daði Már og Heiðrún María. 5) Hreinn Valgerðar, f. 14. maí 1968, giftur Halldóru Dýrleifar Gunnarsdóttur, f. 1959, börn Halldóru eru Hallgerður Guðrún og Bergþóra. Langafabörnin eru sjö talsins.
Útför Hreins fer fram frá Kópavogskirkju í dag, 30. október 2024, klukkan 13.
Elsku hjartans pabbinn minn hefur nú kvatt okkur að sinni. Eftir snörp veikindi gaf líkaminn sig og krabbameinið sigraði. Ég vakti yfir honum tvær dýrmætar nætur og fékk að halda í höndina sem hefur leitt mig gegnum lífið og styrkt mig, verndað og leiðbeint af kærleik og hlýju. Fyrir það er ég þakklát.
Pabbi sagðist alltaf hafa verið sólarmegin í lífinu, fann ástina ungur og átti mjög innihaldsríkt og gott líf. Hann fann mömmu í Skagafirðinum er hann vann við vegavinnu og þau giftu sig með leyfi forseta 18 og 20 ára. Pabbi ólst upp við kröpp kjör í Bjarnahúsi í Ólafsvík en talaði alltaf vel um æskuna og átti fallegar minningar frá lífinu undir Jökli. Pabbi hans var kennari og voru þeir feðgar mjög nánir. Það var honum, 11 ára gömlum, því mikill og sár missir þegar pabbi hans dó úr hvítblæði í október 1945. Mamma hans tók þá erfiðu ákvörðun ári síðar að flytja með barnahópinn sinn suður í Kópavog. Þannig varð Kópavogurinn okkar bær og þó hann og mamma hafi byggt hús í Þorlákshöfn og á Seltjarnarnesi var taug sem togaði og 1966 fluttum við í Voginn okkar góða og þau festu rætur þar og hafa búið þar síðan. Það var gott að alast upp í Kópavogi og pabbi og mamma tóku þátt í öllu sem við systkinin tókum okkur fyrir hendur. Þau voru frábærir foreldrar og leyfðu okkur að vera við sjálf, njóta okkar og styrkleika okkar, voru hvetjandi og dugleg að koma á viðburði og taka virkan þátt í lífi okkar og starfi. Pabba fannst þeim mömmu hafa tekist þokkalega með uppeldi barna sinna og því skildu þau ekki af hverju yngsta dóttirin tók þá ákvörðun að verða Valsari. Eiturgrænum Blikunum þótti það algerlega óskiljanlegt en virtu þó alla tíð þessa ákvörðun. Sjálf voru þau strangheiðarlegir Blikar og sóttu bæði kvenna- og karlaboltann samviskusamlega og studdu sitt fólk. Þau voru alltaf mætt í sætin sín og oft sagt í gamni að fyrst Hreinn og Vallý væru mætt gæti leikurinn hafist! Það gladdi þau ótrúlega mikið að vera heiðruð sem Gull-Blikar árið 2005 og hanga skjölin tvö í bókaherberginu þeirra. Þar úir líka og grúir af bikurum og verðlaunagripum sem þau hafa unnið í púttinu gegnum tíðina en það áhugamál hafa þau stundað lengi.
Pabbi og mamma hafa aldrei kunnað að láta sér leiðast. Þau byggðu og ræktuðu Nýlendu í Grínsnesi og dvöldu í mörg sumur en mættu á Blikaleikina og í púttkeppnir Púttklúbbsins Ness þess í milli. Á veturna var það leikfimi og tipphópurinn hjá Breiðabliki. Sólina sóttu þau svo til Kanaríeyja. Pabbi var sólskinsbarn og því alltaf stutt í brosið og glettnina en hann hafði líka sterkar skoðanir og fylgdi eigin sannfæringu alla tíð. Hann var hæfileikaríkur, þrjóskur, skemmtilegur, skapandi, ákveðinn, rökfastur, ábyrgur, leiðbeinandi, elskandi og gefandi alla daga. Síðasta árið fór að halla undan fæti. Hann greindist með krabbamein í fæti og í maí í fyrra var fóturinn tekinn. Hann var jákvæður og tilbúinn að takast á við verkefnið en fékk ekki meiri tíma. Hann vissi hvert stefndi og var sáttur með árin 90.
Nú aldan brotnar hæg og hljóð við strönd í Ólafsvík.
Jökullinn til himins rís, sú fegurð engu lík.
Um Nesið hljóðlátt hvíslar golan fréttina um það
að hann sé kominn aftur heim á æskudraumastað.
Lengri grein á:
www.mbl.is/andlat/
Þín dóttir,
Bergljót (Beggan þín).
Lífsins fley
Á bryggjunni hnípinn og sorgmæddur hópurinn stendur,
harmþrunginn fylgist með fleyinu sigla á braut,
syrgjendur grátandi kveðja og haldast í hendur,
sársaukinn nístir og sorgin er kvöl þeirr’ og þraut.
Rámri og grátklökkri röddu er hvíslað í barmi:
„Æ þarna fer hún – við samferða verðum ei meir.“
Missirinn mikill og hugir svo þrungn ir af harmi
að eitthvað í hjörtunum fölnar og visnar og deyr.
En huggandi englarnir mildandi hlutverki sinna,
harm þeirra sorgmæddu sefa og umvefja ást,
með heilandi kærleika ljóssins þeir endalaust vinna,
hughreysta þá sem af söknuði kveljast og þjást.
Svo hverfur hún syrgjendum sjónum og tíminn hann hikar,
hvít seglin ber örstutt við blóðlitað sólarlag,
í síðasta sinnið á geislandi skútuna blikar
og bundinn er endi á ævinnar sólríka dag.
Á annarri bryggju er hópur sem ákafur bíður,
fylgist með fleyi sem bráðlega ströndu mun ná.
Skútan svo tíguleg hljótt yfir hafflöt inn líður.
„Hún kemur!“ er hrópað af einlægri gleði og þrá.
Brosandi hópurinn færir sig land göngu nærri,
breiðir út faðminn og biðin er óbærileg.
Er fleyið nær landi er heilsað með kveðju svo kærri,
móttakan einstök og hamingjan undursamleg.
Til Sumarlands þreyttar ná sálir frá jarðnesku sviði,
sameinast kærleikans ljósi í birtu og yl,
ljómandi sólskinið baðar allt fegurð og friði,
tákn þessa tíma sem verður að eilífu til.
(Bergljót Hreinsdóttir)
Góða ferð, elsku tengdapabbi, og takk fyrir allt.
Magnús Möller.
Afi. Besti afi.
Ég var (og er) í Taílandi þegar ég fékk fréttirnar um að þú værir farinn, ég trúi því varla þar sem ég fékk að sjá þig daginn áður en ég fór út. Þá varst þú svo hress og kátur að segja sögur og borða kökur. Mér þykir leitt að ég missi af jarðarförinni en ég veit að þú vilt að ég njóti þess að vera í þessu fallega landi. Það er enn svo óraunverulegt að þú sért farinn og að næst þegar ég kem í heimsókn í Funó verðir þú ekki þar með opinn faðminn og prins póló.
Ég horfi í kringum mig í Taílandi og ég sé grænan, Blikagrænan, lit úti um allt. Litinn sem minnir svo á þig og ömmu í stúkunni í Kópavoginum. Ég ætla að taka myndir af öllum fallegu grænu litunum sem ég sé. Ég tek myndir af laufum, stuttbuxum, bolum og höttum hjá fólki. Ég dunda mér við þetta verkefni með tár í augunum en síðan er eins og ýtt sé á takka, það fer að rigna og samstundis eru allir sem ganga fram hjá í grænu regnponsjói eða í grænum flíkum. Trén, fólkið, skilti, búðir, allt grænt. Það þyrmir yfir mig, hlátur og tár, eins og það væri merki frá afa um að njóta en ekki vera að brasa í þessu.
Eftir þetta horfi ég á hvern einasta fallega græna lit í kringum mig, brosi og tek inn stundina.
Ég er svo þakklát fyrir þig, afi, svo yndislegur og ljúfur maður. Hugsa til þín í hvert skipti sem ég sé Blikagrænan lit og prins póló.
Elska þig, afi minn.
Heiðrún María.
Skyr með nóg af sykri, ristað brauð með sultu og svo spiluðum við ólsen-ólsen áður en afi fór niður í geymslu og sótti berjatínurnar og þotið var í berjamó.
Á fínasta Opel landsins þutum við inn í hraunið í Hafnarfirði, afi passaði vel upp á bílinn sinn og hélt honum alltaf skínandi hreinum að innan sem og utan og Breiðablikstreflarnir lágu snyrtilegir fyrir aftan höfuðpúðana tilbúnir til að vera gripnir með á næsta Breiðabliksleik. Ég var svo stoltur af að eiga afa og ömmu sem mættu á alla Breiðabliksleiki og ég gat alltaf fundið þau þar, enda vel merkt í grænu með ullarteppi yfir fótunum og heitt súkkulaði á brúsa í sínum sætum í stúkunni. Við söfnuðum svo miklu af berjum enda mjög spennt að fá að sjá ömmu breyta þeim í sultu. Það var smá erfitt að safna því við borðuðum meira en við settum i fötuna en afi safnaði langmest í sína fötu svo við höfðum engar áhyggjur þó við værum með minna í okkar fötum. Þegar öllu var svo safnað saman vorum við með fulla fötu af bláberjum, og með bláar varir og bláa putta var stokkið inn í bíl og haldið í Funalindina. Á heimleiðinni var stoppað í bakaríinu og gripin með aðeins meiri sætindi þótt amma væri búin að baka fullt af kökum og við krakkarnir værum mjög spennt að fá kökur og snúða, en það var enginn spenntari en afi sem elskaði fátt meira en kökur og sætindi, gleðin skein af honum. Þegar heim var komið raðaði amma öllum kræsingunum á borðið fyrir okkur krakkana og afa, sem sagði fullt af skemmtilegum sögum á meðan. Eftir kaffið röðuðum við okkur við vaskinn og í sameiningu skoluðum við bláberin og bjuggum til sultu og settum í fínar krukkur. Svo tók við sjónvarpsgláp enda allir þreyttir og sælir eftir svo skemmtilegan og viðburðaríkan dag. Ding-dong! Mamma og pabbi voru komin að sækja okkur, fullt af knúsum og kossum og maður hlakkaði strax til að koma aftur í pössun til afa og ömmu.
Góða ferð í Sumarlandið, afi minn, sjáumst þar!
Elska þig.
Þinn
Daði Már.